Skírnir - 01.09.1994, Page 225
SKÍRNIR
VALD ÁSTARINNAR
495
eðlislæga árásarhneigð manna þar sem hún neiti ýmist að viðurkenna til-
vist slíkra hvata eða beiti hrárri valdbeitingu til að hefta útrás þeirra. Sið-
menning sem beitir slíkum aðferðum horfir framhjá því að árásarhneigð-
in „fullnægir [...] lífsnauðsynlegum þörfum sjálfsins og veitir því stjórn á
náttúrunni" (62). Auk þess miðar hrá valdbeiting að því að þvinga menn
til réttrar breytni en hirðir í reynd ekki um að siðmennta þá. Sá sem hef-
ur enga aðra ástæðu til að hlýða boðum og bönnum siðmenningar en
óttann við refsingar mun ávallt geta fundið áhættulitlar leiðir til að svala
árásargirnd sinni. Hann getur leitað að „réttmætum" tilefnum til hrárrar
valdbeitingar eða beitt grimmilegum aðferðum til að ná fram ætlunar-
verki „sem unnt hefði verið að fá framgengt með mildari ráðum“ (52).
Fleiri skuggar eiga eftir að bætast við þessa dökku mynd Freuds. Eft-
ir hina raunsæju endurtúlkun á aðstæðum mannsins, sem nú virðast sýnu
þungbærari, girðir Freud fyrir nokkrar leiðir sem menn fara til að sefa
kvíðann í þessum fjandsamlega heimi. I því augnamiði skoðar hann
hvernig menn leita á náðir trúarbragða, náttúrurómantíkur, hugmynda
um sæluríki á jörð og hvernig þeir setja traust sitt á margvíslega aðra
þætti siðmenningar.
Freud grefur undan trúverðugleika guðshugmyndarinnar með þeirri
kenningu að hún eigi rætur að rekja til barnslegrar þrár manna eftir að
eiga algóðan og verndandi föður. Hann færir að vísu ekki fram ný heim-
spekileg rök gegn tilvist guðs heldur leitast við að skilgreina trúarbrögð-
in sem sálfræðilega aðferð er mótast hafi í glímu mannsins við óblíð ör-
lög og þann grimma heim sem hann byggir. Meginbroddurinn í gagnrýni
hans á trúarbrögðin felst í að benda á að þessi aðferð sé úrelt og vinni
raunar gegn upprunalegu markmiði sínu. Trúarbrögðin ali á kvíða, sektar-
kennd og taugaveiklun. Guðshugmyndin, sem þegar sé orðin völt vegna
heimspekilegra efasemda, haldi ekki velli þegar beitt er sálfræðilegum
rökum.3
Freud hafnar því einnig að maðurinn eigi afturkvæmt til óspilltrar
náttúru þar sem hann geti lifað einn og heill, í sátt og samlyndi við aðra
3 í inngangi að Undir oki siðmenningar segir Sigurjón Björnsson að kenning
Freuds geti ekkert sagt okkur um trúarlegan raunveruleika heldur fræði hún
okkur eingöngu um það hvernig einstaklingurinn meðhöndli hann (11). Þessa
skoðun tel ég rétta og það er einnig rétt að tilgátan um tilvist guðs gæti reynst
sönn jafnvel þótt rök Freuds væru það líka. Rök Freuds útiloka þannig ekki
möguleikann á tilvist guðs. Ef þau eru traust þá er hins vegar óskynsamlegt að
veðja á tilvist guðs. Þetta má útskýra með dæmi: Segjum sem svo að ég sé
staddur ásamt öðrum manni í lífsháska. Fylgdarmaður minn segist hafa fundið
leið okkur til bjargar. Ég hef fulla ástæðu til að trúa honum, þangað til ég
kemst að því að hann hafi ekkert við að styðjast nema óskhyggju. Auðvitað
gæti hann haft rétt fyrir sér, en það hlýtur að vera óskynsamlegt af mér að láta
stjórnast af trú hans.