Skírnir - 01.09.1994, Page 226
496
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
menn. Þangað geti maðurinn ekki horfið aftur því þar hafi hann aldrei
verið. Hin útbreidda trú siðmenntaðra manna á náttúrulegt sæluástand
fyrir daga siðmenningar beri því glöggt vitni hversu vonsviknir þeir eru
með lífskjör sín. Þótt Freud skilji mætavel þau vonbrigði gyllir hann
ekki fyrir sér náttúrlegt ástand manna því í slíkum aðstæðum birtist
maðurinn, hið þunglyndislega sveinsstykki náttúrunnar, sem „óarga dýr,
sem [sé] framandi að sýna sinni eigin tegund nokkra miskunn" (52).4
Loks reynir Freud að hnekkja tiltrú manna á að róttækar breytingar
á samfélagsgerðinni nægi til að skapa fyrirmyndarríki friðar og frelsis á
jörðu. Maðurinn fái hvergi umflúið eðli sitt. Arásargirnin, hið óforgengi-
lega einkenni manneðlisins, muni fylgja honum eftir þótt hann flakki á
milli samfélaga eða samfélagsgerða. Sú kenning sameignarsinna að afnám
eignarréttarins leiði af sér samfélag þar sem ofbeldi og kúgun fyrirfinnist
ekki, er reist á firru að mati Freuds. Árásargirnin sé ekki afleiðing eignar-
réttar. Hún ríki næstum einráð á meðal frumstæðra manna og hana megi
finna hjá ungabörnum sem lítinn eða engan skilning hafi á eignarrétti
(54)'
Halda mætti áfram að rekja dæmi þar sem Freud varar við óhóflegri
bjartsýni og oftrú á töfralausnum á vanda mannkyns.5 I því samhengi
skiptir miklu máli að hann lætur í ljós sterkar efasemdir um að siðmenn-
ingunni takist að vernda menn gegn uppsprettum þeirrar þjáningar sem
nefndar voru hér að framan. Siðmenning nær, samkvæmt skilgreiningu
Freuds, til allra þeirra reglna og aðferða sem menn hafa komið sér upp til
að vernda sig gegn náttúrunni og samhæfa samskipti sín. En hún er dýr-
keypt því hún krefst þess að menn fórni eða neiti sér að verulegu leyti
um svölun kynhvatar og árásarhneigðar og leiðir óhjákvæmilega til sekt-
arkenndar og samviskubits hjá þorra manna. Með bannhelgi, lögum og
siðvenjum setur siðmenningin hömlur á kynlíf manna og árásargirni, og
eftir því sem menn una verr við þessar hömlur og verða uppreisnargjarn-
ari, herðir hún takið. Siðmenningin hegðar sér að þessu leyti eins og
drottnari gagnvart hinum kúguðu og undirokuðu. Freud telur að hin
vestur-evrópska siðmenning sé „komin að hættumörkum í þessari þró-
un“ (46). I lok bókarinnar Undir oki siðmenningar neitar Freud að taka
þátt í þeirri fordómafullu hrifningu sem telur siðmenningu dýrmætustu
4 í Blekkingu trúarinnar eru einnig birtar tvær ritgerðir Freuds undir heitinu
„Á líðandi stund, um stríð og dauða“ („Zeitgemásses iiber Krieg und Tod“).
Þar víkur Freud talinu að forfeðrum okkar: „ [...] vér erum komnir af óendan-
lega langri fylkingu morðingjakynslóða sem báru morðfýsnina í blóðinu"
(103).
5 Sjá ennfremur bréf Freuds til Alberts Einsteins: „Warum Krieg?“, Gesam-
melte Werke, XVI, ritstj. Anna Freud o. fl., S. Fischer Verlag, Frankfurt am
Main, 1942. Vert er að benda á að Freud telur að breyting á afstöðu til eigna sé
þrátt fyrir allt líklegri til árangurs en siðferðileg boð og bönn.