Skírnir - 01.09.1994, Page 230
500
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
og félagsvísinda almennt.13 Gagnrýni austurríska vísindaheimspekingsins
Karls R. Poppers er e.t.v. sú áhrifamesta.14 Hann heldur því fram að
kenningar Freuds séu óafsannanlegar enda sé hann dæmigerður gervivís-
indamaður. Popper setur sálgreiningu hans á bás með stjörnuspeki. Líkt
og stjörnuspekingar setji sálgreinendur ekki fram nákvæmar forspár um
óorðna atburði eða hegðun manna heldur haldi sig við loðið orðalag og
hafi iðulega skýringar á reiðum höndum þegar spádómar þeirra rætast
ekki.
Gagnrýni Poppers er hins vegar bæði röng og ósanngjörn. Hún er
röng vegna þess að leiða má margvíslegar forspár af kenningum Freuds
sem sannreyna má með athugunum. Freud vísar sjálfur víða á tilvik sem
stangast á við kenningar hans og hafa neytt hann til að lagfæra þær.
Bandaríski vísindaheimspekingurinn Adolf Grúnbaum hefur að mínum
dómi hrakið gagnrýni Poppers á Freud bæði í stóru og smáu. Vísa ég til
þeirrar umræðu hér.15 Gagnrýni Poppers er ennfremur ósanngjörn þar
sem ekki verður séð að hann hafi kynnt sér verk Freuds áður en hann
tók að gagnrýna þau. í verkum Poppers er ekki að finna svo mikið sem
tilraun til að greina þær röksemdafærslur sem Freud beitti til varnar að-
ferð sinni.
Popper er að sjálfsögðu ekki einn um að hafa vakið efasemdir um
undirstöður sálgreiningar. Áðurnefndur Adolf Grtinbaum hefur t.d.
gagnrýnt aðferðir Freuds mjög harkalega á öðrum forsendum en Popper
og af ólíkt meiri þekkingu á ritum hans. Einna best er að skilja gagnrýni
Grunbaums með því að skoða elstu og þrálátustu mótbáru sem borin
hefur verið fram gegn sálgreiningu Freuds. Hún er jafngömul sjálfri sál-
greiningunni en kjarni hennar er sú staðhæfing að sálgreinandinn stingi
leynt og ljóst að sjúklingunum þeim hugmyndum, skoðunum og minn-
ingum sem sjúklingarnir síðan „rifji upp“ til staðfestingar á kenningum
sálgreinandans. Sálgreinandinn sefji þannig sjúklinginn (á ensku er talað
um „suggestion"). Slíka gagnrýni má víða finna í ólíkum myndum hjá
ýmsum höfundum. Sumir þeirra halda því fram að ein og sér sýni þessi
gagnrýni á hvílíkum brauðfótum aðferð Freuds standi og að óskiljanlegt
sé að Freud skuli ekki hafa gert sér grein fyrir svo augljósri hættu.
13 Niðurstöður fræðimanna um aðferð Freuds eru að sjálfsögðu ekki allar nei-
kvæðar þótt þær séu gagnrýnar; sjá t.d. Freud and Philosophy eftir Paul
Ricoeur (þýð. Denis Savage, Yale University Press, New Haven and London,
1970) og Love and Its Place in Nature eftir Jonathan Lear (Farrar, Straus &
Giroux, New York, 1990).
14 Karl R. Popper, Conjectures and Refutations, Routledge and Kegan Paul,
London, 1969, s. 33 o.á.
15 Adolf Griinbaum, The Foundation of Psychoanalysis, A Philosophical
Critique, University of California Press, Berkeley, 1984, s. 97 o. á.