Skírnir - 01.09.1994, Qupperneq 232
502
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
andans og sjúklingsins. Freud varði hins vegar mikilli orku í fræðilega
greiningu á því sambandi sem myndast á milli sjúklings og sálgreinanda.
Raunar má efast um að nokkur sálfræðingur hafi hugað eins ítarlega að
því og Freud hvers vegna geðlæknar og sálfræðingar geta haft áhrif á
sjúklinga sína og við hvað þau áhrif takmarkast. I nálega öllum ritum
Freuds, frá því í lok nítjándu aldar og fram á fjórða áratug þessarar aldar,
má finna skarpar athugasemdir um samband sjúklings og sálgreinanda og
frumlegar kenningar um þann tilfinningahita sem einkennir slík sam-
bönd. Frægust þeirra kenninga er vafalítið kenning hans um yfirfærðar
tilfinningar17 en hún hefur haft mikil áhrif á margar af nýjustu hugmynd-
um heimspekinga um eðli tilfinninga.18 í Um sálgreiningu lýsir Freud
þessari kenningu einkar vel og lætur í ljós þá skoðun að uppgötvun yfir-
færðra tilfinninga sé einna afdrifaríkust þeirra uppgötvana sem staðfesti
þá tilgátu „að kynhvötin sé það afl, sem að verki er í taugaveiklun“.
Við hverja einustu sálgreiningu taugaveiklunarsjúklings kemur und-
arlegt fyrirbæri í ljós, sem við köllum yfirfærslu eða gagnúð. Gagnúð
er í því fólgin, að sjúklingurinn tekur að bera hlýjar tilfinningar til
læknisins, sem þó eru býsna oft blandnar fjandsemi. Þessar tilfinn-
ingar byggjast ekki á neinu raunhæfu sambandi sjúklings og læknis,
enda er ljóst af tilkomu þeirra í smáu og stóru, að þær verður að
rekja til löngu liðinna óska og ímyndana, sem sjúklingurinn hefir
gleymt. Þannig lifir sjúklingurinn á ný í sambandi sínu við lækninn
þeim hluta tilfinningalífsins, sem hann getur ekki munað lengur. Og
það er endurlifun þessara tilfinninga í gagnúðinni, sem ein getur
sannfært hann um tilvist og mátt hinna dulvituðu kynhvata. (101)
Oftast þegar Freud ræðir uppgötvun yfirfærðra tilfinninga lætur
hann - líkt og í ofangreindri tilvitnun - í ljós þá skoðun að hún sé einn
mikilvægasti hornsteinn sálgreiningar. Því vekur furðu hversu lítinn
17 Ég nota „yfirfærslu" hér sem þýðingu á „Úbertragung" sem þýtt hefur verið
með „transference“ á ensku.
18 Heimspekingurinn Ronald DeSousa hefur t.d. stuðst við þessa kenningu
Freuds í skrifum sínum um skynsemi tilfinninga, sjá Explaining Emotions (rit-
stj. Amelié O. Rorty, University of California Press, Berkeley, 1980) og The
Rationality of Emotions (The MIT Press, Cambridge, Massachusetts, 1987).
Annette C. Baier, Jonathan Lear, Amelié O. Rorty, Richard Rorty, David
Sachs, Richard Wollheim, Donald Davidson og Ludwig Wittgenstein eru í
hópi þeirra sem orðið hafa fyrir áhrifum frá kenningum Freuds um tilfinning-
ar og hvatir. Það er því alrangt sem Alfreð Sturla Böðvarsson segir í grein
sinni „Vísindin eða viljinn“, að Freud hafi haft „mjög takmörkuð áhrif á sjálfa
hugarheimspekina“ (Af líkama og sál, ritstjórar og útgefendur Einar Logi
Vignisson og Ólafur Páll Jónsson, Reykjavík, 1992, s. 77n).