Skírnir - 01.09.1994, Page 234
504
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
myndir. Hann ástundar gagnrýna hugsun af meiri íþrótt en ýmsir and-
mælendur hans, svo sem Popper.
Kenningar Freuds eru annars oft djarfar og jafnvel fjarstæðukenndar
við fyrstu sýn og í sumum ritum sínum virðist hann gefa hugmyndaflugi
og ímyndunarafli alllausan tauminn. Mörg rit hans hafa yfir sér skáldleg-
an blæ, raunar svo sterkan að hann hefur sjálfur orð á því. En hér er vert
að hafa í huga þá staðreynd að Freud - öfugt við marga aðra sálfræðinga
sem störfuðu á fyrri hluta tuttugustu aldar - er alls óhræddur við að
rannsaka og ræða þau fyrirbæri sem almenningur telur með nokkrum
rétti að sálfræði ætti að snúast um. Hann túlkar drauma, fylgir eftir flugi
ímyndunaraflsins, grefst fyrir um rætur tilfinninga, langana og hvata og
tekst á við mörg erfið úrlausnarefni sem tengjast þessum torskildu fyrir-
bærum. I mörgum verka hans er að finna hugvitsamlegar útskýringar á
því hvernig tilfinningar öðlist inntak eða viðfang: nái að verða um eitt-
hvað. í ritinu Hömlur, sjúkdómseinkenni og kvíði (Hemmung, Symptom
und Angst)19, rekur Freud t.d. hvernig kvíði (,,Angst“) öðlast smám sam-
an vitsmunabundnara inntak eftir því sem á ævi barnsins líður. Þar - og
raunar víðar í ritum sínum - reynir Freud að sætta tvö andstæð viðhorf
til tilfinninga sem lengi hafa tekist á í heimspeki og sálfræði Vesturlanda.
Annað sjónarmiðið er oftast kennt við Aristóteles og felur einkum í sér
að tilfinningum beri að lýsa með hliðsjón af innihaldi og röklegri gerð
þeirra. Að dómi Aristótelesar er reiðin þannig ávallt vegna einhvers, hún
á sér ákveðið tilefni og beinist að ákveðnu viðfangi. Hitt sjónarmiðið er
oftast kennt við Thomas Hobbes en þar er lögð áhersla á líffræðilegt og
vélrænt hlutverk tilfinninga. Þær eru þá skoðaðar sem líffræðileg við-
brögð sem gegna ákveðnu hlutverki í vélrænni heild líkamans. Sam-
kvæmt þessu sjónarmiði verða hugtök Aristótelesar að víkja fyrir hug-
tökum aflfræði, orkufræði, rafmagnsfræði og nú síðast tölvufræði. Lang-
anir og þrár eru samkvæmt lýsingu Hobbes hræringar (,,motions“) í líf-
færum manna sem standa í orsakatengslum við ytri hræringar.20 Freud
neitar að velja á milli þessara tveggja sjónarmiða. Hann nýtir þau bæði
og reynir að sætta þau og samhæfa.21 Þessi staðreynd, ásamt því hversu
óragur hann er við að grafa ofan í þann undarlega og ógnvekjandi merk-
ingarheim sem mannshugurinn er, gerir verk hans margslungnari en ella
19 Gesammelte Werke, XIV.
20 Sjá t.d. Thomas Hobbes, Leviathan, Penguin Classics, ritstj. C. B. MacPher-
son, Penguin Books, London, 1985, kafla 6, s. 118 o. á.
21 Lengi vel var Freud gagnrýndur fyrir að velja ekki á milli þessara tveggja sjón-
armiða þar sem þau voru talin ósamrýmanleg. Flestir nútímaheimspekingar
telja hins vegar að þessi sjónarmið séu fyllilega samrýmanleg. Vafalítið hafa
skrif Donalds Davidson valdið mestu um þessa hugarfarsbreytingu. Sjá ágætis
umfjöllun Amelié O. Rorty um þetta efni í Mind in Action, Beacon Press,
Boston, 1988, kafli 2.8.