Skírnir - 01.09.1994, Side 269
SKÍRNIR
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
539
og beita gjarnan nýjustu tækni og vísindum (tölvuvæddum innsetning-
um, textuðum ljósmyndum, „techno-sublime“, ,,eco-agitprop“) til að
koma umhyggju sinni á framfæri og hrista upp í áhorfendum. Málstað-
urinn er vafalaust góður. En slíkar sjónrænar umvandanir í þágu nátt-
úruverndar eiga það hinsvegar til að fletja út innihaldið svo verkin virka
oft sem lítið annað en umbúðir utan um boðskapinn.
Georg Guðni (Hauksson, f. 1961) átti hvað stærstan þátt í að blása
nýju lífi í íslensku landslagshefðina. Það eru líka fáir íslenskir listamenn
sem jafn hreinræktað hefur verið apað eftir, ef ekki „grá-blátt“ áfram í lit
og formi þá stemningu og yfirbragði, enda eru málverk hans villandi
fljótmelt í einfaldleika sínum. Myndlist Guðna snýst þó ekki eins mikið
um landslagið sem slíkt og um þekkingarfræðilegt samband okkar við
umhverfið, hvernig við erum samofin því, og í henni er tvíhyggjunni
varpað fyrir róða. Málverkin styðja því ekki hina hefðbundnu skiptingu
í líkama og sinni, náttúru og menningu, heldur er í þeim ýjað að þeirri
hugmynd að „andi“ jafngildi efni. Þetta er hvorki tilbrigði við „drauginn
í vélinni" né það álit að allt megi skoða sem innantómt sprikl efnafræði-
legra öreinda. Spurningin snertir samspil mótífs og málverks við vilja
listamannsins í dansi skilningarvitanna.
Við fyrstu sýn mætti álykta að myndir Guðna væru bundnar við ein-
hvers konar mínimalískan formalisma. Svo er ekki. Hann er að glíma við
andstæða póla listrænnar sköpunar og leitast við að brúa þá: hið
geometríska (vitsmunalegt, röklegt, vélrænt, venslað, afmarkað) og mal-
eríska (tilfinningalegt, draumkennt, lífrænt, sundurlaust, fljótandi). List
hans byggist á nákvæmum athugunum á fyrirbrigðum náttúrunnar -
hann gerir sér tíðar ferðir um öræfi og sveitir í fjallatrukknum sínum til
að upplifa hana fyrirvaralaust - og er þessvegna í grundvallaratriðum
„empírísk“. Formrænt útlit verkanna stafar með öðrum orðum ekki síð-
ur af „raunverulegum" eigindum landslagsins en stílvali. Sem dæmi not-
aði hann í byrjun stundum stefnu pensilfaranna til að greina á milli
forms og birtuskila. En smám saman þróuðust strokurnar úr órólegu
fálmi yfir í fíngert hnitakerfi einsog sjá má í „Mynd Skírnis“ að þessu
sinni, Ónefndri 1992 nr. VII, og við munum fara betur í saumana á síð-
ar, því til að skilja „hvert hann er að fara“ er nauðsynlegt að vita hvað á
undan er gengið.
Strax í upphafi ferils síns beindi Guðni sjónum sínum að stökum
fjöllum, vanalega umkringdum eyðilegu landflæmi, nálgaðist þau hægt
og sígandi og lýsti þeim á sífellt einfaldari og almennari hátt. Fyrir hon-
um vakir að snúa landslaginu yfir í málningu svo að fjallið og sýn hans af
því verði eitt. Til að átta sig á afstöðu Guðna til fjallsins er gagnlegt að
hafa tvö auðkenni íslenskrar náttúru á bak við eyrað, skógarleysið og
veðrahaminn. Þessi áleitni prósi, sem hann hripaði niður í skissubók árið
1987 og minnir á vedíska hugleiðslubæn, ætti að koma okkur á sporið: