Skírnir - 01.09.1994, Page 270
540
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
SKÍRNIR
„Ég mála fjallið með sjálfum mér. Ég mála sjálfan mig í fjallið. Ég mála
fjallið úr huganum“. Hér er jafn sparlega farið með orð og listamaðurinn
notar form og liti.
Segja má að Guðni hafi dregið athyglina að rigningunni og slyddunni
á svipaðan hátt og Kjarval, og seinna Jón Stefánsson, opnuðu augu okkar
fyrir hrjóstrugu bersvæðinu. Fólk er oft (viljandi) blint á hið augljósa.
Varla skortir úrkomuna á íslandi, og samt drottna „sólskinsmyndir" yfir
málarahefð okkar þótt rok og rigning setji mun frekar svip sinn á lofts-
lagið. Ein af athyglisverðum afleiðingum úrkomu eða frassa (þ.e. máun
útlína og afmáun smáatriða) er hvernig hlutirnir - í okkar tilviki fjallið -
hliðrast til í slíkri veðráttu og verða óefniskenndir. Þannig „aflíkamað“
yfirgefur fjallið sína hlutlægu verund, losnar úr viðjum þyngdarlögmáls-
ins og umbreytist í flöktandi vofu. Þarsem þessar aðstæður hafa áhrif á
hæfileikann að meta fjarlægðir getur verið erfitt að henda reiður á hvað
hluturinn er langt í burtu, hvort fjarlægðin skiptir kílómetrum eða að-
eins örfáum metrum; hvort hluturinn er rétt fyrir framan nefið á manni
eða (ekki óalgeng skynvilla) inni í hausnum. Á sama tíma myndar
regnýringurinn áþreifanlega efnisbrú milli hlutarins og manns sjálfs,
hugarins og þess sem hann meðtekur. I sólskini og björtu veðri skapast
aftur á móti jjleidd eða rof milli þess að horfa og ókunnugs hlutveruleika
sýnarinnar. I góðu skyggni er nánast einsog ígrundun ytri fyrirbæra gufi
upp í þunngert loftið. Tvísæið sem sprettur af rigningunni veitir hlut og
huga á hinn bóginn tækifæri að mætast á sama grundvelli. Frá sjónarmiði
Guðna er munurinn milli hugsunar (loft) og efnis (jörð) því spurning um
stigsmun fremur en eðlismun. Hugarstarfsemin þarf vitaskuld ekki að
vera einangruð, hún getur borist út fyrir ramma sinn og orðið finnanleg.
Það nægir að leiða hugann að borgarumhverfi okkar til að glöggva sig á
hvað fyrir honum vakir, enda mætti segja að bygging sé hneigð eða þrá
sem færst hefur yfir í þanka og þaðan, í gegnum uppdrátt, yfir í fast efni.
Séð í þessu ljósi er rigningarúðinn þær milligönguagnir sem tengja
„skynlaust" efnið við hugann, - hugann sem fjallið gekk inn í og varð
hluti af starfsemi hans í viðstöðulausum samruna upplifunar, tilfinninga,
vangaveltna, minninga.
Guðna er blámóðan ekki síður hugleikin. (Það mætti líka orða það
svo að hún hafi laðast að Guðna, að hann sé henni hugleikinn.) Fjöll sýn-
ast loftkenndari eftir því sem þau standa manni fjær uns þau leysast upp
við himinhvolfið. Hvar byrjar fjall, hvar endar það? Hvaða lína, eða
samsetning á línum, má með fullvissu segja að lýsi tilteknu fjalli? Hvern-
ig vitum við að hún lýsir því en ekki einhverju öðru? I blámóðu
fjarskans er ógjörningur að greina ákveðnar útlínur. Eða réttara sagt, þær
eru alstaðar.
Þetta hefur valdið Guðna nokkrum heilabrotum. Árið 1987 tempraði
hann hálf-expressjónískan stíl sinn og hóf að bera málninguna á dúkinn í
löngum, órofnum pensilstrokum þannig að úr varð þéttur vefur sam-