Skírnir - 01.09.1994, Page 272
542
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
SKÍRNIR
hugsanir, tilfinningar og minningar sem hann hefur um það hafi bundist
saman á órekjandi hátt.
Það sem mætir þá áhorfandanum eru ekki myndir sem sýna fjallið
undir ákveðnum veðurskilyrðum eða tíma dagsins, heldur heildarsummu
allra þátta þeirrar reynslu sem Guðni hefur haft af því, þar á meðal hugs-
ana sem urðu til meðan á löngu vinnsluferlinu stóð. Þetta útskýrir einnig
hvers vegna litur margra verkanna er jafn grár og óafgerandi og raun ber
vitni; birtustyrkur þeirra er einskonar meðaltal hinna mismunandi
stunda dagsins og árstíðanna fjögurra. Skerandi litasamsetningar og
formrænt skæklatog, er túlka eiga ástríðufullar kenndir gerandans, liggja
þeim víðsfjarri. Sumar myndirnar luma á svo fíngerðum litbrigðum að
þær virðast eintóna. En ef grannt er að gætt kemur í ljós að þær eru gerð-
ar af miklum fjölda hálfgegnsærra himna í öllum regnbogans litum, sem
hver um sig breytir lítillega blæbrigðum laganna fyrir ofan og neðan.
(Alla myndlist verður að skoða milliliðalaust, og það á sérstaklega við
um málverk Guðna. Þau eru einsog tónlist sem hljómar rétt við heyrnar-
mörk, jafn illprentanleg og svarttóna-málverk Ad Reinhardts.)
Þrátt fyrir jafnvægi formgerðarinnar skynjaði Guðni samt sem áður
„spennu“ milli nálægðar og fjarlægðar, forgrunns og bakgrunns, er hann
sveiflaðist innbyrðis einsog verkin Brekka (1988) og Akrafjall og Skarðs-
heiði (1987) gefa til kynna. Hann tók því að leita að lausn á andstæðun-
um nánd-firð, inni-úti, huglægni-hlutlægni, tilfinning-ígrundun, minn-
ing-sýn í þeirri viðleitni að sameina málverkið, málarann og hið málaða í
einu plani þarsem slíkar mótsetningar standast ekki lengur og brotna
undan innbyggðri togstreitu tungumálsins. I Brún (1989), á meðan hann
var að mála bratta íjallshlíð, lækkaði hann hallalínuna stig af stigi uns
hún var orðin að flugbeittu, láréttu striki er skar myndflötinn í tvo jafna
hluta, og hann stóð frammi fyrir hinni „ógnvekjandi samhverfu", svo
notuð séu orð William Blakes. Brún er síðasta myndin sem Guðni gaf
(staðfræðilegt) nafn. Hann var ekki lengur að fást við tiltekið landsvæði
og byrjaði að vísa almennt til verkanna sem „Fjallsins". Eftir það eru þau
einungis skrásett árgerðinni ásamt rómverskri kennitölu.
Hugmyndin, hvernig hann gæti forðast þennan þverskurð og „grætt
sárið“, fæddist þegar hann hafði lokið við stóra mynd af Hjörleifshöfða
(1988), sem skipta þurfti í tvennt til að koma henni út úr vinnustofunni.
Guðni lét lóðréttan jaðar höfðans, með himinrönd fyrir ofan, stemma
við samskeyti blindrammanna. I upphafi gekk mjó landræma eftir „for-
grunninum“ er tengdi einingarnar saman, en að lokum tók höfðinn yfir
allt sjónsvið léreftsins, og landræman á hinum flekanum hvarf sömuleiðis
svo eftir stóð „himinhvolfið“. Aðskilnaði himins og jarðar hafði verið
vísað út fyrir málverkið, að brúnum umgjarðarinnar, á þann stað þarsem
hin klassíska sjónblekking opnaði glugga sinn mót umheiminum. (Ef
málaralist fyrri tíðar markast af einrými og veigamikill angi módernism-