Morgunblaðið - 11.07.2015, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 11.07.2015, Blaðsíða 33
sem við störfuðum saman á Al- þingi. Hann lét aldrei deigan síga og vann nánast óskiljanleg þrek- virki í þingstörfum sínum allt til síðasta dags, þrátt fyrir erfiða baráttu sína við krabbameinið, sem lagði ótal hindranir á vegi hans á síðastliðnum misserum. Hann vissi vel hvert stefndi, en hann vildi ekki eftirláta sjúkdóm- inum einum degi meira en þyrfti, því það var svo margt sem þyrfti að gera. Mér þykir afar vænt um þetta samstarf okkar Péturs á þingi og get borið um það að ég, líkt og fleiri nýir þingmenn, lærði mikið af honum. Elja hans, staðfesta og ákefð var hverjum þingmanni góð fyrirmynd og verður það áfram fyrir okkur þingsystkini hans. Vonandi getum við miðlað því áfram. Ég mun sakna Péturs. Ég mun sakna samtala okkar um pólitík, efnahagsmál og lífsgát- una, ég mun sakna góðu stund- anna og þessara erfiðu líka, en mest af öllu mun ég sakna þess góða vinar sem nú er hniginn til hinstu hvílu. Fyrir hönd Sjálfstæðisflokks- ins votta ég fjölskyldu Péturs samúð okkar og þakkir fyrir allt og allt. Guð blessi minningu Pét- urs H. Blöndal. Bjarni Benediktsson, for- maður Sjálfstæðisflokksins. Um Pétur H. Blöndal má segja það sama og sagt var um annan mikinn kappa: Engum var Pétur líkur. Þegar hann kom til þings árið 1995 var hann ákaflega vel undirbúinn fyrir það starf. Góð og mikil menntun hans, margþætt lífsreynsla og þekking sem hann hafði aflað sér varð haldgott veganesti inn á þær einstöku lendur sem þingmannsstarfið svo sannarlega er. Athyglisvert er að jómfrúræða hans á Alþingi laut að réttindum kvenna. Hann lagði út frá lífsgild- um sínum um einstaklingsfrelsið og þeim hagsmunum atvinnulífs- ins og þjóðarinnar að konur jafnt og karlar fengju sömu tækifærin. Það væri ekki einasta rétt út frá hugsjónum manna um einstak- lingsfrelsið heldur væri einfald- lega efnahagslega skynsamlegt. Mig minnir að málflutningur hans hafi notið mismikils skiln- ings. Nú, 20 árum síðar, á hundr- að ára afmæli kosningaréttar kvenna, var þessum rökum hins vegar teflt fram og þau viður- kennd. Þannig var Pétur hinn ódeigi baráttumaður oft á undan samtíð sinni í málflutningi sínum, braut ísinn og barðist óhikað gegn straumnum. Það var þessi eiginleiki hans sem aflaði honum virðingar og vinsælda. Oftsinnis varð ég þess var að margir vildu gjarnan eiga þess kost að heyra málflutning hans, kannski þar sem maður átti þess ekki endilega von. Á lands- byggðinni var stundum kallað eft- ir því að Pétur mætti með okkur landsbyggðarþingmönnunum á fundi í kjördæmum okkar. Menn sóttust eftir því að heyra hans frísklegu viðhorf og einarða málflutning. En því fór fjarri að Pétur fetaði alltaf greiðfæra slóð í stjórnmálabaráttu sinni. Það er líka þannig með þá sem eru trúir sjálfum sér og hugsjónum sínum. Dugnaður Péturs var líka stundum alveg með eindæmum. Stjórnmálastarfið var honum um- fram allt ástríða. Hann naut þess og vildi helst ekki víkja úr þing- salnum á meðan fundir stóðu yfir. Eftir að heim var komið vann hann áfram að málefnaundirbún- ingi, oft langt fram á kvöld og nætur. Eftir að sjúkdómurinn sem að lokum felldi hann, var far- inn að herja á hann, hvöttum við félagar hans hann oft til að leggja ekki svona hart að sér. Á þau ráð hlustaði hann helst aldrei, en stóð meðan stætt var. Þó að Pétur hafi mjög haslað sér völl í umræðu um fjármál og efnahagsmál var hugur hans frá- leitt bundinn við þau mál ein og sér. Hans lífsskoðun var sú að ríkisvaldið ætti að takmarka, en því ætti hins vegar að beita í þágu þeirra sem á þyrftu að halda. Þess vegna var hann einn okkar helsti sérfræðingur um trygg- ingamál, enda menntaður á því sviði. Hann benti okkur á veilur og rangsleitni í tryggingalöggjöf- inni, sem nauðsynlegt væri að breyta. Síðustu misserin vann hann sleitulaust að róttækum breytingum á þessum sviðum, sem vonandi eiga eftir að líta dagsins ljós. Pétur Blöndal var minnisstæð- ur maður. Við kynntumst vel, enda sat ég með honum á þingi allan hans þingmannsferil. Hann var góður félagi og vinur, mál- efnalegur, vel að sér og hugsjóna- maður af lífi og sál. Hans er nú sárt saknað. Eiginkonu hans og fjölskyldu sendum við Sigrún kona mín okk- ar innilegustu samúðarkveðjur. Einar K. Guðfinnsson. Pétur H. Blöndal var óvenju- legur þingmaður. Ástríðufullur í öllu sem hann fékkst við, hvort sem það voru þingstörfin, mara- þonhlaup um fjöll og firnindi, hjólaskautarnir um allan bæ eða dansinn á erlendum diskótekum. Hann var alveg þindarlaus. Við sem unnum náið með honum kynntumst þessu vel. Um árabil vorum við saman í ÖSE, Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Á fundum á fjarlægum slóðum var Pétur stundum búinn að hlaupa marga kílómetra um ókunnar heimsborgir þegar við mættum fyrir allar aldir á fundi. Þar spurði hann óvenjulegra spurn- inga sem vöktu oft furðu. Það var gaman að fylgjast með honum þar sem þýskan rann upp úr hon- um eins og innfæddum Þjóðverja. „Hver er þessi þingmaður? Það hefur enginn spurt svona spurn- inga áður,“ var sagt við okkur. Í fyrstu voru svörin sem Pétur fékk nokkuð rýr, en hann gafst ekki upp. Hann hafði sitt fram að lokum og vakti aðdáun fyrir. Í nánu samstarfi í hátt á annan áratug, í félagsmálum og heil- brigðis- og tryggingamálum í nefndum þingsins, tókumst við oft á og rökræddum það flókna kerfi sem við þekktum bæði manna best og er svo mikilvægt að gagnist þeim sem á það þurfa að treysta. Vinnusamur var hann. Eljan var engu lík, hvort sem um var að ræða nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir sjúklinga, sem við lágum yfir tímunum saman í tvö ár, eða önn- ur verkefni. Í nefndinni sem kennd var við hann kynntum við okkur greiðslukerfi í nágranna- löndunum sem við vildum horfa til við breytingarnar. Pétur vildi ganga lengra og hafa allt velferð- arkerfið undir. Hann var óþreyt- andi að búa til reiknilíkön, töflur og línurit. Við þá vinnu nutu nefndarmenn reynslu og sérþekk- ingar Péturs í stærðfræði og tryggingafræðum. Pétur var hreinskilinn, hrein- skiptinn, umhyggjusamur, skarp- greindur, einlægur og viðkvæm- ur. Sérstaklega var honum ráðdeildarsemi í blóð borin. Hjá honum var ekki eytt í vitleysu. Ég átti með honum dýrmætar stundir þar sem hann deildi óvenjulegri lífsreynslu sinni og sýn á lífið. Við ræddum barna- uppeldi og matargerð og áhuga- verðar aðferðir hans og upp- skriftir. Hann nálgaðist viðfangsefnin ólíkt öðrum. Það er dýrmætt fyrir löggjafarsamkomu að eiga þing- menn sem skera sig frá fjöldan- um og sjá verkefnin í öðru ljósi. Það auðgar umræður og skilar oft að lokum betri niðurstöðum. Pét- ur var slíkur þingmaður. Ég þakka vináttu hans og gott sam- starf á Alþingi í átján ár, sem ekki bar skugga á. Börnum hans og fjölskyldu votta ég samúð. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Ég veit ekki hversu miklu þetta starf mitt hefur skipt eða hvort það hefur haft nokkur raunveruleg áhrif,“ sagði Pétur við mig í einu af okkar síðustu samtölum. Við Pétur höfðum oft áður rætt um stjórnmálin, hug- sjónirnar og baráttuna fyrir betra samfélagi en eftir því sem nær dró endalokunum var ljóst að hann spurði sig stöðugt áleitnari spurninga um tilganginn og það sem mestu skiptir. Í góðu sam- ræmi við það eyddi hann síðustu vikunum heima með börnunum sínum og sagði mér í síðasta tölvupóstinum sem hann sendi mér að það væru einstök forrétt- indi og hann færi sáttur og sæll eftir góðar samverustundir með þeim. Við Pétur kynntumst árið 1995 þegar hann settist á Alþingi í fyrsta sinn og ég hóf störf sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Pétur hafði þá hlotið góða kosningu í próf- kjöri Sjálfstæðisflokksins og þá strax var ljóst að hann yrði kraft- mikill, vinnusamur og stefnufast- ur þingmaður. Þannig var hann alltaf óþreytandi í að vinna hug- sjónum sínum og stefnu Sjálf- stæðisflokksins fylgi, óhefðbund- inn í áherslum sínum og aðferðum og óeigingjarn í að sinna af áhuga öllum þeim verk- efnum sem hann taldi viðfangs- efni stjórnmálanna. Fyrst og fremst var hann baráttuglaður hugsjónamaður sem langaði ekk- ert meira en að hafa áhrif til góðs. Einmitt þess vegna var svo auðvelt að svara því þegar hann efaðist um eigið ágæti eða áhrif, með því að benda á hversu oft ein- stök mál urðu betri eftir aðkomu hans; hversu oft áherslur Sjálf- stæðisflokksins urðu farsælli fyr- ir hans tilstilli og hversu margt fólk hreifst af stjórnmálum og baráttunni fyrir betra samfélagi einmitt vegna hans. Pétur Blöndal var stjórnmála- maður sem munaði um. Hans verður sárt saknað af vettvangi stjórnmálanna og Sjálfstæðis- flokksins sem mun lengi búa að hans góða starfi, sterku hugsjón- um og skýru draumum um enn betra Ísland. Ég kveð Pétur með miklu þakklæti fyrir að hafa kynnst þessum einstaka stjórn- málamanni og fyrir að hafa getað kallað hann samflokksmann, samstarfsmann og vin til margra ára. Öllum ástvinum hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur með ósk um að blessuð sé minning þessa góða manns. Hanna Birna Kristjánsdóttir. Kveðja frá Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga Pétur Blöndal var um árabil fé- lagi í Félagi íslenskra trygginga- stærðfræðinga (FÍT), sat nokkr- um sinnum í stjórn félagsins og var formaður þess árin 1990- 1993. Pétur stundaði nám í hag- nýtri stærðfræði, líkindafræði, tölfræði, tryggingastærðfræði og alþýðutryggingum við Kölnarhá- skóla og lauk doktorsprófi frá skólanum árið 1973. Á langri starfsævi kom Pétur víða við, stjórnaði Lífeyrissjóði verzlunar- manna, var forstjóri Kaupþings, kennari og alþingismaður. Alls staðar vakti hann athygli fyrir atorkusemi, brennandi áhuga og elju við að koma málum áfram. Pétur hafði góðan skilning á þeim málefnum sem sneru að tryggingastærðfræði, ekki aðeins út frá tæknilegri hlið heldur ekki síður hvaða áhrif mismunandi reglur stjórnvalda hefðu á líf al- mennings. Hann var síðustu árin formaður nefndar sem lagði til breytingar á almannatrygginga- kerfinu, en nefndin hafði ekki lok- ið störfum þegar hann lést. Pétur var alla tíð talsmaður þess að peningum skattgreiðenda væri vel varið, þannig að þeir nýttust þeim sem mest þyrftu á þeim á halda. Pétur var traustur félagi, ein- lægur og hreinskiptinn, hafði góða þekkingu á sínu fagi sem nýttist vel í störfum hans á Al- þingi. Hann var fljóthuga og áhugasamur um framgang sinna mála, en sumar af hans hugmynd- um festust í viðjum svifaseins stjórnkerfis. Pétur var áhugasamur um menntun tryggingastærðfræð- inga og beitti sér sem formaður FÍT fyrir kynningu á greininni. Hans verður saknað af kollegum og samstarfsmönnum. Félagið vottar fjölskyldu Pét- urs innilega samúð. Vigfús Ásgeirsson, formaður. Kveðja frá Verði – full- trúaráði sjálfstæðisfélag- anna í Reykjavík Réttsýni, dugnaður og vinnu- semi einkenndu ávallt störf Pét- urs H. Blöndal sem í tvo áratugi vann þrotlaust og óeigingjarnt starf á Alþingi í þágu okkar Reykvíkinga. Það var eiginlega ekki annað hægt en að bera virð- ingu fyrir Pétri sem stjórnmála- manni enda var hann fastur fyrir og hélt alla tíð sínum grunngild- um. Hann var ætíð málefnalegur og óhræddur við að tjá sína skoð- un, rökstyðja og verja þrátt fyrir mótlæti. Pétur var líka með eindæmum duglegur, hann var ávallt að vinna í hinum og þessum málum inni á þingi og gerði það alltaf með þeim hætti að prýði var að. Meira að segja á þessum síðustu árum, þegar hann háði langa og erfiða baráttu vegna veikinda sinna virtist dugnaðurinn og elju- semin eflast sem aldrei fyrr. Samstarf mitt við Pétur á vett- vangi Sjálfstæðisflokksins var gott, við vorum kannski ekki allt- af sammála um allt en ég bar þó ómetanlega virðingu fyrir honum og hans hugsjónum. Péturs verð- ur sárt saknað, með fráfalli hans hafa reykvískir sjálfstæðismenn, sem og í raun borgarbúar allir, misst litríkan og einlægan mál- svara sem alla tíð fylgdi eigin sannfæringu. Takk, Pétur, fyrir samstarfið, fyrir störf þín í þágu flokksins og í þágu þjóðar, megi minning þín og arfleifð lifa um alla framtíð. Hugur minn hvílir hjá fjöl- skyldu Péturs og henni sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðj- ur. Óttarr Guðlaugsson, formaður Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðis- félaganna í Reykjavík. MINNINGAR 33 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. JÚLÍ 2015 ÚTFARARÞJÓNUSTA Vönduð og persónuleg þjónusta Sími: 551 7080 & 691 0919 ATHÖFNÚTFARAÞJÓNUSTA - athofn@athofn.is - www.athofn.is Inger Steinsson IngerRósÓlafsdóttir Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar elskulegrar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, ÁSLAUGAR SÓLBJARTAR JENSDÓTTUR frá Núpi í Dýrafirði. Sérstakar þakkir færum við læknum og starfsfólki deildar 2B á hjúkrunarheimilinu Eir. . Ásta Valdimarsdóttir, Gunnhildur Valdimarsdóttir, Rakel Valdimarsdóttir, Sigurður Björnsson, Hólmfríður Valdimarsdóttir, Birgir Sigurjónsson, Kristinn Valdimarsson, Guðrún Ína Ívarsdóttir, Jensína Valdimarsdóttir, Georg V. Janusson, Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, Björn Stefán Hallsson, Sigríður Jónína Valdimarsdóttir, Viktoría Valdimarsdóttir, Diðrik Eiríksson, ömmubörn og langömmubörn. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, GUÐRÚN ÁRNADÓTTIR, fyrrv. stöðvarstjóri Pósts og síma, Hellu, lést miðvikudaginn 1. júlí á hjúkrunarheimilinu Ísafold, Garðabæ. Útförin hefur farið fram í kyrrþey. Þökkum auðsýnda samúð og vinarhug, sérstaklega þökkum við starfsfólki Ísafoldar fyrir frábæra umönnum og hlýhug. . Særún Jónasdóttir, Kjartan Sigurðsson, Helgi Jónasson, Bodil Mågensen, Guðrún Kjartansdóttir, Sigurrós O. Kjartansdóttir, Sacha Ásgeir Medina, Jónas Helgason, Dorothy Bisse Groth, Michael Toby Helgason, Kjartan Hjaltalín, Viktor Freyr. Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, JÓN VIÐAR TRYGGVASON múrari, Kópavogsbraut 1b, Kópavogi, lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hans. Þökkum auðsýnda samúð og hlýhug. Þeim sem vija minnast hans er bent á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi. . Guðmunda Sigurðardóttir, Tryggvi Jónsson, Ingveldur Bragadóttir, Sigurður Helgi Jónsson, Liv Kari Tyvand, Jón Viðar Jónsson, Þorbjörg Hróarsdóttir, Hreinn Jónsson, Aðalheiður Þorsteinsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga. Skil | Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsam- lega beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morg- unblaðslógóið í hægra horninu efst og viðeigandi liður, „Senda inn minningargrein,“ valinn úr felliglugganum. Einnig er hægt að slá inn slóðina www.mbl.is/sendagrein Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dög- um fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein berist áður en skilafrestur rennur út. Undirskrift | Minningargreinahöfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.