Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Page 29
Séra Hallgrímur og Pascal
vísur, sálma og andleg ljóð. Ekki verður um það sagt hvort hann hafi orðið
fyrir sérstakri trúarreynslu en vissulega hefur hann verið trúaður að hætti
aldarinnar.
Ekkert af þessu tengir þessa tvo menn svo afgerandi sé.
En þeir eru á svipuðum aldri. Hallgrímur fæddur 1614, Pascal níu árum
síðar, árið 1623. Þeir lifðu báðir lungann úr sautjándu öldinni.
En er þá eitthvað í andlegu eða veraldlegu lífi þeirra sem bendir til annars
konar skyldleika? Hallgrímur var mótaður af lúterskum rétttrúnaði jafnframt
því að vera vel heima í íslenskum skáldskap, fornum og nýjum, og íslenskri
tungu. Hann þekkti vel til alls er við kom sjálfsþurftarbúskap í harðbýlu
landi og hafði vanist á erfiðisvinnu.
Blaise Pascal hefur vafalaust aldrei unnið erfiðisvinnu af neinu tagi og
varla nokkru sinni þurft að hafa áhyggjur af því að hafa ekki sæmilega til
hnífs og skeiðar án þess að sinna öðrum störfum en þeim sem hann valdi sér
sjálfur. Hann ólst upp á katólsku heimili þar sem mikil virðing var borin fýrir
kirkjunni og þjónum hennar. Og þó að hann kæmi til varnar vinum sínum
sem aðhylltust útvalningarkenningu jansenista átti hann enga samleið með
þeim mótmælendum öðrum sem voru svipaðrar skoðunar.
Það var ódýr og auðveld lausn að finna einhver atriði sem voru þessum
mönnum sameiginleg og láta þar við sitja. Eg fann þó að það nægði ekki
heldur var eitthvað sem ég gerði mér ekki grein fyrir sem kallaði fram séra
Hallgrím þegar ég var að lesa hinn sundurslitna texta Hugsananna, Les
Pensées, blaðabúntin sem fundust í herbergi Pascals að honum látnum. Þar
er texti sem átti að verða varnarrit kristninnar, rit sem átti að sannfæra les-
endur um sannindi trúarinnar og hve skynsamlegt væri að taka við henni og
trúa því að Jesús Kristur hefði opinberað hin endanlegu sannindi um líf
manna og dauða. í trúnni var ráðin bót á tilvistarvanda manneskjunnar.
Þegar Pascal íjallar um manneskjuna horfir hann á hana frá tveimur sjón-
arhólum. Annars vegar sér hann eymd hennar og vesöld, hins vegar mikilleik
hennar. Eymd og mikilleiki eru stef sem eru endurtekin hvað eftir annað.
Manneskjan er syndug og spillt en samtímis stórkostleg af því að hún hugsar,
getur gert sér grein fyrir eymd sinni og niðurlægingu og þar með öðlast
þekkingu á því hvernig skuli farið að boði Guðs. Hún getur þrátt fyrir allt
valið að fylgja Kristi eða hafna honum, lifa kristilegu lífi eða ókristilegu.
Þessi sömu stef hljóma líka hjá séra Hallgrími. Hinn syndugi og spillti
maður getur valið og hann ber ábyrgð á lífi sínu. Og mikilleiki manneskj-
unnar birtist líka í því að hún getur jafnvel sungið Guði sínum lof á himni
eins og kemur fram í tuttugasta og fimmta Passíusálminum. Hið syndum
spillta mannkyn er þrátt fyrir allt gætt því eðli sem gerir því fært að þekkja
27