Skagfirðingabók - 01.01.1966, Blaðsíða 23
KVENNASKOLINN
Konur í Hegranesinu kveðja sér aftur hljóðs í Norðanfara árið
1871, „þótt hvorki ritstjórnin eða nokkur annar hafi fyrr eða
síðar mælt fram með konufundum í blaðinu, en vér þó álítum eigi
með öllu óþarfa..." Er gerð grein fyrir starfseminni á árinu 1870
og fyrri hluta árs 1871, „meðfram af því, að nokkrar málsmetandi
konur í öðrum sveitum hafa óskað af oss, að vér auglýstum fund-
ar samþykktir vorar." „A fundinum 9. júlí í fyrra (1870) voru
samþykktar fjórar uppástungur, nefnilega:
1. Að venja börn snemma við starfsemi, sér í lagi heyvinnu,
frá því að þau eru 10 ára, þegar kringumstæður leyfa.
2. Að láta ekki óþvegna ull í kaupstaðinn á haustin.
3. Að koma vefstólum upp á bæjum, er enn væru vefstóla-
lausir, og kenna kvenfólki vefnað öllu fremur en karlmönn-
um, svo þeir gætu farið á sjó, eins og fyrr var tízka.
4. Að hver komi til næsta fundar með eitthvert það verk, er
hún hefði bezt unnið milli funda, svo aðrir gætu lært það
af henni, ef það álitist þess vert.
Á fundinum 22. júlí næstl. vai strax á eftir vinnusýningunni
fyrst tekið til umræðu, hvort nokkur árangur hefði orðið af þessum
tveim fundum vorum, og eftir að vér höfðum allar sannfærzt á,
að hann væri þó nokkur, var samþykkt að halda áfram með þá
núna fyrst í 10 ár.
Síðan voru þessar uppástungur samþykktar:
1. Að láta kenna öllum börnum að skrifa og reikna, sem til
þess væru fær.
2. Að reyna að viðhalda þjóðerni voru eftir megni, sér í lagi
í tilliti til máls og klæðasniða, og láta eigi börn heita óþjóð-
legum nöfnum, sízt 2 eða 3.
3. Að láta konur koma upp matjurtagörðum á þeim bæjum,
sem þá vantar.
21