Skagfirðingabók - 01.01.1966, Blaðsíða 106
S KAG FIRÐINGABÓK
mikill og duglegur, og kjarkurinn óbilandi. Árið 1884, er Baldvin
átti heima á Höfða, reri hann með tveimur drengjum morguninn
11. september. Skyndilega breyttist veður í lofti, svo á sömu
stundu var komið stórviður og stólparok. Bátnum hvolfdi í rokinu,
svo drengirnir drukknuðu, en Baldvin komst á kjöl. Varð honum
bjargað mjög þrekuðum. Þetta slysatilfelli mótaði djúp áhrif í
skapgerð hans, svo að kunnugra dómi virtist eins og hann hefði
stælt sig með kaldrænni hörku.1
FRÁ STEFÁNI SIGURÐSSYNI
Stefán Sigurðsson, sonur Sigurðar Finnbogasonar, sem
bjó í Selhaga og víðar, var heppinn formaður og allgóð skytta. Þau
hjónin Stefán og Guðrún Jónsdóttir voru uppeldisbörn Stefáns
Bjarnasonar á Ingveldarstöðum og Onnu konu hans. Synir þeirra
Stefáns og Guðrúnar, Stefán og Eyþór, voru í æsku sýnilega vel
gefnir og sönghneigðir eins og foreldrar þeirra.
Stefán var fyrst formaður nokkur ár fyrir Stefán fóstra sinn, og
stundum á vetrum var hann hákarlaformaður fyrir Þorleif Jónsson
á Reykjum.
Stefán var mjög vel fiskinn á handfæri og yfirleitt góður sjómað-
ur. Mátti heita, að vel rættist úr fyrir honum á sjó, þó viðhorfið
væri stundum tvísýnt.
Einn veturinn, er Stefán var hákarlaformaður fyrir Þorleif á
Reykjum, stólparauk á svipstundu á vestan í einni legu, svo þeim
var ómögulegt að ná landi. Urðu þeir þá að gera tilraun upp á líf
og dauða að lenda í Ingveldarstaðahólmanum og láta auðnu ráða,
hvernig tækist að lenda í klungrinu. Þeir voru fáliðaðir og illa
menntir að bjarga undan skipinu í jafn vondum Iendingarstað, svo
það kom gat á skipið. Þeir blotnuðu bæði af rokinu og brimskolinu.
1 Drengirnir, sem drukknuðu, voru báðir frá Höfða, þeir Jón og Maron
Jóhannssynir, Jón 13 ára, Maron 9 ára. „Drukknuðu í sjóróðri í ofsabil,
er gjörði úr logni," segir í prestsþjónustubók.
104