Skagfirðingabók - 01.01.1966, Blaðsíða 61
í GÖNGUSKÖRBUM
ekki stærð til að fóðra nema rúmlega eina kú, en vitaskuld voru
til nógar stargresisslægjur, og má því vel vera, að kýrnar hafi oft
verið tvær.
Þegar ærnar báru á vorin, mjólkuðu þær svo vel með lömbun-
um, ef komin var upp jörð, þó ekki væri nema nýgræðingur, að til
mikilla búdrýginda var, og sauðaábrystir, búnar til úr broddmjólk-
inni, eru eitt hið bezta, sem til er ofan í svangan maga; það get ég
sjálfur, er þetta rita, borið um af eigin raun. Svo þegar lömbin
voru orðin hálfsmánaðar gömul, var farið að stía, sem kallað var.
Lömbin voru þá tekin frá ánum seint á kvöldin og byrgð inni;
ærnar svo mjólkaðar á morgnana, og þá kom nóg mjólk handa
börnunum. Þetta búskaparlag tíðkaðist á þessum árum á öllum
kotunum þarna í Skörðunum. Svo komu fráfærurnar 11 — 12 vikur
af sumri og þar með nóg mjólk, smjör, rjómi og skyr. En allt
kostaði þetta mikla vinnu og fyrirhöfn fyrir unga og gamla, sem
eitthvað gátu, s. s. hjásetur, smalamennska, mjaltir, hirðing mál-
nytu o. m. fl. Fjallagrös voru nærtæk í Skálarhnjúk, og var alla
tíð mikið tínt og borðað af þeim.
Hross átti Gunnar í Skálarhnjúk víst alltaf nokkur. Það var
alveg ómissandi vegna hinna löngu og erfiðu aðdrátta. Snemma
komst það orð á, að hann ætti gott hrossakyn, enda mun hann
stundum hafa haft ofurlitlar tekjur af því að selja efnilega fola, og
reyndust þeir sumir ágætlega, enda voru allir vissir um það, að
þeir voru ekki aldir upp á útigangi folarnir frá Skálarhnjúk.'
Eins og nærri má geta, hefur verið margt erfiðið og stritið hjá
þeim Skálarhnjúkshjónum, meðan börnin voru í æsku, en svo hafa
þau smám saman komið til léttis og gagns, eins og gengur og
gerist. Það heyrði ég Gunnar segja, að þó að margt hefði verið
1 í bók sinni, Horfnum góðhestum, segir Ásgeir Jónsson frá Gottorp, að
Gunnar hafi átt „gott reiðhestakyn, sem mikið orð fór af, en sumt af því
var æði skapfrekt og ófyrirleitið. Gunnar ól upp jarpan fola. Hann var
fæddur 1881 á snjóskafli, en þá voru harðindi mikil á landi hér. Vagga
Jarps hefur því verið köld, en guðaveigar kalda fjallaloftsins hresstu snáð-
ann og gáfu honum í vöggugjöf hraust lungu, sem síðar á ævi hans brugð-
ust ekki með þol og hreysti í hans mörgu þrekraunum og svaðilförum."
59