Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Side 11
MULAÞING
9
fræðingur Nils Hovdenak að nafni til að sjá um vegarlagningu um
Vestdalsheiði sem þá var fjölförnust leið milli Héraðs og Seyðisfjarðar.
Til starfa með honum var þá ráðinn Páll Jónsson frá Elliðakoti í
Mosfellssveit, fæddur þar 10. nóv. 1853. Skyldi Páll kynna sér eða læra
af hinum norska verkfræðingi helztu undirstöðuatriði í vegagerð. Síðar,
eða árin 1886 - 1889, dvaldi Páll í Noregi til að kynna sér þar betur
vinnubrögð í vegagerð m. a. lærði hann að hæðar- og hallamæla vegi,
og gera kostnaðaráætlanir. Vann hann síðan á ýmsum stöðum hérlendis
að lagningu vega. Enn eru glögg merki um vegagerð þeirra Hovdenaks
um Vestdalsheiði, þótt ekki væri þeim vegi við haldið að neinu ráði.
Aðalumferðin til Seyðisfjarðar færðist inn á Fjarðarheiði og þar var
síðar akvegurinn lagður. Páll Jónsson ákvað vegarstæði um Fjarðar-
heiði 1890 og lagði veginn um heiðina 1893. Hann lét og hlaða vörður
með veginum sem enn má sjá leifar af. Einnig má víða sjá leifar af
vegi Páls á heiðinni og var mikið af þeim vegi notað fyrst þegar gert
var bílfært þar um. Um það leyti sem Páll vann á Fjarðarheiði mældi
hann fyrir vegi um Eskifjarðarheiði.
Sumarið 1895 vann Páll að vegabótum á póstleiðinni norður um
Hróarstungu, milli Bótar og Jökulsár, einkum í Brúarhálsi. Þá mældi
hann fyrir brú á Kaldá í Jökulsárhlíð, en brúargerð lauk Páll þar 1899.
Sumarið 1896 vann hann á Jökuldai, því að um hann lá póstleiðin
norður í Grímsstaði. Byggði m. a. brýr á þrjár ár, Gilsá innan við
Skjöldólfsstaði, Rjúkanda og Teigará. Þarna voru aðdrættir erfiðir.
Viður í brýrnar fluttur í drögum af Vopnafirði og sement reitt í kössum.
Styrkur þessara brúa var að sjálfsögðu miðaður við klyfjahesta, eins
og raunar aðrar vegabætur á þessum árum.
Árið 1899 vann Páll á Héraði. Lagði veg inn Velli allt inn fyrir
Úlfsstaði, hlóð upp veg um Stangarásblá og víðar. Kom þessi vegagerð
að góðum notum er síðar var þar gerður akfær vegur. Enn vinnur Páll
á Völlum og í Skriðdal sumarið 1900, það var póstleiðin.
Páll Jónsson var sérkennilegur maður um margt. Kappsfullur og
ósérhlífinn, vandaði allt sem hann vann og mátti ekki vamm sitt vita
í neinu. Hann vildi líka að þeir sem hjá honum unnu sýndu áhuga á
verkinu og ynnu vel. Aftur á móti sætti hann sig ekki við annað en að
menn hans hefðu þolanlegan aðbúnað eftir því sem þá var kostur á.
Ákveðið hafði verið á Alþingi að flutningabraut (þjóðvegur) yrði
lögð frá Búðareyri í Reyðarfirði að Lagarfljóti, en lítið hafði orðið úr
framkvæmdum. Sýslunefnd Suður-Múlasýslu gekkst þá fyrir því að
Páll var fenginn til að kanna vegarstæði á Fagradal og mæla þar fyrir