Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Page 56
54
MÚLAMNG
Þórarinsstöðum 1955 en skrölt þangað á bílum fyrr. Ófullkominn ruðn-
ingsvegur komst út í Austdal en þá var sú jörð komin í eyði. Akfær
vegur komst aldrei í Skálanes, en sá bær fór í eyði 1961. A árunum
1963 - 1964 var vegur innan úr kaupstað og út hjá Hánefsstöðum
endurbættur að miklum mun. Má segja að þá hafi fyrst verið lagður
vel akfær vegur þessa leið.
Úthéraðs- og Borgarfjarðarvegir
Eyvindará fellur í Lagarfljót utan við Egilsstaði. Hún var lengi mikill
farartálmi á leið manna um Hérað og niður til fjarða. Seyðisfjarðar.
Mjóafjarðar og Eskifjarðar, enda afrennslissvæði hennar stórt og hún
því oft vatnsmikil. Því var það að snemma vaknaði áhugi manna fyrir
því að brúa ána.
Tryggvi kaupstjóri Gunnarsson, sem m. a. stofnaði og rak verzlun
Gránufélagsins á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, beitti sér fyrir brúargerð
þessari. Lét hann á sinn kostnað eða síns fyrirtækis telgja til efnið í brúna
úti í Kaupmannahöfn og flytja það upp til Seyðisfjarðar. Seint gekk að
koma efninu á staðinn sem brúnni var valinn hjá Egilsstöðum, enda var
þá ekki um vegi að ræða, en það tókst þó og var brúin sett á ána árið
1882. Þetta var á sínum tíma ágæt samgöngubót miðað við að þá voru
hestarnir einu samgöngutækin. I’eir Breiðdælingar Þorgrímur snikkari
Jónsson frá Gilsá og Magnús Magnússon frá Eydölum sáu um uppsetningu
brúarinnar. Endurbyggð var brú þessi 1920 og þá úr steinsteypu, brúar-
smiður þá mun hafa verið Valgeir Jónsson. Sú brú er enn í góðu gildi
(1984) með nokkurri endurbót sem á henni var gerð 1958.
Árið 1930 var vegurinn frá Egilsstöðum að Óshöfn við Héraðsflóa
tekinn í þjóðvegatölu. Áður var þetta að sjálfsögðu sýsluvegur lítt eða
ekki akfær. Akfært mátti þó kalla að Breiðavaði um 1918 og í Eiða
komst fyrst bíll 1920 (Meyvant) enda þá bílgeng brú komin á Eyvind-
arána. Sæmilega mátti kalla bílfært orðið í Eiða 1932 með tilkomu
brúar á Eiðalæk það ár. Brú á Uppsalaá bvggð 1943. Báðar voru þessar
brýr steinsteyptar, og endurbyggðar voru þær báðar 1972, brúarsmiður
þá Sigurður Jónsson á Sólbakka. Akfær vegur á hreppamörk Eiða- og
Hjaltastaðaþinghár 1935. Jón verkstjóri Isleifsson sá um þessa fvrstu
akvegargerð út Eiðaþinghá. Sigurður verkstjóri Sigbjörnsson frá
Ekkjufelli vann með Jóni að vegagerð þessari og sá um hana út að
Bóndastaðalæk í Hjaltastaðaþinghá, var þá Einar Jónsson orðinn yfir-
verkstjóri.