Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Page 102
EIRÍKUR BJÖRNSSON
Fjárglöggur smali
Afi minn, Eiríkur á Karlskála hafði lengi fjármann þann er Jón hét
og var kallaður smali. Jón smali var svo fjárglöggur að af bar. Ef hann
sá kind einu sinni þá þekkti hann kindina þaðan af, hvar sem hann sá
hana. Hann þekkti allt fé húsbónda síns og þó gott betur. hann þekkti
fé nágrannanna líka. Hann þekkti féð á svipnum „eins og við þekkjum
hver annan á útlitinu og fötunum“ eins og Jón var vanur að segja er
hann var spurður um hvernig hann gæti þetta. Þessi hæfileiki Jóns var
margreyndur og ekki véfengdur.
Eiríkur á Karlskála átti þá jörð í Skriðdal er Eyrarteigur heitir. Þar
var mjög gott haglendi. Þangað rak hann lömb sín á haustin og fóðraði
landseti hans að vetrinum lömbin. Eftir göngur að hausti var þeim svo
skilað eigandanum. Með þeim var alltaf gefið korn (rúgur) sem fóður-
bætir að vetrinum. Sami háttur var hafður á heima fyrir, öll lömb afa
fengu rúg að vetrinum. Honum var það kappsmál að koma sér upp
góðum og hraustum fjárstofni, einkum sauðum, en þeir gáfu þá mestan
arð, ekki síst þegar Englendingar tóku að kaupa sauði á fæti og greiddu
með hörðum peningum, jafnvel í gulli. Eiríkur afi átti marga sauði,
aldrei náðu þeir hundraði að eg held.
Eg hef það fyrir satt að Eiríkur á Karlskála hafi fyrstur manna tekið
upp þá nýbreytni að bera fiskúrgang á völl. Og hvílík spretta! Túnið
stækkaði óðum og Karlskálabóndinn varð sjálfum sér nægur af heyjum
og meir en það, hann átti jafnan miklar fyrningar og hjálpaði öðrum
sem urðu heylausir að vorinu. Það var á þeim árum sem Jón smali var
fjármaður hjá afa mínum.
Þá var það eitt haust að leiguliðinn í Eyrarteigi hafði skilað af sér
fóðurlömbunum öllum með tölu. Ekki löngu síðar þóttust menn verða
þess varir að eitt lambið hvarf og Jón smali saknaði gimbrarlambs, svo
viss var hann. Þegar svo lömbin voru tekin á gjöf reyndist þetta rétt,
það vantaði eitt gimbrarlamb. Menn töldu að það hefði farist með