Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Page 111
MÚLAÞING
109
Lindir við Dvngju í Arnardal, sésl til suðvesturs. - Mynd Sveinbjörn Rafnsson.
Biskupaleiðartuggan, sem mjög hefur verið viðhöfð í ræðu og riti
að undanförnu, mætti nú gjarnan niður falla, því ekki síður hefði þessi
leið þá mátt kallast sýsluvegur eða þingleið, kennd við sýslumenn og
lögréttumenn úr Múlaþingi, sem síst hafa sjaldnar farið þessa leið en
biskupar og í rauninni auðvitað mikið oftar.
En þetta átti nú að verða saga um sverð en ekki leiðarlýsingastagl
eða landshátta. Hinsvegar skipta þessar leiðir höfuðmáli í sambandi
við þennan sverðsfund, því hvar er meiri von að finna slíkt áhald á
víðavangi en einmitt við fornar alfararleiðir, og því frekar sem þær
eru fjölfarnari.
Hitt getur svo vel verið álitamál hvort heldur það hafi týnst úr farangri
einhverra ferðamanna, eða það sé kannski úr heiðinni gröf. En þar
sem enginn veit neitt um fundarstaðinn nákvæmlega, þá er ekki hægt
að rannsaka hann, en slíkt hefði hugsanlega leyst úr þeim vafa. Þess
má geta að ekki er óþekkt að heiðnar grafir séu við þjóðleiðir, samanber
kumlið (eða kumlin) í Háamel við Fljótsdalsheiðarenda10 og líka er
nýlega orðin nær vissa fyrir kumli við Jökulsárbrú hjá Fossvöllum.
Hafi sverðið fundist í Bæjarlöndum, er ef til vill sá möguleiki fyrir
hendi, að-þar hafi staðið bær til forna og vopn þetta hafi verið lagt í
gröf með einhverjum ábúanda þar.