Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Side 119
HELGI HALLGRÍMSSON
Grímshellir og Grímsbás
Hugleiðing um Gríms-örnefni
í Droplaugarsona sögu er frá því sagt, að Grímur Droplaugarson
fór huldu höfði, eftir að hafa drepið Helga Ásbjarnarson og hefnt
þannig Helga bróður síns. Með honum voru fóstbræður hans tveir,
Glúmur og Þorkell trani. Þeir leyndust fyrst í jarðhúsi við Oddmarslæk
við Eiðaskóg (nú líklega Hesteyrarlækur), en fóru síðan upp með
Lagarfljóti og yfir það á báti hjá bænum Höfða, en Grímur skilaði
bátnum aftur yfir fljótið og synti yfir það til baka. Síðan syntu þeir
yfir Jökulsá á Dal, því menn Helga Ásbjarnasonar „tóku það ráð, að
halda vörð á vöðum öllum og sitja við brúar á Jökulsá.“ Ekki er þess
getið hvar þeir Grímur lögðu til sunds yfir Jöklu, en Guðmundur
Jónsson frá Húsey telur í grein sinni „Um örnefni í Fljótsdælu“, að
það hafi verið í svonefndum Grímsbás, rétt fyrir utan brúna sem nú
er á ánni skammt fyrir sunnan Fossvelli. (Um þennan Grímsbás hefur
Páll Pálsson ritað í grein „Um steinboga og trébrýr á Jökulsá á Dal,“
í Afmælisriti UMFJ, 1985). Þá er það gömul sögn í Fellasveit, að
Grímur hafi leynzt um tíma í Grímstorfu í Hafrafelli, og hafi það verið
áðuren hann drap Helga. (ÞjóðsögurSigfúsarlX. bindi,bls. 37-38).
Eftir þessi afrek fara þeir félagar til Krossavíkur í Vopnafirði, til
Þorkels Geitissonar, frænda Gríms, og voru þar fyrst uppi í fjallinu,
sem í sögunni er kallað Snæfell, en færðu sig svo niður á hjalla fyrir
ofan bæinn. „Það er nú kallað að Grímsbyggðum síðan.“ segir í sög-
unni. Þetta örnefni hefur ekki haldizt, en Grímsgjá er þekkt í Krossa-
víkurfjalli og Tjaldsteinn, þar fyrir neðan, auk þess Grímsfjara út með
sjónum. (Guðfinna Þorsteinsdóttir: Vogrek, bls. 55 - 56). (Halldór
Stefánsson nefnireinnig Grímshjalla og Grímshelli. Örnefnahandrit).
8: