Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Síða 127
MULAÞING
125
og á Nollar sá sem Fljótsdæla getur um, að vera þar grafinn. Hefur
þá verið mun auðveldara að leynast í Hrafnsgerðisárgilinu, þegar engin
byggð var þar nálægt.
5 Grímsbásinn við Jökulsárbrú
Úr bréfi frá Páli Pálssyni frá Aðalbóli, dags. 20. marz 1987:
„Myndin í riti UMFJ [sem áður er minnzt á] er ekki af básnum,
heldur af gjánni (Grímsgjánni?) sem Guðmundur Jónsson frá Húsey
vildi meina að væri Grímsbás, eftir því sem ég gat skilið lýsingu hans.
Við vettvangskannanir á þessum slóðum, fór fljótlega að læðast að
mér sá grunur, að gjáin væri ekki Grímsbásinn, en það kom lítið því
máli við, sem um var fjallað í greininni . . .
Básinn er bríkarbreidd utar en gjáin, að austanverðu, og það er
alveg ekta bás, eins og ég skil það hugtak.
Þetta er fagurlega gróinn blettur, umgirtur hamraveggjum á alla
vegu, líka ármegin, en auðvelt er að komast ofan í hann um þrönga
klauf í bergveggnum. í hana hefur verið hlaðið, þar sem hún er þrengst,
til hindrunar.
Á einum stað í básnum, upp við klettavegginn að austanverðu, er
lítil tótt úr grjóti gerð. Líklega ekki ósvipuð og í Grímsbásnum í
Hrafnsgerðisárgilinu. Sigbjörn í Blöndugerði rámaði í að hafa heyrt,
að fráfærnalömb hafi verið stíuð þarna.
Sérkennilegur skessuketill er í klettaveggnum að sunnanverðu við
básinn, og er op inn í hann neðst, en þar blasir við formfagur snípur í
miðjumkatlinum, sem gerirþetta náttúrufyrirbæri ennþá sérkennilegra.
I mínum huga leikur enginn vafi á því, að þetta er hinn raunverulegi
Grímsbás. Kannske á Guðmundur við þennan stað, en lýsing hans
bendir þó ótvírætt til þess, að hann eigi við gjána. Ef til vill þekkir
hann ekki staðinn af eigin raun og fer bara eftir munnmælum, og þá
er víst lítill vafi að ég er að villast, þegar ég bind mig fast við orðalagið:
„Þar sem fyrst verður komist ofan í gljúfrin . .
Það er líka stórlega athyglisvert, að nú er vissa fengin fyrir því, að
eitt eða tvö kuml úr heiðni hafi verið rétt hjá þessum ef til vill vættar-
trúarlega stað. Það er dálítið einkennilegur staður, því ekki er vitað
um neinar leifar mannabyggðar þarna í grennd. Af þessum sökum
hefur aukist forvitni mín á Grímsbási á þessum stað og nánasta um-
hverfi hans, og Trébrúarþingið eykur enn á sögulega þýðingu þessa
staðar, ásamt brúnni sjálfri.“