Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Qupperneq 128
126
MÚLAÞING
Hugleiðingar um Gríms-örnefni
Hér gæti vel verið amen eftir efninu, því sjálfsagt verður það aldrei
uppvíst, hvort sögupersóna sú sem Grímur Droplaugarson nefnist, hafi
nokkru sinni dvalið í Grímsbásnum í Hrafnsgerðisárgili, né heldur
verður það sannað að Grímur þessi hafi nokkru sinni verið til.
Örnefni kennd við Grím eða Grímu eru býsna algeng á íslandi. Til
dæmis eru tvær Grímseyjar fyrir norðan land, nokkrar Grímsár og um
20 bæir með þesu kenninafni, að ógleymdum Grímsvötnum í Vatna-
jökli.
í upphafi greinarinnar var getið nokkurra Gríms-örnefna á Austur-
landi, sem öll eru tengd Grími Droplaugarsyni í Droplaugarsona sögu
eða í þjóðsögum. Hér skal nú getið nokkurra fleiri, sem ég hef fundið
í heimildum, eða Páll Pálsson, frændi minn, hefur bent mér á.
Kunnasta örnefnið af þessu tagi er Grímsá í Skriðdal og Völlum,
og veit ég ekki til að það hafi verið tengt við sögu Gríms Droplaugar-
sonar. Hins vegar er til athyglisverð þjóðsaga til skýringar nafninu og
er hún prentuð í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar, 4. bindi, bls. 270
- 271 og nefnist hún „Grímur og Bera“. Heimildamenn eru þeir Þor-
steinn M. Jónsson og Björgvin Jónsson á Útnyrðingsstöðum á Völlum
(1887).
„Það er eldgömul sögn, að í fyrndinni hafi tröllkarl og tröllskessa
búið undir fossinum í Grímsá, þar sem mætast Vellir og Skriðdalshrepp-
ur. Hellir þeirra sést enn, en illa verður komizt í hann, nema á ís.
Karlinn hét Grímur, en hún Bera. Af nafni Gríms er mælt, að áin
dragi nafn. Er hún eitthvert hið mesta bergvatn á Austurlandi og
all-mannskæð. Þessi hjón voru nátttröll, og segja sumir að þau ættu
tíu syni, og þótti þessi lýður umgangsmikill í grenndinni, og þó eigi
verstu meinvættir. Löngum sáust reykir þar úr gljúfrinu, er þau suðu
til matar undir fossinum. Þau fóru mest að föngum á nóttum. sem
nátttrölla er siður til.“
Síðan segir af því, að þeim hjónum leiddist veran undir fossinum og
ákváðu þau að flytja sig út í Tungahagaklif, sem er í gili Grímsár, and-
spænis bænum Tunghaga. Hófu þau ferðina á nýársnótt og fóru út eftir
gilinu. „Fór Grímur fyrstur, þar næst synir hans í einfaldri fylkingarröð,
en Bera seinast." Er ekki að orðlengja það, að morgunsólin náði þeim
á leiðinni, „og urðu þau öll að klettadröngum þeim, er þar standa síðan
í réttri röð, með jöfnu millibili. Bera inni við fossinn, en Grímur framan
við Tunghagatúnið, og svo öll halarófan sona þeirra á milli.“