Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Side 130
128
MÚLAÞING
ekki um neinn foss að ræða, heldur aðeins straumþungt vatn. Gæti
ekki hugsazt að Grímsbásinn væri eins konar hörgur til dýrkunar á
fossvættinum?
Af öðrum Gríms-örnefnum á Austurlandi, má geta um Grímsstaði,
eyðibýli í Úlfsstaðalandi í Loðmundarfirði, Grímstóttí túni Stóra-Sand-
fells í Skriðdal, Grímshjalla á Starmýri í Álftafirði, Grímsstein í landi
Brekku í Tungu og loks má nefna Grímusker við Berunes í Reyðarfirði
og Grímkelsgil (einnig nefnd Grímshellisgil í Þjóðs. Sigfúsar) við
Loðmundarfjörð, yzt að sunnanverðu.
Þessi örnefni verða varla skýrð á sama hátt og hér var stungið upp
á, enda ekki kunnugt um aðstæður á þessum stöðum. Þess er og að
gæta að Grímur hefur verið algengt mannsnafn, einkum í samsetning-
um, og er þess að vænta að einhver örnefni séu kennd við menn með
þeim nöfnum. Er þess raunar getið um Grímstótt í Sandfelli, að þar
hafi „búið smiður, Grímur að nafni“ (Sveitir og jarðir II, bls. 118) og
Gríms nokkurs frá Grímsstöðum í Loðmundarfirði er getið í þjóðsögu
um Kampsbardaga (Þjóðs. Sigf. Sigf. IX, 49).
í íslenzkum þjóðsögum koma nöfnin Grímur og Gríma alloft fyrir
sem heiti á tröllum, hálftröllum, galdramönnum og jafnvel huldufólki,
sbr. t. d. sögnina af Grími og Beru.
í þjóðsögum Jóns Árnasonar er merkileg tröllasaga „Um Kögur-
Grím“, sem Jón Sigurðsson fræðimaður í Njarðvík eystra hefur ritað.
Á sagan að hafa gerzt á tímum Þorvarðar Bjarnasonar (skafins), sem
var bóndi og lögréttumaður í Njarðvík um miðbik 16. aldar. Þorvarður
var á sjó með skipverjum sínum, þegar bátur þeirra lenti allt í einu í
hörðum straumi, sem bar hann óðfluga inn í Kögurvog, sem er við
nyrsta tangann á nesi því sem gengur fram milli Héraðs og Njarðvíkur
(Njarðvíkurafrétt). Þar eru brattar skriður og björg fyrir ofan. „Hellir
stór er upp frá vog þessum, Kögur-Grímshellir kallaður.“ Bar skipið
að hellismunnanum, og greip þá risavaxin hönd um hnýfil þess. Þor-
varður hjó þá á fingurna svo þeir féllu inn í skipið, en hásetar ýttu út.
„Þá vissu skipverjar ekki fyrr en bjarg mikið kom innan úr hellinum,
og kom niður innan við skipið, svo það varð fyrir stóráföllum." Eftir
það komust þeir burtu, og sýndu fingurna, sem þóttu afar miklir. Ekki
er mér kunnugt um aðrar heimildir varðandi þennan helli, eða tröllið
Kögur-Grím, en fleiri tröllasögur greinir Jón frá Njarðvík.
Þeirri hugmynd verður ekki varizt, að eitthvert samband sé milli
Kögur-Gríms og Gríms Droplaugarsonar, þar sem forfeður hans og
frændur áttu einmitt heima í Njarðvík.