Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Blaðsíða 149
MÚLAÞING
147
1923 - hið örlagaríka ár fyrir eigendur Kára - byrjaði vel um vorið,
fiskur kom snemma og entist vel út sumarið og fram á vetur.
Þess skal getið hér að árið 1918 var fyrst byrjað að plægja fyrir kúfisk
til beitu í Reyðarfirði. Eftir það varð aldrei vöntun á beitu lengi í einu.
Þeir á Kára voru einir með þeim fyrstu er þetta reyndu og voru
dugmiklir þar sem annars staðar að ná skelinni á hverju sumri. Skel-
fiskurinn reyndist betri beita en allt annað og varð þeim á Kára drjúg
hjálparhella, þótt svo erfitt væri tíðum að ná henni að ýmsum þótti
illgerlegt.
Þetta umrædda sumar notuðu þeir á Kára skelfiskinn mikið til beitu
og fengu góðan afla um sumarið. Fiskur steig þá heldur í verði.
Þeir höfðu því minnkað skuldir útgerðarinnar að mun og vonuðu
að gera það betur, því fiskur var sæmilegur en gæftir aftur á móti
stopular.
Aðfararnótt 23.1 nóvember 1923 fóru þeir sem fleiri í fiskileit. Veður
var stillt, loftið samskýjað og drungalegt, ekki tryggilegt í augum okkar
eldri mannanna.
Kári og bátur af Eskifirði, „Heim“, fóru fyrstir út eins og oft var
vani þeirra. Var sú ætlun manna að þeir hefðu fyrir nokkru verið búnir
að leggja lóðir sínar þegar stormurinn skall á fyrirvaralaust með roki
og stórsjó, svo við ekkert varð ráðið.
Það var nær kl. 5 um morguninn sem veðrið rauk upp. Á Eski-
fjarðarbátunum voru menn byrjaðir að leggja lóðir sínar eða að búa
sig undir það, en allir hættu þeir við, leituðu til lands og heppnaðist
að komast í höfn, öllum nema Kára og Heim - þeir komu aldrei fram.
Haft var eftir mönnum á öðrum bátum er urðu þeirra varir, að á
báðum bátunum hefðu þeir verið að draga línur sínar, og var því álitið
að báðir hefðu þeir farist við línudráttinn. Líka styrkti það þá hugsun
að daginn eftir, er farið var að leita þeirra, var mikil olíubrák þar sem
sumt af línum þeirra fannst.
Með Kára fórust:
Eiríkur Helgason formaður, ógiftur, 35 ára,
Hallgrímur Stefánsson, giftur, átti sex börn í ómegð, 38 ára,
Gunnlaugur Ólafsson, 17 ára,
Valgeir S. Vilhjálmsson, 18 ára, fóstursonur Gunnlaugs og konu hans.
Þessir menn voru allir frá sama heimili. Var þetta því stórt högg og
mikil blóðtaka í hinn sama knérunn.
1 30. nóv. mun réttara (prestþjónustubók fríkirkjusafnaðar og dagbók í eigu Hilmars
Bjarnasonar frá þessum tíma).