Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Síða 164
162
MÚLAÞING
ilsstaðabændur og margir aðrir svo myndarlegan þátt í plægingunum
1913, að ekki varð yfir komizt eins og fyrr segir. En útleggingarnar og
umtalið varð svipað því sem glettnisandi minn, er eg svo hef nefnt,
hvíslaði að mér vorið 1912, þegar eg var að velta því fyrir mér, hvort
mér væri fært að taka svo mikla plægingu ofan á annan kostnað. Eg
hafði ekki annað við að miða en Elliðaplægingarnar, og þá gat þetta
orðið c. 800 kr. bit. En eftir á hafði eg gaman af, hve nærri eg hafði
farið um aldarandann á Héraði. Eg náði mínu marki, að vekja áhugann
og koma þessu af stað, hver sem orsökin var. Og af því að plægingarnar
tókust svo vel sem fyrr er greint, kostaði gapaskapurinn mig aðeins c.
kr. 227,80. Og vitanlega hefur þessi litli kostnaður, kr. 6.70 á dagsláttu,
haft sín áhrif, eins og reynslan frá 25 krónum Elliða mun áður hafa
dregið úr mörgum um áhugann, svo að alls sé gætt sem hér verkaði á.
Þá mun vert að geta þess, hvernig það atvikaðist að eg hætti störfum
við Sambandið. Eg hafði verið mér mjög úti um að grennslast eftir,
hvernig unnið væri að jarðbroti og annarri jarðyrkju erlendis, enda
ávallt verið hneigður fyrir að hagnýta mér reynslu annarra. Veturinn
1917 - 1918 hafði til mín komið Vestur-íslendingur, er fluttur var heim
aftur. Er eg spurði hann út um, hvernig slíkt væri unnið í Ameríku,
sagði hann mér að mjög væru til þess notaðar dráttarvélar, er nefndust
þar traktorar. Væru þeir látnir draga plóga og hvers konar önnur
jarðyrkjuverkfæri, mörg eða fá í einu, eftir því hvort jörð væri létt
eða þung. Síðla vetrar skrifaði eg fulltrúa landsins, Árna Eggertssyni
til Ameríku 2. marz og bað hann að gefa mér nákvæma lýsingu á
slíkum traktor og umsögn um það, hvort hann mundi vera nothæfur
á íslenzka jörð. Frá þessu skýrði eg á aðalfundi Sambandsins 1918.
Tók fundurinn því vel og fól stjórn að halda áfram að vinna að málinu
og draga saman fé til kaupanna, ef til kæmi. Þetta var endurtekið á
aðalfundi 1919, þar sem svar Árna var þá enn ekki komið. Eftir þann
fund endurnýjaði eg bréf mitt til Árna Eggertssonar, þar sem líklegt
var að hitt hefði glatazt. Þegar svarið dróst enn von úr viti, datt mér
í hug að snúa mér til ríkisstjórnarinnar. En þá var það orðið of seint,
til þess að upplýsingar fengjust fyrir aðalfund 1920. Mér féll afar illa
dráttur þessi. Eftir lýsingu þeirri, er eg hafði fengið af áhaldi þessu,
taldi eg það fallið til þess að verða hæfilegt framhald og framför frá
því, sem þekkzt hafði hér á landi. Það hafði alls ekki leynzt mér, að
allmiklir erfiðleikar voru á því að vinna íslenzka jörð með lifandi krafti.
Jafnvel þótt hestum væri fjölgað, þá var vinnan þeim erfið. Og þó var
hitt enn erfiðara og hæpnara, að fá hæfa menn til þess að stjórna þeim