Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Síða 170
168
MULAÞING
um broshýra og glaðlega, og svo var brosað að orðum hans og tilsvörum,
þeim sem hermd voru hverju sinni. Allt var þetta tal græskulaust, því
að maðurinn var sakleysið sjálft og unnandi allrar skepnu, og margt
sagt með nokkurri aðdáun, því að hvort tveggja var, hann hafði á sér
nokkurt menntaorð og hann átti til að svara vel fyrir sig og var fljótur
að því.
Ekki leið á löngu þar til ball var haldið í skólanum, í leikfimisalnum
í kjallaranum. Þar var þá Þorsteinn kominn, sat glaðlegur á stól við
borð, og á borðinu stóð grammafónninn hans með lúðrinum og hunds-
myndinni: „His masters voice.“ Svo spilaði hann á fóninn á ballinu,
trekkti hann upp með hægð og aðgát og skipti um plötur. Hann var
uppáfærður, þveginn og greiddur, en kringum hann lék þó eimur í
lofti, ekki svo mjög veikur, sem átti rót sína að rekja til starfa hans í
fjósinu. Stór olíulampi hékk í loftinu, varpaði birtu á salinn með dans-
andi unglingum skólans og Þorstein Magnússon, sem dró upp fjöðrina
broshýr og skyggndist um með velþóknun eins og þetta væri kálfastóðið
hans að leik.
Þannig tengdist Þorsteinn skólanum og félagslífinu strax í byrjun
námstímans hvert haust, nokkuð lengi held eg. Hann var heldur tregur
til að lána hópnum fóninn, en fús til að koma með hann sj álfur og spila.
Ekki leið á löngu þangað til sitthvað fór að vitnast um þennan mann
og allt var það á einn veg og honum til sóma - líka það broslega. í
mínum huga mótaðist fljótt sú skoðun, að hann væri fulltrúi hins barns-
lega hugarfars, hrekkleysis og vammleysis - og einfeldni að vissu leyti,
en samt sem áður óvenjulegra hugða og hæfileika.
Hann átti sér, þegar þetta var, vistarveru uppi á loftinu í „bænum“,
en svo var hús bóndans jafnan nefnt, þ. e. elsta skólahúsið á Eiðum
- við hlaðið gagnvart kirkjunni og kirkjugarðinum. Þessi vistarvera
var lítið herbergi og varla næðissamt, því að um það lá gegnumgangur
í þrjú önnur herbergi á loftinu. Hann átti þar undir vesturglugga rúm,
allvel búið fiðursængum undir og yfir og teppi yfir á daginn. Dálítinn
bókaskáp átti hann þar líka, reyndar tvo, fóninn og plötusafnið, sem
var talsvert að vöxtum1).
Ekki get eg sagt að eg hafi kynnst honum neitt að ráði þá fimm
vetur sem átti að heita að eg væri honum samtíða á Eiðum, tvo vetur
nemandi í skólanum, aðra tvo farkennari í sveitinni og þá mikið á
Eiðum, og að síðustu einn vetur eftir að eg varð kennari við alþýðuskól-
') í 4. hefti Múlaþings (1969) bls. 10 er teikning af loftinu. Þorsteinn hafði herbergið sem
merkt er með tölunni 19.