Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Side 171
MÚLAÞING
169
ann. Og kynningartíminn var aðeins vetur. Á sumrin var eg annars
staðar. Því var það, að allmörgum árum eftir að hann dó og eg fékk
bréflega tilmæli um að grafa upp helstu æviatriði hans, að eg þurfti að
leita til annarra. Þetta var 1964. Eg leitaði til tveggja manna sem þekktu
hann, Þórhalls Jónassonar á Breiðavaði og Jóns Sigfússonar á Eiðum.
Jón var síðasti húsbóndi Þorsteins og sá um hinsta flutninginn - frá
„bænum“ þvert yfir hlaðið í kirkjuna og svo í garðinn.
Sú vitneskja sem þeir Þórhallur og Jón létu mér í té verður nú rakin
lítillega og öðrum molum bætt við, mestmegnis úr kirkjubókum og
Ættum Austfirðinga.
Foreldrar Þorsteins hétu Magnús Rafnsson og Björg Þorsteinsdóttir,
hjón á Jökuldal og eitthvað víðar. Bæði voru af austfirskum ættum,
Magnús af Héraði og úr Breiðdal, og Björg ættuð af Héraði, m. a. af
Melaætt. Björg var móðursystir Björgvins Guðmundssonar tónskálds
og þeir Þorsteinn og Björgvin því systrasynir. Það var því ekki að
undra þótt Þorsteinn hefði gaman af músík og ætti grammafón. Önnur
systir Bjargar bjó á Aðalbóli, gift Jóni Guðmundssyni bónda þar. Þar
voru þau Björg og Magnús í húsmennsku þegar Þorsteinn fæddist 9.
maí 1878, en árið áður bjuggu þau í Fossgerði (Stuðlafossi) á Efradal.
Eitthvað bjuggu þau aftur í Fossgerði, en fluttust síðan að Hamragerði
í Eiðaþinghá, og í Eiðakirkju var Þorsteinn fermdur vorið 1892. Eftir
ferminguna var hann í Bót í Hróarstungu. Þar er hann vinnumaður
1904, en fer í Búnaðarskólann á Eiðum 1905, kom þangað um vorið,
sagði Þórhallur Jónasson. Þá hefur hann verið 27 ára að aldri eða þar
um bil, er hann tók til við búfræðinámið síðasta skólastjórnarvetur
Jónasar Eiríkssonar.
Ekki munu fræði búnaðarskólans hafa lagst mjúklega að sál og huga
Þorsteins. í prentaðri skólaskýrslu frá þessum vetri, 1905-1906, standa
þessir titlar kennslubóka: Uorganisk Kemi, Lærebog i Botanik, Jord-
brugslære, Lærebog i Landmaaling og aðrar í Fysik (og „Naturen og
dens Kræfter,“) ennfremur Praktisk Geometri og Regnebog. Þetta eru
ekki álitlegir titlar fyrir sveimhuga sem ekki hafði hafði lært orð í
erlendum málum svo að kunnugt sé. Þórhallur taldi að hann hefði gert
þessu hraungrýti lítil skil. Próf voru ekki þreytt um þetta leyti við
skólann, svo að ekki liggur fyrir vitnisburður um það hversu Þorsteini
nýttist, en ætli Þórhallur hafi ekki farið nærri um það.
Það gerist líka stundum í lífinu að menn finna annað en það sem
þeir eru að leita að í það og það skiptið. Ef Þorsteinn hefur verið að
leita að búfræðiþekkingu á Eiðum, fann hann hana víst ekki, en hann