Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Page 175
MULAÞING
173
Steini gamli stilltur er,
stiklar oft á tánum,
vatnið inn í bæinn ber,
bestur er með kjánum.
Steini svaraði:
Þó Steini gamli stilltur sé
og stikli oft á tánum,
fer hann ekki að falla á kné
fyrir stelpukjánum.
Hann lét víst aldrei lokkast af fagurgala kvenna, tómlátur um slíkt
hvað sjálfan hann varðaði, en auðnaðist þó a. m. k. einu sinni að
bregða fyrir sig orðum af bók í hjúskaparátt, svo að í minnum var
haft. Það var þegar Sigurður bróðir hans kvæntist Ingibjörgu Baldvins-
dóttur. Þá spurði einhver hann að því, hvort honum fyndist ekki þessi
Ingibjörg heldur óálitleg fyrir Sigga. „Kærleikurinn spyr ekki að,“
svaraði Þorsteinn án þess að bil yrði á milli spurningar og svars og
bætti svo við: „þetta er traustleg kona.“
Þeir voru fjórir bræðurnir. Sigurður og Ingibjörg bjuggu lengi í
Hamragerði og efnuðust á tímabili, en fluttust síðan í Borgarfjörð.
Hjá þeim ólst upp Guðbjörg dóttir Sigurðar og Sigurlaugar Björnsdótt-
ur frá Njarðvík. Önnur börn átti hann ekki og hinir bræðurnir engin,
en þeir voru auk Þorsteins og Sigurðar, Jón, sem lengst af var í Eiða-
þinghá, talsvert þroskaheftur eins og nú er sagt, og yngstur var Páll á
Litla-Bakka.
Jón Sigfússon sagði mér frá andláti Þorsteins, sem bar upp á kross-
messudaginn 3. maí 1945. Þá hafði hann vistaskipti, þessi kyrrláti og
glaði maður, og gekk inn í dýraríki herra síns eftir rétta 40 ára Eiðavist
hjá tíu skólastjórum, bændum og bústjórum á skólabúinu. Lengst hjá
Páli Hermannssyni, 1928 - 1944. Þeir skröfuðu margt saman. Einu
sinni er þeir sátu að borðum bar Páll upp fyrir honum þessa spurningu:
„Hvar hefur þú nú orðið svengstur á ævinni, Þorsteinn minn?“ „Hér
á Eiðum,“ svaraði Þorsteinn umsvifalaust. Hann hafði miklar mætur
á Páli og kveið brottför þeirra hjóna þegar að dró. Einhver spurði
hann þá hvort hann mundi fara frá Eiðum, þegar þau flyttu. „Æ, ætli
það,“ svaraði hann, „eg fer víst bara hérna út í kirkjugarðinn.“ Síðasta
æviárið var hann hjá Jóni Sigfússyni og konu hans, Sigurlaugu Jónsdótt-
ur - í boði þeirra má segja, því að þau buðu honum vist hjá sér.