Tölvumál - 01.11.2009, Page 17
T Ö L V U M Á L | 1 7
á háannatíma. Össur hf. hefur nýtt í vörum sínum gervigreind sem byggir
á grundvallaraðferðum við stýritækni, en slíkt má nota á mörgum öðrum
sviðum. Þá undirbýr CCP Games nú notkun gervigreindaraðferða við að
stjórna sýndarverum í nýrri viðbót við leikinn geysivinsæla Eve Online.
Vöruþróun
Vöruþróun hjá fyrirtækjum er oft miðuð við þrjú ár, sem er töluvert
skemmri sjóndeildarhringur en í grunnrannsóknum háskóla, þar sem
hann er oft áratugur eða meira. Vitvélastofnun mun koma hér inn og
brúa bilið milli framtíðaráætlana atvinnuvegarins og langtímarannsókna
akademíunnar. Markmiðið er að stofnunin geri þátttakendum kleift að
skoða hagnýtar spurningar í víðara samhengi en ella væri gerlegt innan
hvers og eins fyrirtækis, og ýta þannig undir samlegðaráhrif samstarfsins.
Menntastofnanir sem taka þátt geta gefið meistara- og doktorsnemum
möguleika á að kynnast rannsóknum tengdum starfvettvangi fyrirtækja
sem nýta sér gervigreind og hermun.
Fjármögnun
Tekjur stofnunarinnar koma frá íslenskum og erlendum samkeppnissjóðum,
útseldri tæknilegri ráðgjöf og, eins og áður sagði, frá áskrift fyrirtækja. Slík
áskrift er spennandi nýjung á þessu sviði hér á landi og munu áskrifendur
verða úr ýmsum geirum, svo sem verksmiðjuhönnun og framleiðslu,
hugbúnaðargerð, róbótaiðnaði, matvælaiðnaði, orkurannsóknum og
fjármálageiranum. Allir sem gerast áskrifendur hafa opinn og greiðan aðgang
að verkefnum og upplýsingum innan stofnunarinnar og fá þannig möguleika
á að nýta nýjustu tækni í starfsemi sinni. Áskrifendur úr atvinnulífinu færa
stofnuninni verkefni tengd þeirra eigin starfsemi; áskrift háskóla veitir
doktorsnemum, nýdoktorum og öðrum akademískum starfsmönnum
aðgang að verkefnum og möguleika á starfi til bæði langs og skamms tíma.
Hér eru því gríðarleg tækifæri fyrir einstaklinga sem vilja fara í meistara-
og doktorsnám eða hafa nýlokið námi. Fyrst og fremst er þá um að ræða
nemendur í tölvunarfræði, en vegna þess hve hermun og gervigreind eru
víðfeðm svið hafa nemendur úr öðrum greinum einnig möguleika. Má þar
nefna t.d. líffræði, sálarfræði, verkfræði og viðskiptafræði.
Vitvélastofnun: Sterk stoð
Margþættur tekjustofn, sérþróuð eignarréttarákvæði og stjórnun
Vitvélastofnunar er hannað til að auka flæði hugmynda, fólks og
hugbúnaðar milli fyrirtækja og akademíunnar. Stofnunin mun jafnframt
leggja hornstein að auknu samstarfi milli fjölda aðskilda atvinnugreina
og aðkomu fjárfesta að nýrri og háþróaðri tækni. Henni er því ætlað
veigamikið hlutverk við að færa Ísland nær því sem gengur og gerist í
öðrum löndum á hátæknisviðum. Starfshættir stofnunarinnar munu nýta
samlegðaráhrif ólíkra þátta til þróunar á öflugri tækni og vísindum á
þann hátt að stórauka líkurnar á samstarfsmöguleikum til menntunar- og
rannsóknarsamstarfs við erlenda háskóla, stofnanir og fyrirtæki. Markmiðið
er að gera Vitvélastofnun að vissum miðpunkti í samstarfi vísindamanna í
Bandaríkjunum og Evrópu á þeim sviðum sem stofnunin einbeitir sér að, en
Kristinn segir það næsta öruggt mál að bæði gervigreind og hermun muni
skipa stöðugt mikilvægari sess í þjóðfélaginu. Ekki bara í vöruþróun heldur
líka í ákvarðanatöku um ýmiss mál varðandi umhverfi, borgarskipulag og
ferðamáta. Sífellt flóknari spurningar eru að skjóta upp kollinum varðandi
tilvist mannsins á jörðinni, svo sem gróðurhúsaáhrifin, og krefjast þau
sífellt öflugri aðferðafræði við ákvarðanatöku. Kristinn telur að ef vel tekst
til með uppbyggingu Vitvélastofnunar má nýta stjórnsýslulega aðferðafræði
hennar á öðrum sviðum og stofna sambærilegar stofnanir á sviðum líftækni,
umhverfisrannsókna og orkufræða. Á þann hátt væru stoðir hátækniiðnaðar
og -menntunar á Íslandi styrktar enn frekar.
Tölvumál þakkar Kristni fyrir fróðlegt viðtal og óskar honum og félögum
hans í Vitvélastofnunar Íslands velfarnaðar.
Vaxandi eftirspurn er eftir hugbúnaði og tækni
á sviðum gervigreindar, vitvísinda og hermunar
víðsvegar um heim
Tekjur stofnunarinnar koma frá íslenskum og erlendum
samkeppnissjóðum, útseldri tæknilegri ráðgjöf og frá
áskrift fyrirtækja