Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Blaðsíða 7

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Blaðsíða 7
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 89. árg. 2013 3 „Kerfið að hrynja“ var yfirskrift fréttar sem birtist nýlega um ástandið í heilbrigðiskerfinu. Fjölmiðlar landsins hafa undanfarið verið fullir af fréttum um ýmis mál er varða heilbrigðiskerfið. Það er í raun sama hvar borið er niður, fréttirnar eru ekki góðar. Sem dæmi um nýlegar fyrirsagnir má nefna: Forsendur fyrir háskólasjúkrahúsi kunna að bresta á næstu mánuðum; Rækta berklabakteríur í leku húsi; Langur biðlisti eftir aðgerðum; 280 hafa sagt upp á LSH; Stefnir í óefni í tækjamálum LSH; Plástra vanda vegna myglusvepps. Þessi dæmi sýna hversu langt hefur verið gengið í niðurskurði. Allar stoðir heilbrigðiskerfisins virðast vera að bresta: húsnæðið, tækin og ekki hvað síst mannaflinn. Mest hefur borið á ástandi mála á Landspítala í þessari umræðu enda langstærsta sjúkrahús landsins og þar starfar til að mynda um helmingur allra hjúkrunarfræðinga hér á landi. Vandinn er þó víðtækari hvort sem horft er til tækjabúnaðar eða mannaflans. Á heilbrigðisstofnunum víða um land hefur stöðugildum hjúkrunarfræðinga verið fækkað svo mjög að rétt tekst að halda einum hjúkrunarfræðingi á hverri vakt. Ekkert má út af bera svo illa fari. Margar sjúkrastofnanir reiða sig auk þess nær alfarið á gjafafé til að endurnýja tækjabúnað sinn. Slíkt er auðvitað með öllu óviðunandi. Heildarútgjöld til heilbrigðismála árið 2011 námu 147,4 milljörðum króna, eða 9% af landsframleiðslu. Hlutfallið hefur lækkað talsvert síðustu ár. Það var 9,3% árið 2010 og 10,4% árið 2003. Til þjónustu sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila runnu samtals 54% útgjaldanna 2011, eða einu prósenti minna en árið áður. Augljóslega leiða minni fjárveitingar til samdráttar í rekstri sjúkrastofnana. Laun eru alla jafna um og yfir 70% af rekstrarkostnaði og því ómögulegt að skera niður öðruvísi en lækka launaliðinn. Fyrir því hafa hjúkrunarfræðingar sannarlega fundið. Laun hjúkrunarfræðinga hafa verið í brennidepli síðustu vikur og mánuði. Gögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins sýna svart á hvítu launamun upp á allt að 25% milli hjúkrunarfræðinga og annarra opinberra stétta með sambærilega menntun. Slíkan launamun ætla hjúkrunarfræðingar ekki að una við lengur. Fjölmennasti fundur hjúkrunarfræðinga í manna minnum, sem haldinn var 4. febrúar síðastliðinn, sýndi fádæma samstöðu og eindrægni hjúkrunarfræðinga. Þó launin hafi verið í brennidepli hafa aukið álag, undirmönnun, óviðunandi vinnuaðstæður og ótti um öryggi sjúklinga og hjúkrunarfræðinga sjálfra, einnig leitt til þess að hjúkrunarfræðingar segja nú „hingað og ekki lengra“. Hinn reyndi hjúkrunarfræðingur Anna Gyða Gunnlaugsdóttir lýsti áhyggjum sínum þannig á Facebook-síðu hjúkrunarfræðinga: „Ég finn oft fyrir óttatilfinningu þegar ég fer í vinnuna. Hvað verða margir í vinnunni í dag? Það er nú farið að ræða að öryggi sjúklinga á LSH sé ógnað vegna niðurskurðar og vinnuálags, nokkuð sem aldrei hefur mátt segja opinberlega. EN. Mér finnst öryggi mínu sem starfsmaður ekki síður ógnað.“ Eflaust geta margir hjúkrunarfræðingar tekið undir þessi orð Önnu Gyðu. Andlegt álag er ekki síður farið að segja til sín hjá hjúkrunarfræðingum en líkamlegt álag. Það er andlega slítandi fyrir alla að fara af vakt dag eftir dag, vikum saman, vitandi að maður hafi aðeins komist til þess að gera það nauðsynlegasta, það sem var mest aðkallandi, fyrir sjúklingana sína. Hjúkrunarfræðingar læra í námi sínu að horfa á sjúklinga sína heildrænt, að hjúkrunin er ekki bara líkamleg heldur þarf ekki síður að huga að andlegu ástandi sjúklingsins, fræða og styðja hann og fjölskyldu hans. Þessir síðasttöldu þættir víkja í forgangsröðun verkefna þegar verkefnin eru fleiri en hægt er að sinna með viðunandi hætti. Við slíkar aðstæður eykst andleg þreyta verulega, aukin hætta er á mistökum í starfi og jafnvel andlegri örmögnun. Langtímaveikindi hjúkrunarfræðinga hafa aukist mjög síðustu ár. Þegar hjúkrunar- fræðingar hafa fullnýtt veikindarétt sinn hjá vinnuveitanda (sem getur verið allt að einu ári) eiga þeir rétt á sjúkradagpeningum úr styrktarsjóði eða sjúkrasjóði. Fjöldi þeirra sem fengu sjúkradagpeninga úr sjóðum félagsins jókst um 122% milli áranna 2010 og 2012. Þetta er geigvænleg aukning sem sérstaklega þarf að skoða. Á síðasta ári fengu 2,5% starfandi hjúkrunarfræðinga greidda sjúkradagpeninga hluta ársins. Það segir sína sögu um álagið í starfi hjúkrunarfræðinga. Af framansögðu er ljóst að þegar verður að grípa til aðgerða ef bjarga á heilbrigðiskerfinu hér á landi. Setja þarf fram sérstaka endurreisnaráætlun. Sú áætlun þarf að fela í sér allar þrjár meginstoðir heilbrigðiskerfisins: húsnæði, tæki og ekki hvað síst mannaflann. Gera þarf áætlun um þann fjölda hjúkrunarfræðinga, lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem þarf miðað við þá þjónustu sem við viljum veita. Kjör heilbrigðisstarfsmanna þarf að bæta svo Íslendingar verði sæmilega samkeppnishæfir við nágrannalöndin. Skoða þarf verkaskiptingu með opnum huga þannig að tryggt verði að sjúklingar fái þjónustu þess starfsmanns sem best er hæfur til að veita þjónustuna og að þekking allra heilbrigðisstarfsmanna nýtist sem best. Mikla áherslu þarf að leggja á að byggja aftur upp jákvæðan starfsanda og traust, ekki hvað síst á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Stjórnvöld verða að setja endurreisn heilbrigðiskerfisins fremst í forgangsröð sinna verkefna. Veita þarf verulegu viðbótarfjármagni í heilbrigðiskerfið á næstu árum. Heilbrigðismálin eiga að vera kosningamál. Hér með er skorað á stjórnmálamenn, sem eins og aðrir þurfa allir á heilbrigðisþjónustu að halda einhvern tímann á ævinni, að láta sig heilbrigðismál varða og setja þau nú fremst í forgangsröðun sinna verkefna. ENDURREISN HEILBRIGÐISKERFISINS Formannspistill Elsa B. Friðfinnsdóttir. Eirberg ehf. Stórhöfða 25 • eirberg@eirberg.is • Sími 569 3100 • eirberg.is HJÚKRUNARHEIMILI – LÆKNASTOFUR – SJÚKRAHÚS Gott skipulag skilar árangri Scan Modul birgðastýring • Heildstæðar lausnir fyrir heilbrigðisstofnanir • Sparar tíma, pláss og fjármuni • Aukin hagræðing og betri nýting á vörubirgðum Scan Modul vagnar • Birgðastýring á hjólum einfaldar vinnuferlið • Hreyfanleiki auðveldar aðgengi Guldmann endingargóði lyftarinn • Ný og falleg hönnun • Rafglenna á hjólastelli • Seglupphengi (herðatré) auðvelt í notkun Clean fyrir sturtu og salerni • Léttur og aðgengilegur stóll • Úrval aukahluta • Endingargóður og traustur Taurus göngugrindin • Hæðarstilling með gaspumpu • Hægt að nota í sturtu • Fyrir heimili og stofnanir Vandaðir og þægilegir vinnustólar sóma sér vel þar sem mest á reynir Eirberg ehf. er innflutnings- og þjónustufyrirtæki sem hefur á að skipa fagmenntuðu starfsfólki. Markmið okkar eru að efla heilsu og auka lífs- gæði, auðvelda störf og daglegt líf, stuðla að hagræði og vinnuvernd.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.