Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Síða 49

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Síða 49
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 89. árg. 2013 45 Ritrýnd fræðigrein SCIENTIFIC PAPER persónulega mat sem einstaklingurinn hefur á eigin gildi. Hún lýsir sér meðal annars í áliti hans á eigin verðleikum og hvernig samskipti hans eru við aðra. Það mat byggist á almennri getu hans í lífinu og hversu mikilvægur, farsæll og verðugur hann telur sig vera (Coopersmith, 1967). Rannsóknir á sjálfsvirðingu hafa sýnt að hún er mjög mikilvæg fyrir andlega og líkamlega heilsu fólks (Leary o.fl., 1995). Mikil sjálfsvirðing er talin vernda það gegn streitu og öðrum neikvæðum tilfinningum auk þess sem hún hjálpar því að viðhalda eða breyta aðlögun sinni að aðstæðum (Greenberg o.fl., 1992; Leary o.fl., 1995). Fram hefur komið að einstaklingar, sem eru með trausta tengslagerð, hafa meiri sjálfsvirðingu en þeir sem eru með ýkta eða óttablandna tengslagerð (Foster o.fl., 2007). Jafnframt hefur komið í ljós að þeir sem eru mjög kvíðnir eða með mikla hliðrun í tengslum hafa tilhneigingu til að vera með litla sjálfsvirðingu (Gentzler og Kerns, 2004; Jones og Cunningham, 1996). Síðastliðna tvo áratugi hefur tengslakenning Bowlby mikið verið notuð við rannsóknir á rómantískum samböndum (Fraley og Shaver, 2000). Það sem meðal annars einkennir einstaklinga, sem eru í rómantískum samböndum, er að þeir veita hvor öðrum stuðning, hamingju og öryggi en einnig getur skapast streita, kvíði og óhamingja, allt eftir því hverjar væntingar þeirra eru, skoðanir og hegðun (Carnelley o.fl., 1996). Gæðin í þessum samböndum fara því að stórum hluta eftir þeim viðbrögðum sem aðilar í sambandinu sýna hvor öðrum (Lemay og Clark, 2008). Rannsóknir hafa sýnt að jákvætt samband sé á milli sjálfsvirðingar og gæða í rómantískum samböndum (Shackelford, 2001). Auk þess hefur komið í ljós að þeir sem eru með trausta tengslagerð telja sig njóta mikilla gæða í rómantískum samböndum (Feeney, 2002; Gentzler og Kerns, 2004; Monteoliva og García-Martínez, 2005). Þeir eru einnig ánægðari í sínum samböndum en þeir sem eru ekki með trausta tengslagerð (Meyers og Landsberger, 2002; Monteoliva og García-Martínez, 2005) og meira er um nánd, traust og skuldbindingu (Hazan og Shaver, 1987). Jafnframt eru sambönd þeirra yfirleitt löng, stöðug og ánægjuleg þar sem vinátta og lítil afbrýðisemi er einkennandi (Hazan og Shaver, 1987). Rannsóknir hafa að auki sýnt neikvætt samband milli kvíða í tengslum og gæða í rómantískum samböndum, eins og ánægju og trausts (Jones og Cunningham, 1996; Sibley og Liu, 2006) jafnframt sem árekstrar eru algengari (Meyers og Landsberger, 2002). Einstaklingar með hliðrun í tengslum eru ekki, samkvæmt rannsóknum, eins ánægðir í rómantískum samböndum þar sem meira er um árekstra og lítið um skuldbindingu (Collins o.fl., 2002; Meyers og Landsberger, 2002). Af framansögðu er ljóst að traust tengslagerð tengist mikilli sjálfsvirðingu en kvíði og hliðrun í tengslum tengist minni sjálfsvirðingu. Jafnframt kemur fram að tengslagerðir og tengslavíddir eru mikilvægir þættir í gæðum rómantískra sambanda. Samband milli þessara þátta hefur ekki áður verið skoðað hér á landi og því þótti mikilvægt að kanna stöðu þessara mála og bera niðurstöðurnar saman við erlendar rannsóknir. Tilgangur rannsóknarinnar var annars vegar að kanna hugsmíðaréttmæti (construct validity) líkansins af sjálfinu og líkansins af öðrum og hins vegar að skoða samband tengslagerða og tengslavídda fullorðinna einstaklinga við sjálfsvirðingu og gæði í rómantískum samböndum. AÐFERÐ Hugmyndafræðilegur grunnur Sú kenning, sem lögð var til grundvallar þessari rannsókn, er tengslakenning Bowlby (1969), líkan Bartholomew (1990) um fjögurra flokka tengsl fullorðinna einstaklinga og hugmyndir Fraley og Shaver (2000) um tengslavíddir (tafla 1 og 2 og mynd 1). Tafla 1. Tengslagerðir. Traust tengslagerð (secure attachment) Einstaklingar með jákvæða mynd af sjálfum sér og öðrum. Þeir hafa mikla sjálfsvirðingu og þeirra rómantísku sambönd einkennast af ánægju, stöðugleika, trausti og vináttu. Þeim líður vel að vera háðir öðrum og að aðrir séu háðir þeim auk þess sem þeir eru ekki viðkvæmir fyrir höfnun. Losaraleg tengslagerð (dismissing attachment) Einstaklingar með jákvæða mynd af sjálfum sér og neikvæða mynd af öðrum. Þeir eru því með mikla sjálfsvirðingu en lítið álit á öðrum. Þeir vernda sig gegn vonbrigðum með því að forðast rómantísk sambönd. Ýkt tengslagerð (preoccupied attachment) Einstaklingar með neikvæða mynd af sjálfum sér en jákvæða mynd af öðrum. Þeir hafa litla sjálfsvirðingu en mikla trú á eiginleikum annarra. Þeir hræðast höfnun annarra og reyna því að upphefja sína litlu sjálfsvirðingu með óhóflegri nálægð í rómantískum samböndum. Óttablandin tengslagerð (fearful attachment) Einstaklingar með neikvæða mynd af sjálfum sér og öðrum. Þeir eru með litla sjálfsvirðingu og lítið álit á öðrum. Þeir hafa lítinn tilfinningalegan stöðugleika og hræðast mjög að verða hafnað. Því forðast þeir rómantísk sambönd. Tafla 2. Tengslavíddir. Kvíði í tengslum (attachment anxiety) Endurspeglar hversu miklar áhyggjur einstaklingur hefur af því að félagi hans muni ekki vera til staðar þegar hann þarfnast hans. Allt miðar að því að öðlast eins mikið öryggi og kostur er. Hliðrun í tengslum (attachment avoidance) Endurspeglast í því vantrausti sem einstaklingur hefur á félaga sínum og hversu mikið hann kappkostar að halda sjálfstæði sínu og tilfinningalegri fjarlægð.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.