Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Side 27
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 89. árg. 2013 23
Hjúkrunarfræðingar hafa fyrir löngu haslað
sér völl í skólahjúkrun og ungbarnavernd
en að sögn Helgu Sæunnar mætti efla
verulega hlutverk hjúkrunarfræðinga
við almenna móttöku. Á nokkrum
stöðum hafa hjúkrunarfræðingar
tekið að sér sérmóttökur eins og
fyrir sykursýkissjúklinga og fólk með
þvagleka. En hjúkrunarfræðingar gætu
að hennar mati gert miklu meira í
almennri móttöku en venjan er á flestum
heilsugæslustöðvum.
Löng reynsla
Helga Sæunn byggir skoðanir sínar um
hlutverk hjúkrunarfræðinga á áratuga-
reynslu. Hún hefur unnið við heilsugæslu
nánast alla tíð síðan hún útskrifaðist úr
Háskóla Íslands 1990. Hún fór þá austur
á Seyðisfjörð í sumarafleysingum en um
haustið fluttist hún til Egilsstaða og átti
svo lögheimili þar í 18 ár. Á þeim árunum
starfaði hún aðallega á heilsugæslustöðinni
á Egilsstöðum en leysti af á nánast öllum
fjörðum frá Vopnafirði til Djúpavogs. „Ég
hef verið í alls konar stöðum, allt frá því að
vera almennur hjúkrunarfræðingur í að vera
hjúkrunarforstjóri. Ég leysti til dæmis af sem
hjúkrunarforstjóri á Seyðisfirði einn vetur en
var þá líka eini hjúkrunarfræðingurinn,“
segir Helga Sæunn. Á Austfjörðunum
var erfitt að fá lækna og oft voru þeir
farandlæknar. Því voru ærin tækifæri
fyrir hjúkrunarfræðinga að vinna meira
sjálfstætt. Um tíma fékkst ekki læknir á
Vopnafjörð og var Helga Sæunn send
þangað. Þetta var 1999 eftir að hún kom
heim úr meistaranámi en nánar verður
sagt frá því námi hér á eftir. „Vopnafjörður
var þá kominn undir Heilbrigðisstofnun
Austurlands. Framkvæmdastjórinn hafði
mikinn vilja til þess að nýta mína menntun
og í samstarfi við lækna á Egilsstöðum
var ég beðin um að fara á Vopnafjörð
og vera þar í viku. Þessi vika gekk bara
mjög vel og ég lenti ekki í neinu alvarlegu.
Það var reyndar gamall maður sem varð
mjög mikið veikur af þvagfærasýkingu. Ég
skoðaði hann og greindi og í samráði við
lækna á Egilsstöðum fékk hann lyf. Seinna
meir, þegar ég hitti hann, þakkaði hann
mér lífgjöfina,“ segir Helga Sæunn.
Lengst af var Helga Sæunn deildarstjóri
á heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum. Þó
að hún væri þar stjórnandi tók hún
mikinn þátt í hjúkrunarstörfunum. „Ég
var í öllu, mest í heimahjúkrun en líka
í slysamóttöku, í ungbarnavernd og
jafnvel í mæðravernd. Þá fékk ég þjálfun
hjá ljósmóður og svo höfðu konurnar
val um að fara til hjúkrunarfræðings
á Egilsstöðum eða fara niður á firði
til ljósmóður þar. Svo er mikið um
sjúkraflutninga. Þetta er svo stórt
svæði, alveg inn að Vatnajökli og upp
á Möðrudalsöræfi. Sveitirnar eru stórar
og hjúkrunarfræðingar þurfa stundum að
fylgja fólki í sjúkrabílum.“ Helga Sæunn
segist hafa haft mikið gagn af menntun
sinni frá Bandaríkjunum í heimahjúkrun.
„Ég er kannski langt uppi í sveit og greini
að eitthvað er að hjá fólki sem fer sjaldan
á heilsugæslustöð. Ef viðkomandi er til
dæmis með hita og slappleika og er með
eitthvað í öndunarfærunum þá get ég
hlustað lungun og metið hvort eitthvað
er ofan í sjúklingnum eða ekki og get
sparað honum ferð á heilsugæslustöð.“
Í nokkur ár vann Helga Sæunn hjá
Íslenskri erfðagreiningu við að rannsaka
langlífi á Íslandi. „Við fórum í heimsóknir
og hittum alla 90 ára og eldri, tvö syskini
þeirra og tvö börn, þannig að ég ferðaðist
út um allt land og hitti fólk. Ég kom á öll
hjúkrunarheimili á landinu og á mörg
heimili í sveitum. Ég held að ég hafi
örugglega heimsótt fimm hundruð manns
og tekið þúsund blóðprufur. Þetta er eitt
af mínum skemmtilegustu verkefnum þó
svo að mér finnist öll verkefni, sem ég hef
unnið, skemmtileg. Mér finnst svo gaman
að vera á faraldsfæti og hefði ekki viljað
missa af þessu. Það var einstök reynsla,
myndi ég segja, að hitta allt þetta gamla
fólk. Stundum, ef ég hafði tíma, staldraði
ég við bara til að spjalla. Það kom fyrir
að fólk treysti mér fyrir einhverju sem það
hafði aldrei sagt neinum frá. Ég spurði oft
í lokin: Hvað heldur þú að hafi gert það
að verkum að þú hefur lifað svona lengi?
Þá fékk ég athyglisverð svör og stundum
langar útskýringar. Sumir vildu meina að
það væri bara að vera alltaf jákvæður og
taka lífinu létt,“ segir hún.
Helga Sæunn fluttist 2008 frá Egilsstöðum
og tók þá við stöðu hjúkrunarstjóra
við heimaþjónustu Reykjavíkur. „Þetta
var þriggja ára tilraunaverkefni um að
samþætta heimahjúkrun og félags-
þjónustu. Svo hætti ég sem hjúkruna-
rstjóri því mig langaði frekar að vinna
við þróunarverkefni og var einnig í
heima vitjunum. Mér finnst mjög gaman
í heimahjúkrun og var þar alveg þangað
til núna í sumar.“ Síðastliðið haust fór
hún svo að vinna hjá Heilbrigðisstofnun
Suðurnesja í Keflavík. Þar vinnur
hún að ýmsum skipulagsverkefnum í
heimahjúkrun og hjúkrunarmóttöku.
„Mér bauðst starf hér og ég er alltaf
svolítið spennt fyrir landsbyggðinni. Mér
finnst einhvern veginn að hér geti maður
lent í fjölbreyttari verkefnum. Hér er
heilsugæsla, sjúkrahús, heimahjúkrun,
það er allt hér. Ég hef verið mest í
heilsugæslu og er sérfræðingur í
heilsugæslu og hér átti að fara að byggja
upp hjúkrun í heilsugæslu og ég var
beðin um að koma inn í það verkefni.
Svo hefur maður bara gott af því að
skipta og gera eitthvert annað. Mér finnst
svolítið gaman að vera á faraldsfæti, ég
er bara þannig,“ segir Helga Sæunn.
Það er verið að skipta Reykjanesbæ
upp í hverfi og einn hjúkrunarfræðingur
er ábyrgur fyrir hverju hverfi. Við höfum
líka tekið upp teymisbækur eins og eru
hjá heimaþjónustu Reykjavíkur en það er
skráningabók sem heldur utan um alla
skjólstæðingana. Svo hef ég verið að gera
staðlað skráningarkerfi í Sögukerfinu og
alls konar verklagsreglur um ferlið þegar
umsókn berst um hjálpartæki og fleira.“
Helga Sæunn vinnur einnig að því í
samstarfi við Landspítalann að geta sinnt
hjartabiluðum heima. Þessi þjónusta er
komin vel af stað hjá heimaþjónustu
Reykjavíkur og nú er röðin komin að
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Í bígerð
eru nokkur önnur verkefni sem fjalla um
að efla hjúkrunarfræðinga í móttöku.
Til Bandaríkjanna í nám
Hæfni Helgu Sæunnar til þess að sinna
starfinu í Keflavík byggist á reynslu
hennar og þekkingu sem hún aflaði
í meistarnámi sínu. Hún fór 1996 til
Norður-Karólínu til þess að læra það sem
á ensku heitir „nurse practitioner“. Ekki
hefur enn fundist íslenskt heiti yfir það
starfsheiti enda kannski ekki skrýtið því
hún er ein af fáum Íslendingum sem hefur
farið í slíkt nám. Forvitnilegt er að heyra
hvernig henni datt það í hug. „Þegar ég
útskrifaðist úr hjúkrun 1990 var ég strax
ákveðin í að fara í framhaldsnám og mig