Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Blaðsíða 41
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 89. árg. 2013 37
Samstöðufundur fyrir utan Eiríksstaði 18. september sl. þegar fulltrúar í samstarfsnefndinni mættu til
þess að ræða stofnanasamninginn.
Launamál eru ekki eina ástæðan fyrir
því að menn segja nú upp störfum.
Launakröfur eiga sér djúpar rætur og
eru birtingarmynd stærra vandamáls
sem snýst um starfsaðstæður. Stöðugt
færri hjúkrunarfræðingar eiga að sinna
stöðugt fleiri sjúklingum og gera það
með minni og ódýrari aðföngum, með
gömlum tækjum sem eru stöðugt að bila
og í húsnæði sem er að grotna niður.
Hjúkrunarfræðingar hafa einnig áhyggjur
af öryggi sjúklinga og sætta sig illa við
að þurfa að veita lakari þjónustu en
siðareglur stéttarinnar segja til um. Þó
að ríkisstjórnin segist hafa viljað hlífa
velferðarkerfinu eftir fjármálahrunið er
ljóst að niðurskurður síðustu ára hefur
veikt heilbrigðiskerfið um of.
Miðlægir samningar og
stofnanasamningar
Í júní 2011 undirritaði Félag íslenskra
hjúkrunar fræðinga miðlægan kjara-
samning við fjármálaráðherra. Sá
samningur gildir til 31. mars 2014. Þá var
samið um launa töflu, árlegar hækkanir á
henni, desember uppbót og þess háttar.
Tæp lega 2000 hjúkrunar fræðingar taka
laun samkvæmt samningnum. Síðan
1997 hefur hugsunin verið að einstök
atriði, hvað varðar laun starfsmannsins,
eigi að ákveða í samningi við hverja
heilbrigðisstofnun fyrir sig, hinum
margumtalaða stofnanasamningi. Þá
á að taka tillit til skipulags stofnunar,
menntunar, reynslu og ábyrgðar
starfsmannsins og margs fleira. Þetta
gekk nokkuð vel fyrstu árin en síðan
hefur viðkvæðið á heilbrigðisstofnunum
yfirleitt verið, þrátt fyrir yfirlýsingar
samninganefndar ríkisins, að ekkert
fé sé tiltækt til þess að lagfæra laun
starfsmanna. Stjórnendum er ætlað að
endurskoða stofnanasamninga innan
ramma fjárheimilda stofnunar.
Eftir miðlæga samninga 2011 hefur
Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga
gengið sérstaklega illa að fá Landspítala
til þess að semja um endurskoðun
stofnanasamnings. Beðið var um
endurskoðun í nóvember 2011. Sam-
starfs nefnd um endurskoðun á stofnana-
samningi kom saman 13 sinnum 2012
og hafði fundað 8 sinnum 2013 þegar
þetta tölublað fór í prentun. Þessi
miklu fundarhöld lýsa vel erfiðleikunum
við að ná samkomulagi. Í september
2012 gerðist svo atvik sem reyndist
hafa mikil áhrif á gang mála. Þá ákvað
velferðarráðherra að hækka mánaðarlaun
forstjóra Landspítalans um 450.000
krónur, eða meira en mánaðarlaun flestra
hjúkrunarfræðinga. Þessum forstjóra
hafði með miklu erfiði tekist að halda
Landspítala innan fjárveitinga og hann
hafði hvatt starfsmenn til að standa
saman um að draga saman í rekstri
spítalans. Við það höfðu heildarlaun
margra lækkað til muna þar sem ekki
voru lengur í boði aukavaktir eða
yfirvinna. Einnig höfðu legudeildir breyst
í dagdeildir og starfsfólk við það breyst
úr vaktavinnufólki í dagvinnufólk. Á
sama tíma hafði álag aukist til muna og
starfsfólki verið gert að hlaupa hraðar
fyrir lægri laun.
Þó að velferðarráðherra hafi um síðir
dregið launahækkunina til baka leiddi
þetta atvik til trúnaðarbrests milli
forstjóra og starfsfólks og þá sérstaklega
hjúkrunarfræðinga. Mörgum fannst eins
og að mælirinn væri nú fullur. Hópar af
hjúkrunarfræðingum komu saman til að
ræða hvað til bragðs skyldi taka. Um miðjan
september var óánægjan komin á það
stig að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
bauð hjúkrunarfræðingum á Landspítala
til fundar. Á fundinum kom fram óánægja
með laun og vinnuaðstæður og einnig
var mikið rætt um starfsþróunarkerfi
hjúkrunarfræðinga en það þótti úr sér
gengið af ýmsum ástæðum.
Á fundinum var einnig rætt um gang
mála í endurskoðun á stofnanasamningi.
Fram kom að til stóð að funda í
samstarfsnefndinni eftir nokkra daga
og ákvað þá hópur hjúkrunarfræðinga
að kalla til stuðningsfundar fyrir utan
aðalskrifstofu Landspítala á Eiríksgötu.
Slíkir samstöðufundir voru haldnir
nokkrum sinnum í sambandi við
fundarhöld í samstarfsnefndinni. Hópur
hjúkrunarfræðinga, sem nú var farinn að
kalla sig aðgerðahópinn, hélt áfram að
hittast og fljótlega kom upp hugmynd um
að hver og einn gæti sagt upp og þannig
knúið á um launabætur.
Fulltrúar Félags íslenskra hjúkrunar-
fræðinga voru nú komnir í erfiða stöðu. Þeir
vildu ná árangri í samningaviðræðunum
en gátu á sama tíma ekki þegið aðstoð
frá aðgerðahópnum þar sem uppsagnir,