Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Side 12

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Side 12
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 89. árg. 20138 við nemendur, svo sem trúnaðarskyldur við nemendur og forráðamenn þeirra. Þá er kveðið á um nauðsyn þess að kennarinn viðhaldi og auki faglega þekkingu sína og að lokum áréttuð nauðsyn þess að hann gæti heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar. Kennaranum ber að að sýna nemendum virðingu, áhuga og umhyggju og honum ber einnig að vinna gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur kunna að verða fyrir (Siðareglur KÍ, sjá heimasíðu félagsins). Siðareglur hjúkrunarfræðinga og kennara eru ólíkar að því leyti að samkvæmt orðanna hljóðan eru hjúkrunarfræðingar yfirlýstir málsvarar skjólstæðinga sinna en kennarar ekki. Skyldan til að vernda og virða nemendur er hins vegar kjarninn í siðareglum kennara. Í siðareglum kennara er kveðið skýrt að orði um að kennarar skuli gæta hagsmuna stéttarinnar. Sambærilegt orðalag er ekki að finna í siðareglum hjúkrunarfræðinga þótt ekki sé með nokkru móti hægt að draga þá ályktun að Félag íslenskra hjúkrunar fræðinga telji hagsmunagæslu fyrir hönd stéttarinnar litlu skipta. Hjúkrunarfræðingar og kennarar sinna þjónustu sem er mikilvæg og verðmæt fyrir samfélagið og óhætt að fullyrða að nútímasamfélag gæti ekki án hennar verið, að minnsta kosti ekki til langframa. En gæti samfélagið þolað tímabundna niðurfellingu þjónustunnar, til dæmis vegna verkfalls? Má fagstétt leggja niður störf? Saga verkfallsréttarins er nátengd sögu iðnvæðingar, tilurð verkamanna stéttar- innar og þróun borgaralegs samfélags á Vesturlöndum. Sú saga verður ekki rakin hér. Þótt ýmsar fagstéttir reki uppruna sinn til iðngilda miðalda eiga þær ekki síður rætur að rekja til sérfræðiþekkingarinnar sem skapast hefur í háskólasamfélaginu. Langt fram á 20. öld tilheyrði sú sérþekking nær einvörðungu litlum hópi karla í vestrænum samfélögum. Lítil en öflug yfirstétt karla gegndi embættisstörfum á borð við lögmennsku, prestskap og lækningar en þau eru gjarnan nefnd hina fyrstu eiginlegu fagstörf. Það kom hins vegar í hlut verkalýðsins að berjast fyrir verkfallsréttinum sem nú er hluti viðurkenndra borgaralegra mannréttinda um allan heim. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er kveðið á um rétt manna til þess að stofna félög í löglegum tilgangi, svonefnt félagafrelsi, og fólki tryggður rétturinn til að semja um starfskjör sín. Verkfallsrétturinn er ekki nefndur sérstaklega í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar en alþjóðasamningar, sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt, til dæmis mannréttindasáttmáli Evrópu, kveða skýrt á um rétt stéttarfélaga til þess að leggja niður störf. Í dómum Hæstaréttar hefur rétturinn enda verið varinn með tilvísun í alþjóðlega mannréttinda sáttmála sem Ísland á aðild að (Elín Blöndal, 2003). Krafan um hærra kaup, betri kjör og aðbúnað á vinnustað er oftast aðalástæða þess að launþegar sjá sig knúna til þess að fara í verkfall. Verkfallsrétturinn er neyðarréttur. Til hans er ekki gripið nema samningaleiðin sé fullreynd og hún hafi ekki skilað árangri. Einnig ber að hafa í huga að verkfall er hópaðgerð sem byggist á því að meirihluti félagsfólks í fagfélagi hafi ákveðið að leggja niður störf. Það krefst samstöðu og oft úthalds ef árangur á að nást. Þótt barátta fyrir bættum kjörum sé oftast í forgrunni verkfallsaðgerða má ekki líta fram hjá því að kjarabarátta fagfélags getur líka snúist um fagleg atriði, svo sem gæði þjónustunnar sem veitt er og hagsmuni þiggjenda hennar. Þá getur sjálfsmynd stéttar, til dæmis sú sjálfsagða krafa að kjör hennar séu í samræmi við kröfur um menntun, að mínu áliti vegið þungt þegar ákvörðun er tekin um að leggja niður störf (Muyskens, 1988). En hvað sem sjálfsmynd eða kjörum starfsstéttar líður þá myndast óneitan- lega togstreita á milli loforðsins, sem fagfólkið hefur gefið skjólstæðingum sínum og samfélaginu, og svo verkfalls- aðgerðarinnar þegar henni er beitt. Þá rísa álitamál sem vert er að huga nánar að. Óleysanleg þversögn? Eins og hér hefur verið rakið krefst fagmennska í starfi þess að fagmann- eskjan gefi loforð um að virða tiltekin gildi, hegða sér með ákveðnum hætti og veita þjónustu sem uppfyllir faglegar kröfur. Er þá nema von að einhver verði til þess að benda á hina augljósu þversögn sem felst í því að fagstétt leggi niður störf? Með öðrum orðum: Getur krafan um betri kjör verið í fullkomnu samræmi við faglega ábyrgð stéttarinnar eða felst í henni þversögn sem ekki verður leyst? Svo virðist sem ekki hafi verið mikið fjallað um verkföll og siðferðilegar skyldur fagstétta á vettvangi fagstéttanna sjálfra hér á landi (eða á opinberum vettvangi). Undantekning frá því eru skrif Þorbjarnar Broddasonar (1997) í Nýjum menntamálum í lok liðinnar aldar. Hann gerir nýafstaðið kennaraverkfall að umfjöllunarefni og segir grundvallarmun á „deilu við gæslumann þröngra hagsmuna og gæslumann almennra hagsmuna“ þegar verkfallsvopninu er beitt. Ríki og sveitarfélög eru gæslumenn almannahagsmuna en einkarekin fyrir- tæki ekki. Auk þess telur hann þátt siðrænnar sérfræði í fjölmörgum störfum á vegum hins opinbera vanmetinn. Hann segir það ekki samræmast fagmennsku að leggja niður störf. Kennarinn hafi æðri skyldur við skjólstæðinga en starfið sjálft. Þorbjörn telur að verkfallsrétturinn gangi gegn þeirri meginkröfu kennara að þeir séu sérfræðingar á sviði kennslu og því hljóti verkfallsvopnið að snúast í höndum þeirra (Þorbjörn Broddason, 1997). Þorbirni var svarað af Eiríki Brynjólfssyni kennara. Hann einblínir á kostnaðinn við það í krónum og aurum talið að fara í verkfall, fyrir ríkisvaldið annars vegar og kennarana hins vegar. Þá nefnir Eiríkur að það geti verið kostnaðarsamt pólitískt séð að vera menntamálráðherra í kennaraverkfalli. Að lokum telur Eiríkur samtök kennara ekki hafa beðið hnekki af verkfallsaðgerðum og vísar þar í stuðning almennings við aðgerðirnar, auk þess sem skoðanakannanir sýni að mikil virðing sé borin fyrir störfum kennara (Eiríkur Brynjólfsson, 1997). Það er athyglisvert í sjálfu sér að andsvar Eiríks við grein Þorbjarnar vísar ekki beinlínis til þess að kennarinn sem fagmaður hafi siðferðilegum skyldum að gegna við nemendur sína og þar með siðferðilegar skyldur til að bæta menntun barna. Hann nefnir óskerta

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.