Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2011, Page 15
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 87. árg. 2011 11
mörg ár sem almennur hjúkrunarfræðingur
að námi loknu. Hún var svo eitt ár í
Alhjúkrun þar til hún réð sig til Lyfju en
þar hefur hún starfað síðastliðin fjögur ár.
„Mig langaði til að prófa eitthvað nýtt,“
segir Sigrún þegar hún er spurð hvers
vegna hún hafi ráðið sig til starfa í
apóteki. „Svo er ég líka gift sjómanni sem
er margar vikur í senn á sjónum og á svo
á móti langt frí heima við. Það er erfiðara
að vera í vaktavinnu þegar maður er einn
með börnin, allt þetta skutl sem fylgir
þeim og aðstoð við heimanámið. Einnig
vildum við að einhver væri til staðar fyrir
þau svo Lyfja varð fyrir valinu og ég sé
ekki eftir því,“ segir hún full af áhuga og
fer beint í að tala um vinnuna.
„Það sem er skemmtilegt við starfið
eru samskiptin við fólkið sem til okkar
leitar. Það kemur alls konar fólk hingað
í margvíslegum erindagjörðum og margir
koma reglulega, til dæmis í mælingar.
Einstaklingar koma yfirleitt til okkar á
eigin forsendum – vilja láta fylgjast með
ástandi sínu, stundum vegna þess að þeir
eru að taka sér tak varðandi mataræði
eða til að forðast það að þurfa að taka
lyf. Það er alltaf aukning í mælingum eftir
jólin og á vorin en þá er fólk að fara í
átak og vill fá mælingar fyrir og eftir. Svo
eigum við okkar fastakúnna sem koma
aftur og aftur,“ segir hún.
„Svo er starfið mjög fjölbreytt, við erum
auðvitað með heilsufarsmælingar, mælum
blóðfitu, blóðrauða, blóðsykur en einnig
beinþéttni og svo tökum við öndunarpróf
þar sem við mælum útöndum. Svo
sprautum við líka, ef þess er óskað, alla
virka daga. Einnig sjáum við um að vera
reglulega með hjúkrunarnámskeið fyrir
starfsfólk Lyfju. Þar förum við yfir það
helsta sem viðkemur sárum, umbúðum
og hjúkrunarvörum yfirleitt, einnig er þar
farið í þessar tryggingatengdu vörur og
hvernig á að afgreiða þær. Er þetta gert
til að starfsfólkið sé betur í stakk búið að
aðstoða fólk þegar það kemur á þeim
tíma sem við erum ekki við.
Mér finnst reyndar sárameðferð
áhugaverðust svona faglega séð, en
við tökum líka sauma og skiptum um
umbúðir á sárum og annað tengt sárum,“
segir Sigrún.
Starfinu fylgir líka að hafa umsjón
með tryggingatengdum vörum og
hjúkrunarvörum, hafa yfirlit yfir stöðuna,
sjá um innkaup og kynna viðskiptavinum
vörurnar og möguleika þeirra. Með
tryggingatengdum vörum er átt við
stómavörur, eins og poka og plötur
eða búnað fyrir barkastóma ásamt
fylgihlutum, svo sem festingar, grisjur og
hreinsibúnað, þvagleggi, sjúkrasokka og
næringadrykki. „Einnig aðstoðum við fólk
með stóma ef upp koma vandamál, svo
sem vegna sára undir plötum. Ef ekkert
gengur þá vísum við á Oddfríði sem er
stómahjúkrunarfræðingur á Landspítala.
Það er líka mikilvægt að aðstoða fólk fyrir
og eftir aðgerðir með val á hentugum
umbúðum ásamt því að við ráðleggjum
fólki við val á þrýstisokkum. Þá mælum
við fyrir sjúkrasokkum eftir þörfum og
aðstoðum fólk við val á ýmiss konar
stoðvörum. Svo sjáum við um að útbúa
og senda reikninga ásamt fylgigögnum
beint til Tryggingastofnunar fyrir þá sem
nota þjónustu okkar og fylgjumst með að
skírteini séu í gildi,“ segir hún brosandi.
Þá eru ótaldar vörur fyrir sykursjúka
og aðstoð við blóðsykurmælingar.
Hjúkrunarfræðingur og sjúkraliðar Lyfju
kenna fólki á mælana ef þess er þörf
og veita ráðgjöf um ýmsar vörur sem að
þessu snúa.
„Ráðgjöf er reyndar stór hluti af starfinu,“
bætir Sigrún við, „en við eigum góða
samvinnu við heilsugæslustöðvarnar og
slysavarðstofuna og vísum fólki auðvitað
áfram til þeirra þegar við á. Fólk hringir
oft í okkur eða kemur með minni háttar
áhyggjur sem það vill ekki plaga lækna eða
hjúkrunarfólk á heilsugæslustöðvunum
með og við fáum alls konar fyrirspurnir
sem við gerum okkar besta að leysa úr.“
Það er líka hluti af starfinu að fylgjast með
næringarvörum og sjá til þess að það
sé til gott úrval af þeim. Þá er heilmikil
ráðgjöf við val á næringarvörum til
viðskiptavina almennt vegna vannæringar
eða sjúkdóma.
Að lokum er Sigrún spurð um framtíðina,
hvað hún hugsi sér að gera eða hvort hún
sé á leið í frekara nám. Síðustu árin hefur
hún bætt við sig óhefðbundnu námi og
lært höfuðbeina og spjaldhryggjarjöfnun
sem er eins konar djúpslökun sem hjálpar
fólki til að slaka verulega á. Það er gott
að hafa kynnt sér þetta og aldrei að vita
hvenær tækifæri til að notfæra sér þessa
þekkingu koma þó svo að hún nýti sér
þetta ekki beint í vinnu núna. En það
sem á hug hennar allan þessa dagana er
sárameðferð og nefnir hún meðal annars
SUMS (Samtök um sárameðferð) en hjá
þeim er hægt að fylgjast með því nýjasta
sem er í gangi í meðferð sára. Einnig
kynnist maður þar nýjum og vonandi betri
umbúðum. Hún er því dugleg að nýta sér
það sem samtökin hafa upp á að bjóða
og ætlar að fylgjast vel með þróuninni í
þessum málaflokki.
Á meðan á viðtalinu stóð mældi Sigrún
bæði blóðþrýsting, blóðfitu og blóðsykur
viðmælanda. Það var fagmannlega staðið
að mælingunum, ekkert fum eða fát, og
að viðtali loknu fór hún yfir niðurstöðurnar
á manna máli. Blóðþrýstingurinn var
nokkuð hár en aðrar mælingar í þokka
legu lagi. Það var því haldið út í daginn
með þau skilaboð Sigrúnar að huga
betur að matar æði og hreyfingu.