Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2011, Side 59
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 87. árg. 2011 55
Ritrýnd fræðigrein
RESEARCH PAPER
AÐFERÐ
Þar sem rannsóknin beindist að reynslu eldri borgara af því að búa
á heimilum sínum, þrátt fyrir hrakandi heilsufar og minnkandi færni,
varð túlkandi fyrirbærafræði (e. interpretative phenomenology)
valin sem rannsóknaraðferð. Þessi aðferð hefur verið útfærð með
ýmsum hætti en hér var aðallega stuðst við umfjöllun Patriciu
Benner og samstarfsmanna hennar (Benner, 1994), meðal
annars Margrétar Gústafsdóttur (2006). Við mótun aðferðarinnar
byggði Benner á hugmyndum þýska heimspekingsins Martins
Heideggers og bandaríska heimspekingsins Huberts Dreyfus
(Benner, 1994; Zahavi, 2008). Gengið er út frá því að sú merking,
sem þátttakendur leggja í aðstæður sínar, mótist af sameiginlegum
hefðum og gildum samfélagsins. Þessi sameiginlegi skilningur á
rætur í menningunni og breytist með sögulegri þróun. Markmið
rannsókna, sem unnar eru út frá þessu sjónarhorni, er að lýsa og
greina sameiginlegan skilning og athafnir hlutaðeigandi.
Benner lýsti eftirfarandi þáttum sem hafa áhrif á skynjun okkar
á lífinu og byggjast á sameiginlegri merkingu sem hefur mótast
í samfélögum okkar (Benner, 1994; Benner og Wrubel, 1989).
Líkamleiki (embodiment) vísar til þess að sjálfsveran og líkaminn
eru eitt, það er við erum líkamar og skynjum heiminn með
líkama okkar. Líkamleiki gerir okkur kleift að lifa daglegu lífi án
umhugsunar. Við getum hlaupið, hjólað og synt án þess að
hugsa meðvitað um hverja hreyfingu. Líkamleikinn mótast við
fjölbreytta lífsreynslu og auðveldar okkur að takast áreynslulaust
á við aðstæður og atburði í daglegu lífi. Tímanleiki (temporality)
vísar til þess hvernig skynjun á tíma breytist samfara breytingum
á líkamlegri færni. Við minnumst tímaskeiða þar sem hlutirnir
gerðust hratt, en í kjölfar veikinda blasir við okkur framtíð
þar sem sigrar og vellíðan grundvallast á nýjum forsendum.
Umhyggja (concerns) er sammannlegur eiginleiki sem einkennir
mannfólkið og vísar til gilda og merkingar og áhuga fyrir
aðstæðum annarra. Sameiginleg merking (common meaning)
vísar til þess að í hverju samfélagi er sameiginlegur skilningur á
því hvað skiptir máli og ber að virða og rækta. Þessi skilningur
gerir einstaklingnum auðveldara að takast á við daglegt líf því
hann veit að verulegu leyti hvers hann getur vænst og hvernig
viðbrögð samferðamanna verða. Loks talar Benner um áhrif
þess hvernig við skiljum aðstæður okkar (situation). Sá skilningur
mótast af sögu okkar og þeim væntingum sem við höfum til
lífsins (Benner, 1994; Benner og Wrubel, 1989).
Við greiningu gagna í þessu verkefni tókum við mið af ofangreindum
þáttum. Athygli okkar beindist meðal annars að aðstæðum á
heimilum, hvernig fólki líður heima og hvernig það tekst á við
daglegt líf. Áhrif breytinga á heilsufari og færni á getuna til að sjá
um sig og heimilið var skoðað. Leitast var við að lýsa því sem
skipti þátttakendur máli varðandi heimilið og þá aðstoð sem þeir
nutu. Í þessari rannsókn var litið svo á að þótt eldri borgarar séu
fjölbreyttur hópur með ólík sjónarmið og óskir megi engu að síður
benda á sameiginlegan skilning sem móti afstöðuna til búsetu og
þeirrar aðstoðar sem fjölskyldan og hið opinbera veitir.
Þátttakendur
Þessi rannsókn var unnin í samstarfi við Heilsugæslu
höfuðborgarsvæðisins sem aðstoðaði jafnframt við val á
þátttakendum. Úrtaksaðferðin, sem beitt er í fyrirbærafræði
legum rannsóknum, er að jafnaði tilgangsúrtak (Morse, 1997).
Tilgangsúrtak er notað til að velja þátttakendur út frá tilgangi
rannsóknarinnar (Sigríður Halldórsdóttir, 2003). Þessi rannsókn
beindist að eldri borgurum og því voru þátttakendur 67 ára eða
eldri. Jafnframt var leitast við að tryggja jafnvægi milli kynja.
Auk þess var tekin ákvörðun um að velja einstaklinga sem
þegar höfðu óskað eftir og fengið vistunarmat. Vistunarmat
aldraðra er lögformlegt fjórþátta matskerfi sem tekur til
félagslegra þátta, líkamlegs heilsufars, andlegrar líðanar og
færnisþátta (Ársæll Jónsson o.fl., 2006). Matið er staðlað og
allir þeir sem óska eftir varanlegri vistun á stofnun fyrir aldraða
á Íslandi þurfa að gangast undir það (Oddur Ingimarsson o.fl.,
2004). Rökin fyrir því að velja þátttakendur með þessum hætti
voru að þetta væru einstaklingar sem hefðu hug á að fara á
hjúkrunarheimili og þörfnuðust þess samkvæmt slíku mati. Því
væri mikilvægt að kanna hvort þeir teldu að frekari aðstoð myndi
hjálpa þeim til að búa áfram á heimilum sínum. Skilyrði fyrir
þátttöku, auk þess að hafa gengist undir vistunarmat, var að
viðkomandi einstaklingur væri vel áttaður. Hjúkrunarfræðingur
í heimahjúkrun valdi þátttakendur í samvinnu við rannsakanda
og fékk samþykki fyrir þátttöku þeirra í rannsókninni.
Þátttakendur voru átta eldri borgarar búsettir á höfuðborgar
svæðinu, fjórar konur og fjórir karlar. Þau voru öll á biðlista
eftir hjúkrunarrými og þörfnuðust aðstoðar vegna veikinda,
fötlunar eða aldurs. Flest þeirra notuðu annaðhvort göngugrind
eða hjólastól. Allir þátttakendur nutu aðstoðar við heimilishald
frá Heimaþjónustu Reykjavíkur og áttu heima í mismunandi
hverfum borgarinnar. Margir nutu jafnframt mikillar aðstoðar frá
fjölskyldum sínum. Þeir voru á aldrinum 7794 ára, meðalaldur
var 85,5 ár. Þrír karlanna bjuggu heima ásamt eiginkonum
sínum en einn þeirra bjó einn. Eiginkona hans dvaldi á
hjúkrunarheimili þar sem hún var með langt gengna heilabilun.
Ein kvennanna bjó með eiginmanni sínum en hinar þrjár bjuggu
einar. Tvær þeirra voru ekkjur og ein þeirra hafði aldrei gifst eða
verið í sambúð. Fimm þátttakendur af átta bjuggu í sérhæfðu
húsnæði, þjónustuíbúðum sem ætlaðar eru eldri borgurum. Til
viðbótar höfðu tveir þátttakenda flust í hentugra húsnæði eftir
að heilsu þeirra hrakaði. Einungis einn þátttakenda bjó á sínu
gamla heimili.
Tafla 1. Nöfn sem þátttakendum voru gefin, aldur, búseta og
hjúskaparstaða. Hlutfall karla og kvenna var jafnt, fjórar konur og fjórir karlar.
Aldur þátttakenda var frá 77 ára til 94 ára, meðalaldur var 85,5 ár.
Þátttakendur Aldur Búseta Hjúskaparstaða
Gunnar 85 ára Íbúð í blokk Bjó með eiginkonu
Jón 90 ára Þjónustuíbúð Bjó með eiginkonu
Viktor 77 ára Einbýli Bjó með eiginkonu
Högni 89 ára Þjónustuíbúð Bjó einn
Helga 85 ára Þjónustuíbúð Bjó með eiginmanni
Guðrún 87 ára Þjónustuíbúð Bjó ein/ekkja
Elín 77 ára Íbúð í blokk Bjó ein/ekkja
Jófríður 94 ára Þjónustuíbúð Bjó ein/ógift