Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2011, Qupperneq 61
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 87. árg. 2011 57
Ritrýnd fræðigrein
RESEARCH PAPER
sniðin að þörfum þeirra. Gott útsýni var úr flestum íbúðunum
og í nánasta umhverfi voru bekkir og gróður. Eins og fram
hefur komið höfðu fimm þátttakendanna flust í húsnæði sem
var sérstaklega hannað fyrir eldri borgara þegar þeir fundu að
heilsan var farin að gefa sig. Sú breyting virtist hafa verið til
góðs. Þátttakendur lýstu mikilvægi þess að eiga kost á slíku
búsetuformi og ánægju sinni með það, og lögðu áherslu á
öryggið sem fylgdi slíkri búsetu, bæði hvað varðar húsnæðið
sjálft og eins þann stuðning sem þar var veittur. Högni
sagði: „Hún er alveg sérstök hún ... [nefnir nafn starfsmanns
félagsþjónustu í húsinu] og hún hefur það fyrir svona hobbí að
fylgjast með okkur, ef við komum ekki í kaffi eða mat. Þá fer
hún strax í gang, hún fylgist með hvernig okkur líður og það
er líka mjög mikið atriði.“ Þeir þátttakendur, sem ekki bjuggu
í þjónustuíbúðunum, höfðu einnig lagað íbúðir og umhverfi að
þörfum sínum.
„Ég er umvafinn fólkinu mínu.“ Aðstoð frá
aðstandendum
Í þessari rannsókn, líkt og í öðrum hérlendum rannsóknum,
kom fram að aðstandendur veita eldri borgurum mikla aðstoð.
Þeir sáu um innkaup, matargerð, akstur og að fylgja maka eða
foreldrum til læknis. Þátttakendur gerðu ráð fyrir aðstoðinni
og gátu reitt sig á hana. Hér á landi virðist þessi aðstoð þó
vera nokkuð mismunandi eftir fjölskyldum. Tveir þátttakenda
bjuggu með eiginkonum sínum sem önnuðust um þá og í
mörgum tilvikum veittu börn fjölbreytta aðstoð við fjármál,
matreiðslu og aðföng. Þó kom einnig fyrir að lítinn stuðning
væri að fá frá börnum. Allir þátttakendurnir þurftu aðstoð við
að komast ferða sinna utan heimilis og sá fjölskyldan um það
í flestum tilfellum.
Margir þátttakendur töluðu um að heimili þeirra væri vettvangur
samskipta við fjölskyldu og vini. Börnin hittust í heimsóknum
hjá foreldrum sínum og oft er töluverður handagangur í
öskjunni, mikið spjallað og drukkið kaffi. Jón komst svo að
orði: „Ég er umvafinn fólkinu mínu … ég er svo ánægður með
allt í kringum mig, með konuna, börnin og vinina … Mér líkar
svo vel, það er sko þessi elskulega kona.“ Börnin hans komu
oft við og tóku þá gjarnan með mat og voru foreldrum sínum
innan handar með ýmis erindi og útréttingar. Einnig kom fyrir
að barnabörnin dveldust hjá ömmu eða afa. Dóttursonur
Elínar var til dæmis oft hjá henni og má segja að þau hafi
aðstoðað hvort annað. Margir viðmælenda óttuðust að ekki
myndi reynast mögulegt að skapa samskonar andrúmsloft á
stofnun. Annar þeirra tveggja þátttakenda, sem óskaði eftir að
flytjast á hjúkrunarheimili, saknaði eiginkonu sinnar sem fluttist
á hjúkrunarheimili vegna heilabilunar. Þráði hann að flytjast til
hennar til að geta verið meira samvistum við hana.
Opinber aðstoð sem þátttakendur njóta
Þátttakendur nutu talsverðrar aðstoðar frá hinu opinbera,
bæði félagsþjónustunni og Miðstöð heimahjúkrunar. Þeir höfðu
líkamlega getu til að sinna grunnathöfnum daglegs lífs nema
böðun. Þátttakendur þurftu aðstoð við að sinna almennum
athöfnum daglegs lífs, svo sem að sjá um þrif, heimilisstörf,
innkaup og skipulag máltíða.
Sumum þátttakendum fannst í upphafi erfitt að biðja um
aðstoð og að hleypa ókunnugu fólki inn á heimilið en vöndust
því og voru sáttir og ánægðir með þá þjónustu er viðtölin fóru
fram. Elín lýsti aðstoð heimahjúkrunar á eftirfarandi hátt:
Mér finnst þjónustan prýðileg sem ég hef. Birta
[hjúkrunarfræðingur] kemur til mín þegar að eitthvað er verra,
hún er alveg sérstök … Ég er alveg búin að sætta mig við að
þiggja þessa aðstoð. Mér fannst það svolítið óþægilegt fyrst,
þurfa að vera upp á aðra komin, en allt venst … En það var
óþægilegt að biðja um aðstoðina …
Í þessari rannsókn fólst aðstoð heimahjúkrunar oftast í því að
fylgjast með heilsufari þátttakenda og bregðast við ef á þurfti að
halda. Auk hefðbundinna viðfangsefna, eins og að fara yfir lyf
og sáraskiptingar, sá heimahjúkrun um að koma þátttakendum
að í dagþjálfun og fá hvíldarinnlagnir. En félagsþjónustan
var þátttakendum ekki síður mikilvæg og margir nefndu
sérstaklega aðstoð við að nærast, svo sem heimsendan mat
og mötuneyti í félagsmiðstöðvum. Sumir töldu það lykilatriði að
hafa aðgang að tilbúnum mat til að geta búið heima.
„Það fer bara eftir því hvernig ég hrörna.“ Óskir um
frekari aðstoð
Hnignandi líkamsfærni háði flestum þátttakenda. Um helmingur
þátttakenda sagðist oft hafa verki. Sumir viðmælendur töldu
sig orkumikla, aðrir sögðust orkulitlir. Helga lýsti til dæmis
heilsu sinni þannig: „Orkan er engin ... ég nota hjólastólinn
af því að ég er orðin svo slæm í fótunum, ég er með grindina
líka.“ Jófríður nefndi líka orkuleysið en hún hefur átt við andlega
vanheilsu að stríða um árabil. Hennar frásögn var svona:
Það er enginn kraftur né orka lengur, ég get ekki einu sinni
opnað brúsa. Ég þarf að fá hjálp við það … Ég sé svo illa, sé
ekki á peninga … Ég er komin með blindraþjónustubíl, sé varla
á sjónvarpið … Ég næ mér aldrei eftir byltuna … Ég er búin að
vera veik síðan … ég er bara að bíða eftir því að komast inn
… ég get engan veginn verið hér lengur …
Jófríður var eini viðmælandinn sem leið ekki vel á heimili sínu.
Hún var einmana enda var einkasonur hennar látinn, flestar
vinkonur annaðhvort látnar eða farnar að heilsu og frænka
hennar, sem var hennar eini aðstandandi, hafði veikst og gat
ekki lengur sinnt henni. Jófríður þráði að komast í öryggi á
hjúkrunarheimili. Raunar nefndu allir viðmælendur öryggið.
Þeir töldu að óöryggi væri helsta ógnin við það að búa á eigin
heimili. Hér virtist líka vera komin skýringin á því að óskað hafði
verið eftir vistunarmati þrátt fyrir að flestir þátttakenda teldu
ekki tímabært að flytjast á hjúkrunarheimili. Þeir töldu sig geta
gengið að plássi á hjúkrunarheimili vísu ef heilsufarið þróaðist
til verri vegar.
Flestir viðmælendur töldu sig nú þegar hafa þá aðstoð sem
þurfti og einnig töldu þeir sig geta áfram treyst á aðstoðina.
Elín sagði: „Mér finnst öll aðstoð, sem ég þarf á að halda í dag,
vera til staðar … svo fer bara eftir því hvernig ég hrörna … svo
spekúlerum við í því til samans hvað skal gera [þegar kemur