Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2014, Blaðsíða 41
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 3. tbl. 90. árg. 2014 37
Samráðsvettvangur norrænna hjúkrunarfræðinema (NSSK, Nordiske Sykepleie
studenters Kontaktforum) hefur verið starfræktur frá 1956 með stuðningi frá
SSN. Dagana 21. og 22. mars var Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gestgjafi
vorfundar NSSK og tók á móti fulltrúum hjúkrunarnema frá Danmörku, Svíþjóð,
Noregi og Finnlandi.
SAMRÁÐSFUNDUR NORRÆNNA
HJÚKRUNARFRÆÐINEMA
Félög hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum
hafa öll starfsmenn sem sinna samstarfi
og tengslum við nemafélög. Á hinum
Norðurlöndunum eru virk landsfélög
hjúkrunarfræðinema en slíkt félag hefur
ekki verið stofnað hér. Fulltrúi nema
og nýbrautskráðra á skrifstofu FÍH
skipulagði fundinn og tilnefndu stjórnir
nemafélagana við HA og HÍ fulltrúa á
fundinn fyrir hönd Íslands.
Aðalumræðuefni fundarins var laun og
starfsumhverfi nema en greinilegt er að
hjúkrunarnemar á Norðurlöndum eiga
margt sameiginlegt varðandi þessa þætti.
Þó fannst norrænum vinum okkar launakjör
hér í lakara lagi samanborið við það sem
gengur og gerist á þeirra heimaslóðum.
Misjafnt er hvar samningsumboð fyrir
hjúkrunarnema liggur en það er ekki alltaf hjá
kjarafélagi hvers hjúkrunarfélags. Norrænir
hjúkrunarnemar virðast alls staðar vinna
töluvert mikið með námi sínu. Námslán og
námsstyrkir gegna þó töluverðu hlutverki
því á flestum hinna Norðurlandanna virðist
sem nemar geti fengið ákveðna upphæð
sem námsstyrk og annað sem námslán.
Það sem nemarnir töldu að hefði mest
áhrif á þá í starfsumhverfinu voru þættir
sem snúa að siðfræðilegum málum og
ábyrgð. Einnig nefndu þeir að þegar nemar
koma í verknám á deildir eða til starfa
eftir nám skynjuðu þeir oft lítinn áhuga
á þeirri nýju þekkingu sem þeir kæmu
með inn á vinnustaðinn. Nemar heyra
oft sagt: „Já, en við erum vön að gera
þetta svona hérna.“ Þeir finna því fyrir
bili milli þeirra gagnreyndu aðferða sem
þeim eru kenndar í náminu og hvernig
Eva Hjörtína Ólafsdóttir, eva@hjukrun.is
hlutirnir eru í framkvæmd. Einnig voru
nemarnir sammála um að mismunandi
deildarbragur hafi áhrif. Fundarmenn voru
almennt sammála um að of snemma væri
sett of mikil ábyrgð á herðar nema sem
vinna með námi. Lausnin á þessu er að
forsvarsmenn félaga hjúkrunarfræðinema
og stéttarfélög hjúkrunarfræðinga vinni að
því sameiginlega að uppfræða nema um
réttindi, kjör, skyldur og ábyrgð. Kenna
þyrfti nemum að segja nei við því sem er
utan þeirra þekkingar og ábyrgðarsviðs.
Auka þarf samvinnu milli stofnana og
skólanna.
Næsti fundur NSSK verður í september
nk. í Kaupmannahöfn. Þar verður
aðalumræðuefnið hvernig körlum í
hjúkrunarnámi verður fjölgað og hvað
nemafélögin geta lagt á vogarskálarnar
varðandi það. Einnig verður rætt um
hvernig hægt er að styrkja og hvetja
hjúkrunarfræðinema í námi og starfi.
Eva Hjörtína Ólafsdóttir er kjararáðgjafi á skrif stofu
FÍH og einnig fulltrúi nema og nýbrautskráðra.