Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2014, Qupperneq 52

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2014, Qupperneq 52
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 3. tbl. 90. árg. 201448 o.fl., 2011; Dennis o.fl., 2009). O’Hare og Sherrer (2009) rannsökuðu áföll, áfallastreituröskun og áhættuhegðun hjá 276 einstaklingum með alvarlegan geðrænan vanda. Fjölmörg áföll hjá fólki með geðklofa og þrálátt þunglyndi áttu rætur að rekja til líkamslegs og kynferðislegs ofbeldis. Skaðleg áhrif, sem þessir einstaklingar höfðu orðið fyrir vegna áfallanna, voru meiri en meðal almennings, og áfallastreituröskun var fjórum til fimm sinnum algengari hjá fyrrnefndum hópi (33­43%) en hjá almenningi (8%). Á þessum grunni er vert að velta fyrir sér áhrifum áfalla vegna ofbeldis á heilsufar og líðan þessa hóps. Í niðurstöðum megindlegrar rannsóknar Calhoun o.fl. (2009) meðal 198 kvenna kom í ljós að konur með djúpt þunglyndi og áfallastreituröskun bjuggu við slakara líkamlegt heilsufar en konur sem með hvorugan sjúkdóminn höfðu greinst. Fyrir utan þunglyndi og kvíða þjást einstaklingar með áfallastreituröskun oft af vonleysi. Í megindlegri rannsókn Machado o.fl. (2011) var áfallastreituröskun, þunglyndi og vonleysi hjá 67 konum metin 1­6 mánuðum eftir að þær urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi. Eftir 6 mánuði reyndust 19,2% kvennanna með djúpt þunglyndi, 9,6% þeirra þjáðust af vonleysi og 43% mældust með alvarlega eða mjög alvarlega áfallastreituröskun. Meira leitað til heilbrigðiskerfisins og aukin tilhneiging til áhættuhegðunar Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar, sem þjást af langvinnri áfallastreituröskun og geðrænum vanda í kjölfar ofbeldis, leita líka oftar til heilbrigðiskerfisins. Í megindlegri rannsókn Clover o.fl. (2004) meðal 236 kvenna og 87 karla, sem höfðu reynt að fyrirfara sér reyndust þátttakendur við bágt heilsufar og þurftu mikið að leita til heilbrigðiskerfisins. Einnig kom fram að 82% þeirra sem reyndu sjálfsvíg höfðu orðið fyrir áföllum. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar, sem þjást af vanlíðan af völdum áfalla, hafa sumir hverjir tilhneigingu til áhættuhegðunar. Í megindlegri langtímarannsókn Reed o.fl. (2007) meðal 988 einstaklinga með áfallastreituröskun kemur fram aukin hætta á misnotkun fíkniefna en hún getur tengst tilhneigingu til að deyfa sig vegna sársaukafullra minninga af völdum áfalla. Því benda O’Hare og Sherrer (2009) á að einstaklingar með alvarleg geðræn vandamál eigi þess utan á hættu áframhaldandi misnotkun og illa meðferð. Það geti aftur leitt til fleiri alvarlegri geðrænna einkenna sem krefjast tíðra innlagna á sjúkrahús með auknum líkum á áfallastreituröskun og slökum árangri af meðferð. Rannsakendur fundu enga íslenska rannsókn um reynslu fólks af áhrifum endurtekins ofbeldis á líðan, líkamsheilsu og geðheilbrigði. Þar sem rannsóknir benda til að kynin bregðist ekki á sama hátt við ofbeldi (Sigurðardóttir o.fl., 2013) ákváðu höfundar að rannsaka reynslu kvenna. Tilgangur rannsóknarinnar var að auka þekkingu og dýpka skilning á áhrifum áfalla vegna ofbeldis á líðan, líkamsheilsu og geðheilsu kvenna. Höfundar ákváðu að rannsaka fyrirbærið frá sjónarhóli kvenna með geðröskun. Rannsóknarspurningin var: Hver er reynsla kvenna með geðröskun af áhrifum endurtekins ofbeldis á líðan, líkamsheilsu og geðheilbrigði í bernsku og á fullorðinsárum? AÐFERÐ Til að svara rannsóknarspurningunni var ákveðið að beita aðferðum fyrirbærafræðinnar sem er rannsóknaraðferð þar sem horft er til lýsingar þátttakenda á innri og ytri reynslu (Björn Þorsteinsson, 2009). Aðferðafræði fyrirbærafræðinnar byggist á þeim skilningi að hver og einn einstaklingur sjái heiminn með sínum augum og að sýn hans og túlkun mótist af fyrri reynslu. Leitast er við að skilja einstaklinginn í því samhengi sem hann er staddur í hverju sinni og er áhersla lögð á að rannsakandinn byggi upp heildarmynd af því sem á að rannsaka, í samvinnu við þátttakandann (Sigríður Halldórsdóttir, 2013). Innan fyrirbærafræði eru margir skólar en í þessari rannsókn varð Vancouver­skólinn fyrir valinu. Hugmyndafræðin, sem aðferðin byggist á, er fyrirbærafræði (Spiegelberg, 1984/1965), túlkunarfræði (Ricoeur, 1990) og hugsmíðahyggja (e. constructivism) (Schwandt, 1994). Aðferðinni er ætlað að auka skilning á mannlegum fyrirbærum í þeim tilgangi að bæta þjónustu við fólk, meðal annars heilbrigðisþjónustuna (Halldorsdottir, 2000; Sigríður Halldórsdóttir, 2003, 2013). Í aðferðinni er litið á þátttakendur sem meðrannsakendur. Rannsóknaraðferð Vancouver­skólans hefur reynst vel í rannsóknum á viðkvæmum hópum (sjá til dæmis Sigrún Sigurðardóttir og Sigríður Halldórsdóttir, 2009; 2011) þar sem lögð er áhersla á nærgætni og virðingu gagnvart þátttakendum í rannsóknarvinnunni. Þátttakendur Í rannsókninni var notað tilgangsúrtak. Með því eru valdir einstaklingar sem hafa reynslu af fyrirbærinu en úrtakið er valið með hliðsjón af tilgangi rannsóknarinnar (Katrín Blöndal og Sigríður Halldórsdóttir, 2013). Rannsakendur leituðu til fagaðila með reynslu í samfélagsgeðþjónustu og fengu þá til að skoða hvaða einstaklingar gætu tekið þátt í rannsókninni. Skilyrði fyrir þátttöku var að hafa orðið fyrir ofbeldi og vera með geðröskun. Valdar voru átta konur á aldrinum 35­55 ára sem voru tilbúnar til að deila reynslu sinni. Að minnsta kosti 5 ár voru liðin frá því ofbeldi sem þær höfðu lent í. Við völdum konur sem áttu það sameiginlegt að hafa allar verið greindar með geðröskun og hafa orðið fyrir endurteknum áföllum vegna endurtekins ofbeldis því við vildum leitast við að skilja þessi tengsl. Í töflu 2 er yfirlit yfir áhrifaþætti og áföll vegna endurtekins ofbeldis í bernsku og á fullorðinsaldri þátttakenda í rannsókninni. Gagnasöfnun og greining gagna Fyrsti höfundurinn tók öll viðtölin. Tekin voru samtals 15 viðtöl, tvö viðtöl við hverja konu, fyrir utan að aðeins eitt viðtal var tekið við eina þeirra þar sem hún lenti í nýju áfalli meðan á rannsókninni stóð. Lengd viðtalanna var ein til tvær klukkustundir. Seinna viðtalið var undantekningarlaust styttra. Stuðst var við viðtalsramma en samræðum að öðru leyti leyft að flæða. Seinna viðtalið var notað til að kafa dýpra (Helga Jónsdóttir, 2013). Við lögðum áherslu á endurtekin áföll vegna ofbeldis, meðal annars á það hvaða áhrif konurnar teldu að áföllin hefðu haft á þær, hvernig þeim hefði liðið síðan, hvort þær hefðu verið spurðar út í áföll vegna ofbeldis og hvernig andleg og líkamleg heilsa þeirra hefði verið eftir

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.