Skólavarðan - 01.11.2010, Blaðsíða 6

Skólavarðan - 01.11.2010, Blaðsíða 6
6 Skólavarðan 5. tbl. 2010sAgAn Jón Ingi Einarsson starfsmaður Skólastjórafélags Íslands (SÍ) hefur tekið saman í stuttu máli helstu staksteina í sögu félagsins. Hér er gripið niður í samantekt Jóns en hægt er að lesa hana í heild á vef SÍ si.ki.is Árið 1960 var Skólastjórafélag Íslands (hið fyrra) stofnað. Það var eingöngu fyrir skólastjóra barnaskóla sem voru félagar í SÍB og var fyrst og fremst fagfélag. Skólastjórar gagnfræðaskólanna voru þá með sérstakt félag og einnig yfirkennarar. Eftir setningu grunnskólalaga 1974 þar sem grunnskólinn varð eitt skólastig var farið að huga að stofnun nýs félags skólastjórnenda. Félag skólastjóra og yfirkennara (FSY) var síðan stofnað árið 1977. Árið 1991 þegar starfsheiti yfir- kennara hafði verið breytt í aðstoðarskólastjóra var nafni félagsins aftur breytt í Skólastjórafélag Íslands. Félagið hafði fyrst og fremst verið fagfélag en eftir þessa breytingu fór sú krafa að verða háværari að félagið færi með samningsrétt fyrir félagsmenn. Sú umræða kom einnig alltaf upp af og til að félagið yrði sjálfstætt stéttarfélag og segði sig jafnvel úr sambandi við Kennara- sambandið. Rétt er að hafa í huga að Kennarasambandið var allt öðru vísi uppbyggt á þessum árum en það er nú. Félagsmenn þess voru grunnskólakennarar, tónlistarskólakennarar, framhaldsskólakennarar og skólastjórnendur í grunnskólum sem voru í KÍ. Félagarnir gátu valið hvort þeir voru í KÍ eða HÍK sem var innan raða BHM. Algengast var að þeir sem störfuðu við grunnskóla væru í KÍ en þeir sem störfuðu við framhaldsskóla í HÍK en talsverðar undantekningar voru þó frá þessu. Um 90% félagsmanna SÍ voru í KÍ en um 10% í HÍK. Þetta flækti málið við að sækja á heildarsamtökin um aukinn rétt fyrir SÍ innan þeirra. Árið 1991 var gerður fyrsti samstarfssamningur á milli KÍ og FSY sem fól í sér að skrifstofa KÍ veitti félaginu vissa þjónustu og greiddi kostnað af ákveðnum fjölda stjórnarfunda. Árið 1995 var gerður nýr samstarfssamningur þar sem KÍ tók enn frekari þátt í kostnaði við rekstur SÍ með greiðslu fundakostnaðar og einnig bættist við að KÍ tók þátt í að greiða laun starfsmanns SÍ sem var í hlutastarfi. Breytingar Á þingi KÍ 1997 var samþykkt breyting á lögum KÍ sem gerði ráð fyrir að sambandinu yrði skipt í deildir. Hver deild hafði talsvert sjálf- stæði og formenn deildanna settust í stjórn KÍ. Fram að þessu hafði félagið verið rekið fyrir félagsgjöld sem félagsmenn greiddu sjálfir auk félagsgjalda til KÍ, félagsaðild var þá algerlega frjáls þar sem um fagfélag var að ræða. Eins og áður segir þá var samkomulag um rekstrarstyrki frá KÍ. Nú varð sú breyting á að félagið fór að fá allar sínar tekjur í gegnum félagsgjöld til KÍ og hætti því að innheimta sér félagsgjöld. Nýtt Kennarasamband Íslands tók til starfa 1. janúar árið 2000. Félagsmenn þess voru nú á grunn- og framhaldsskólastigi svo og við tónlistarskóla, bæði kennarar og stjórnendur að skólameisturum framhaldsskólanna undanskildum. Leikskólakennarar og stjórnendur í leikskólum gengu síðan í KÍ árið 2001. KÍ varð deildaskipt með sjö deildum og fer hver deild með samningsmál sinna félaga. Ein deild hefur bæst við síðan, þ.e. FSL – Félag stjórnenda leikskóla. Starf SÍ hefur því breyst frá því að vera fagfélag, fjármagnað með beinum framlögum félagsmanna í það að verða stéttarfélag skólastjórnenda innan raða KÍ sem gætir hagsmuna þeirra og fær allt sitt fjármagn í gegnum félagsgjöld KÍ. Félagið nú Skólastjórafélag Íslands er nú eitt af átta aðildarfélögum Kennara- sambands Íslands. Aðild félagsmanna KÍ að aðildarfélögum ræðst meðal annars af því eftir hvaða kjarasamningi þeir taka laun sín. SÍ er deildaskipt (átta deildir) og er formaður hverrar deildar trún- aðarmaður félagsins á sínu svæði, auk þess er hópur starfsmanna á skólaskrifstofum í félaginu. Félagsmenn eru nú 552 talsins og skiptast á milli deildanna eins og sést á myndinni að framan. Þeim hefur fækkað um u.þ.b. þrjátíu á síðustu tveimur árum sem má rekja til niðurskurðar í stjórnun vegna kreppunnar. Félagsmenn SÍ eru, samkvæmt lögum félagsins, skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar á grunnskólastigi. Auk þess geta þeir starfsmenn á skólaskrifstofum sem voru í SÍ við lagabreytinguna á aðalfundi 2004 og óska eftir að vera áfram í félaginu verið það á meðan þeir gegna sama starfi. Skólastjórafélag Íslands er eitt af aðildarfélögum Kennarasambandsins. Þau eru sjö talsins auk Félags kennara á eftirlaunum sem kennarar úr öllum hinum félögunum geta sótt um aðild að þegar þeir hætta störfum. Oddur S. Jakobsson tók nýverið saman hvernig félagar í KÍ skiptast á milli aðildarfélaganna. Nokkur brot úr sögu Skólastjórafélags Íslands 1960-2010 Texti: Jón Ingi Einarsson Mynd: js

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.