Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Blaðsíða 83
83
Framtíðarhópur kirkjuþings
Skýrsla til kirkjuþings
Kirkja til framtíðar – skýrsla framtíðarhóps kirkjuþings
Kirkjuþing 2010 samþykkti þingsályktun um skipun þriggja manna starfshóps „er
meti nýlega þróun samfylgdar og tengsla ríkis og kirkju. Starfshópurinn skoði aukna
fjölbreytni í menningar- og trúarlífi Íslendinga og hvernig þjóðkirkjan taki með
skapandi hætti þátt í samfélagsþróuninni.“
Kirkjuþing kaus til starfa í starfshópnum: Birnu G. Konráðsdóttur, Hjalta Hugason og
Sigurð Árna Þórðarson, sem var formaður hópsins. Varamenn, sem kosnir voru:
Katrín Ásgrímsdóttir, Magnús E. Kristjánsson og Solveig Lára Guðmundsdóttir. Fyrir
hönd Biskupsstofu lagði Árni Svanur Daníelsson hópnum lið. Starfshópurinn var
jafnan kallaður framtíðarhópur kirkjuþings og verður það notað í þessari skýrslu.
Framtíðarhópur hélt 14 fundi á starfsárinu.
Verkþættir og umfang
Í greinargerð með tillögu um framtíðarhóp þjóðkirkjunnar (24. mál) eru greindir
verkhlutar í vinnu hópsins: Framtíðarsamskipti ríkis og kirkju; skilgreining á þjónustu
kirkjunnar; endurskoðun á þjónustu kirkjunnar og þá einnig þjónusta djákna, biskupa
og presta; endurskoðun á stjórnsýslu kirkjunnar; menntun kirkjustarfsfólks og
stefnumið kirkjunnar verði skilgreind. Í greinargerð tillögunnar blasti við sóknarvilji á
tíma þegar sótt var að kirkjunni. Sá andi er í fullu gildi.
Kirkjuþing ákvað ekki fjárveitingu til starfs hópsins heldur kirkjuráð, sem veitti til
starfsins tvö hundruð þúsund krónum. Þar með var ljóst að kirkjuráð veitti fé til að
hefja mætti starf hópsins, en fresta yrði öllum þáttum starfsins þar til síðar. Hópurinn
sendi kirkjuráði ábendingu um að þessi rammi myndi hamla starfi hans. Hópurinn
ákvað að reyna að gera sem „mest“ en með sem „minnstum“ tilkostnaði, að fundir
yrðu aðallega auglýstir á netinu og fundum utan höfuðborgarsvæðisins yrði frestað til
síðara árs. Þá var ákveðið að nýta ódýrustu leiðirnar til umræðu: málþing, skrif og
miðlun á vef. Hópurinn beitti sér fyrir umræðum, miðlun og opnum þingum og
skipaði því miklu efni sem mun nýtast með beinu og óbeinu móti í stefnumörkun
þjóðkirkjunnar á næstunni. Málþing og fundir voru í húsakynnum Neskirkju án þess
að leigugjald væri innheimt, sem er hér er þakkað.
Kostnaður vegna starfs nefndarinnar skiptist svo (í þús. kr.):
Ferðakostnaður 130
RÚV-auglýsingar 23
Veitingar á fundum og málþingum 44.
Ekki hefur verið til fé á fjárveitingu til hópsins til greiðslu launa vegna fjórtán funda
framtíðarhóps, vinnu nefndarmanna milli funda, vinnu framsögumanna á þingum
framtíðarhópsins eða vegna miðlunar efnis á vefnum eða greinaskrifa.