Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Blaðsíða 108
108
Um erindisbréf presta
4. gr.
Biskup gefur út erindisbréf fyrir hvern prest þjóðkirkjunnar, er lýsir almennum og
sérstökum starfsskyldum prestsins. Erindisbréf skal vera í fullu samræmi við
vígslubréf prests, ráðningarsamning og starfslýsingu, ef því er að skipta.
Biskup getur skilgreint að tilteknu prestsembætti fylgi sérstakar viðbótarskyldur.
5. gr.
Erindisbréf prests taki til eftirfarandi atriða:
a) skyldu prests til viðveru og bakvakta
b) fastra viðtalstíma prests að lágmarki
c) messuskyldu í sóknarkirkjum og kapellum í prestakalli
d) skyldu til að færa lögboðnar embættisbækur, skrár og til að sinna lögboðinni
skjalagerð vegna embættisins
e) skyldu til aukaþjónustu og afleysingaþjónustu
f) skyldu til að sinna aukaverkum og undirbúningi þeirra
g) ákvæði um helgistundir og vitjanir á sjúkrastofnanir og sambýli á vegum
heilbrigðisþjónustunnar
h) ákvæði um önnur verk ótalin sem nauðsynlegt eða eðlilegt þykir að sinna.
6. gr.
Rísi ágreiningur um túlkun á erindisbréfi, geti prestur ekki sætt sig við erindisbréf eða
sé ekki fallist á beiðni um breytingar á erindisbréfi má vísa málinu til úrskurðar
biskups.
7. gr.
Breyta má erindisbréfi prests ef nauðsynlegt þykir og nýjar forsendur koma til, nýjar
aðstæður skapast eða sérstök tilvik ber að höndum.
Um sóknarpresta og presta í prestaköllum
8. gr.
Starfsvettvangur sóknarprests er sókn eða sóknir prestakallsins. Í hverju prestakalli
skal vera sóknarprestur. Heimilt er biskupi að skipa prest til starfa í fjölmennum
prestaköllum eða þar sem aðstæður gefa tilefni til.
Sóknarprestur er hirðir og leiðtogi safnaðarins og starfar við hlið sóknarnefndar.
Sóknarprestur og prestur eru samstarfsmenn í sóknum prestakallsins og ber að haga
þjónustu sinni og samstarfi í samræmi við það. Báðir lúta þeir tilsjón prófasts og
biskups.
9. gr.
Sóknarprestur er í fyrirsvari um kirkjulegt starf í sóknum prestakallsins og hefur
forystu um mótun þess og skipulag. Í fyrirsvari og forystu sóknarprests felst ekki
stjórnunarvald eða boðvald yfir presti.
Sóknarprestur ber ábyrgð á færslu embættisbóka prestakallsins og skil á skýrslum um
embættisverk til Biskupsstofu og Þjóðskrár.
Sóknarprestur skal taka þátt í gerð starfs-, rekstrar- og fjárhagsætlana sóknar
samkvæmt starfsreglum þar um.
Sóknarprestur skal í samráði við sóknarnefnd taka ákvörðun um hvernig afnotum af
kirkju er háttað, sbr. starfsreglur um kirkjur og safnaðarheimili og Samþykktir um
innri mál kirkjunnar, enda ber hann ábyrgð á því sem þar fer fram.