Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Blaðsíða 30
30
vettvangi fyrr og síðar, svo sem í starfi nefndar um nýtt þjóðkirkjulagafrumvarp og
þarfnast nánari skoðunar og víðtækrar samstöðu. Það er kirkjuþings að ákvarða um
það hvernig málum verði fyrirkomið, kirkjuþings og svo auðvitað alþingis. Augljós-
lega bíður mikið verk til að ná samstöðu um grundvallaratriði í þessum efnum.
Einnig var gerð umfangsmikil endurskoðun á rekstri Skálholts. Því miður reyndist
nauðsynlegt að endurmeta frá grunni allar fjárhagsforsendur, starfsemi og rekstur. Nýr
vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson, mun ásamt biskupsritara, Þorvaldi Karli
Helgasyni, leiða enduruppbyggingu starfseminnar.
Rekstur og starfsemi Tónskóla þjóðkirkjunnar er líka til gagngerrar endurskoðunar.
Unnið er að því að finna leiðir til að auka samstarf allra þeirra aðila sem koma að
kirkjusöng- og tónlistarmálum með það í huga að nýta fjármuni sem best jafnframt
því sem við gætum þess mikilvæga þáttar í starfi safnaðanna um land allt sem tónlistin
er og sú mikla menningargróska sem grær í skjóli hennar.
Fjölskylduþjónusta kirkjunnar, sem verður tuttugu ára í janúar n.k., hefur einnig verið
endurskipulögð miðað við gjörbreyttar forsendur og hefur nú fengið aðstöðu hér í
húsnæði Grensáskirkju. Verður hún þar í nábýli við Hjálparstarfið og stefnt er að því
að efla enn hið góða samstarf sem þar hefur verið í þróun. Við höfum þurft að skerða
þjónustu Fjölskylduþjónustunnar, samt hefur mikilvægi hennar aldrei verið meir en
einmitt nú, þegar fjölskyldur landsins eiga svo margar í vök að verjast og þessi
grunneining samfélagsins er að takast á við áföll og erfiðleika. Svo má ekki gleyma
mikilvægi Fjölskylduþjónustunnar fyrir handleiðslu presta og djákna sem ég legg
mikla áherslu á að sé ætíð í boði og stór hluti vígðra þjóna nýtir sér.
Því miður höfum við einnig þurft að leggja niður prestsembætti og draga saman
starfsemi. Því miður hafa sóknir þurft að segja upp starfsfólki, djáknum, æskulýðsfull-
trúum og organistum. Þetta er sársaukafullt, því fylgir sorg og missir. Við verðum öll
að takast með ábyrgð á við gjörbreyttar forsendur. Og leita sóknarfæra til að geta sótt
fram með auknum styrk og þrótti. Við ætlum að vera enn sem fyrr biðjandi, boðandi
og þjónandi þjóðkirkja á Íslandi sem eys af lindum hins dýrmæta arfs trúar og
menningar sem okkur hefur verið falinn. Við treystum á stjórnvöld og almenning að
styðja þjóðkirkjuna í því!
Þegar Kirkjuþing leggur á ráðin um það hvernig takmörkuðum fjármunum okkar
verði best varið, þá verðum við að horfast í augu við hvernig við auðsýnum trúfesti í
þessu þjóðfélagi sem við erum send til að þjóna, hvernig við erum trú í þeim
iðuköstum umbreytinganna sem yfir ganga, trú í því smáa, trú yfir því litla. Það er
ekki auðvelt. Því það að halda trú er ekki hið sama og að breytast ekki. Að vera
staðfastur er ekki það sama og vera staðnaður. Lífið er breytingum undirorpið, allt er
að breytast, nema Guð og miskunn hans sem er ný á hverjum morgni.
Fyrir nær 39 árum vígðist ég til prestsþjónustu og játaðist ævitryggðum kirkju Krists
og erindi hennar fyrir altari Dómkirkjunnar. Nú er þjónustutími minn senn á enda, en
skipunartími minn í embætti biskups Íslands rennur út í lok næsta árs, eftir 15 ára
þjónustu. Tel ég rétt að nýr biskup taki við næsta sumar. Því er þetta síðasta kirkju-
þing sem ég mun sitja.
Ég mun kveðja embætti mitt með þakklæti í huga fyrir það góða fólk sem með mér
hefur fetað veginn og á vegi mínum hefur orðið á vettvangi kirkju og samfélags. Ég
hef notið mikillar gæfu í starfi og þjónustu á samleið með slíku fólki. Ég bið því öllu