Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Blaðsíða 8
8
héraðsnefnda verði kjörnir úr hópi leikmanna eins og raunin er nú með forseta
kirkjuþings. Í öðru lagi verður lagt til að kirkjuþing fái fjárstjórnarvald í kirkjunni og
axli raunverulega ábyrgð á þeim vandasömu verkefnum sem slíku valdi fylgja. Í
þriðja lagi verður lagt til að kjörtími biskupa verði takmarkaður við tvö sex ára
tímabil, tólf ár að hámarki. Í fjórða lagi verður lagt til að staða vígslubiskupa verði
styrkt til muna, að þeir fái almennt tilsjónarhlutverk með kirkjulegu starfi í
umdæmum sínum og gegni þannig sjálfstæðu hlutverki í hinu óskipta biskupsdæmi á
Íslandi sem nokkurs konar stiftsprófastar en verði ekki einungis aðstoðarmenn biskups
Íslands. Tilsjónarhlutverkinu verði um leið létt af próföstum og þeir hætti að vera
sérstakir trúnaðarmenn biskups. Þess í stað verði prófastar kjörnir til forystuhlutverks
í kirkjulegu starfi í prófastsdæmunum og leiði þannig meðal annars uppbyggingar- og
þróunarstarf. Í fimmta og síðasta lagi verður lagt til að horfið verði frá þeirri forneskju
að biskupar og prestar þjóðkirkjunnar verði skilgreindir í lögum sem embættismenn
ríkisins. Þjóðkirkjan er ekki ríkiskirkja eins og við höfum svo margoft haldið fram
heldur sjálfstæður réttaraðili í lögbundnum og menningarlegum tengslum við
ríkisvaldið. Það samræmist ekki ótvíræðu sjálfstæði kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu
og er í raun og veru ósættanleg þversögn að helstu starfsmenn hennar skuli taldir til
embættismanna ríkisins í lögum. Það er löngu tímabært að gera hér á nauðsynlega
breytingu svo að þjóðkirkjuna dagi ekki uppi sem nátttröll í nýrri samfélagsskipan.
Við göngum nú til brýnna verka á aukakirkjuþingi í dag. Að þremur dögum liðnum
verður þess minnst á þjóðhátíðardegi að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns
Sigurðssonar sem með hógværð sinni, festu og framsýni skilaði happadrjúgu dags-
verki og hefur orðið ótvírætt sameiningartákn þjóðarinnar. En það var ekki alltaf
friður um Jón Sigurðsson og sporgöngumenn hans. Á 100 ára afmæli Jóns, 17. júní
1911, orti Hannes Hafstein um hann minningarljóð sem hefst á hinu snarpa ákalli:
Þagnið, dægurþras og rígur! Síðar í ljóðinu segir:
Allt hið stærsta, allt hið smæsta,
allt hið fjærsta og hendi næsta,
allt var honum eins: hið kærsta,
ef hann fann þar lands síns gagn.
Við skulum láta þessi orð og fordæmi Jóns Sigurðssonar verða okkur hvatningu þess
að vinna nú þjóðkirkjunni allt það gagn er við megum í samhug og kærleika.