Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.11.2016, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.11.2016, Blaðsíða 15
viðtalinu að Björg hafi í nógu að snúast á hún enn eftir að segja frá mörgum nýjum verk- efnum. Eitt af þeim er vínframleiðsla. „Þegar ég kom til baka til Noregs fannst mér svo lélegt freyðivín sem vinkonurnar voru að bjóða mér að ég byrjaði að búa til freyðivín og er núna að framleiða freyðivín sem heitir Lykke Bobler. Og það er þriðja mest selda freyðivínið í Noregi. Bara núna síðustu þrjá mánuði seldum við 120 þúsund flöskur. Og svo byrjaði ég að búa til rauðvín líka sem heitir Skravlevin,“ segir Björg og útskýrir að það þýðir eiginlega „kjaftavín“. Það selst líka mjög vel.“ Björg segist hafa notað sambönd sín sem hún hafði við Norður-Spán til að hefja vín- framleiðsluna og komið sér í sambönd við þar- lenda framleiðendur. „Þau höfðu sko enga trú á mér. Ég fékk að þróa það og þau sögðu að ég þyrfti alla vega að panta tvö þúsund flöskur. Og ég hugsaði með mér, já, já, vinkonur mínar geta alveg drukkið það,“ segir hún og skelli- hlær. „Þar sem ég hef ferðast um Noreg í tíu ár og verið með sýningar og fyrirlestra úti um allt skrifaði ég á Facebook að von væri á þess- um tvö þúsund flöskum. Og áður en þær komu til landsins voru þær seldar. Svo það þurfti að senda mér fjögur þúsund flöskur í viðbót. Þær seldust líka. Fólk varð alveg vitlaust af því að það var ekki hægt að ná í þetta,“ segir hún og heldur ótrauð áfram. Næst á dagskrá hjá Björgu er hvítvínsframleiðsla. Björg og Dóra systir hennar eru að fara saman í norska sjónvarpið, en þær hafa verið ráðnar til að koma fram og stýra þætti til að hjálpa fólki. „Fyrst ég er að hjálpa svo mörg- um með myndunum mínum og Dóra er þerap- isti og uppistandari ætlum við að vera með svona „extreme makeover“ en ekki að utan, heldur að innan. Við finnum fólk sem elskar ekki sjálft sig, sem hugsar ekki vel um sig og hefur það ekki gott og hjálpum því í gegnum þerapíu og í gegnum myndirnar mínar og hjálpum því að elska sjálft sig. Og þá sér fólk hvernig allt breytist, þá vill fólk gera svo margt rétt,“ útskýrir Björg, en þær munu fylgja fólki eftir í heilt ár. Hjálpar konum víða um heim Björg vinnur ötullega við að hjálpa konum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. „Ég vinn mikla sjálfboðavinnu af því að ég er svo heppin að það gengur svo vel með listina, vínið, bollana, stellið, skartgripina og allt annað sem ég geri,“ segir Björg og blaðamaður áttar sig á því að það eru fleiri klukkutímar í sólar- hringnum hjá viðmælanda en okkur hinum. „Ég fer um allan Noreg og í „krisecentra“ og tala við konur. Svo skreyti ég veggina með myndum eftir mig. Þú myndir ekki halda að það hefði mikið að segja en það gerir það. Á einum stað er ég búin að mála konu sem teygir sig eftir stjörnu. Og ég skrifaði við hana, draumarnir geta verið þínir ef þú vilt. Og ég er búin að fá svo mörg bréf frá konum sem hafa verið þarna inni og hafa verið að gefast upp á lífinu, sem segja mér að þær horfi á þessa mynd og hugsi, já, ég ætla að láta draumana rætast,“ segir hún. Björgu nægir ekki að hjálpa norskum kon- um. Hún stýrir verkefni í Mexíkó sem lýtur að því að selja framleiðslu fátækra kvenna sem sjá sér farborða með vefnaði. Björg hefur dreift vörum þeirra í 120 verslanir í Noregi og sendir ágóðann til kvennanna. Hún flettir í gegnum símann sinn til að sýna mér myndir. Við blasir mynd af henni á brim- bretti. „Sjáðu, ég bjó á Hawaii síðasta vetur, ég flutti þangað í sex mánuði með Tolla, Dóru og krökkunum,“ segir Björg eins og ekkert sé sjálfsagðara. Hvað varstu að gera þar? „Ég skrifaði þrjár bækur og málaði myndir. Það var alveg æðislegt. Ég lærði reyndar á brimbretti á Balí, en ég bjó þar líka í hálft ár fyrir nokkrum árum,“ segir hún. Þú ert með svo mörg verkefni í gangi! „Já, ég veit það, ég er ekki búin að segja frá helmingnum,“ segir hún. „Nú er ég að hefja verkefni í Úganda og ætla að hjálpa svona sjö, átta þúsund konum og börnum þeirra. En þegar ég hjálpa einni konu hjálpar maður alltaf tuttugu,“ segir hún og hyggst hún hjálpa þessum konum á sama hátt og hún hjálpar konunum í Mexíkó. „Þá geta þær menntað börnin sín. Ég ætla að hjálpa konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi og dottið út úr samfélaginu og fá ekki hjálp. Og líka konum sem hafa orðið óléttar eftir nauðg- un,“ segir hún. Má ekki þegja yfir kynferðisofbeldi Björg á erfiða reynslu að baki. „Mér var nauðgað þegar ég var lítil og ég veit hvað það eyðileggur mikið. Ég hef ekkert farið djúpt í það sem gerðist en er opin með það af því að ég vil að allar aðrar konur sem hafa upplifað slíkt þori að segja frá. Annars eyðileggur það svo mikið af lífinu. Maður þarf að fá hjálp. Í síðustu viku hringdi í mig kona sem er 55 ára. Hún hafði heyrt mig tala og hafði aldrei sagt neinum frá. Hún grét og grét og þetta hafði eyðilagt svo mikið af lífinu hennar, henni var nauðgað þegar hún var 12 til 14 ára. Og hugs- aðu þér, í fjörutíu ár hafði þetta eyðilagt lífið hennar. Og svo þorði hún að segja mér frá þessu. En ég var svo heppin að ég fékk góða hjálp en ég var átta ára þegar það gerðist í fyrsta skiptið. Það var í Noregi. Svo kom það fyrir síðar tvisvar í Mexíkó. En vegna þess að þetta kom fyrir mig hef ég getað hjálpað fleiri þúsund konum í Noregi,“ segir Björg, sem fer um allan Noreg og heldur fyrirlestra fyrir konur sem hafa orðið fyrir kynferðis- ofbeldi en einnig fyrir aðstandendur alkóhól- ista. „Ég get hjálpað fólki af því að ég hef upplifað það. Ég hef unnið mig í gegnum þetta. En það er ekki hægt að ganga um með þetta einn, það er svo vont. Maður þarf að fá hjálp.“ Hægt að gera heiminn aðeins betri Björg ætlar að vera einn mánuð í Úganda og tekur soninn með. „Tolli kemur með, ég tek hann alltaf með. Mér finnst það mjög gott því ég hugsa að það mikilvægasta sem ég geti kennt honum sé að ef maður er ósáttur við eitt- hvað í heiminum er hægt að gera eitthvað til að hjálpa í staðinn fyrir að kvarta eða væla. Og þó að ekki sé hægt að hjálpa öllum eða breyta öllu er hægt að breyta hlutunum, og þá er bara að gera það. Það er ekki svo erfitt. Það þarf bara að finna annað fólk sem hugsar eins og maður sjálfur. Það er hægt að gera heiminn aðeins betri. Af því að ég er hvít kona, og hepp- in og á pening, get ég hjálpað, og það getur það hver manneskja í okkar landi. Það er ótrúlegt að manns eigið líf geti gert önnur líf betri. Og ef allir gera aðeins verður það betra. Við þurf- um í það minnsta að gera það núna eftir að Trump er kominn og ætlar bara að skemma og eyðileggja,“ segir hún og trúir að hið illa fái ekki að dafna svo lengi sem gott fólk vinni gegn því. „Maður á aldrei að gefast upp.“ Af hverju viltu alltaf vera að hjálpa fólki? „Af því að það er það sem veitir mér mesta gleði.“ „Og þó að ekki sé hægt að hjálpa öllum eða breyta öllu er hægt að breyta hlutunum, og þá er bara að gera það. Það er ekki svo erfitt,“ segir Björg. Morgunblaðið/Ásdís 27.11. 2016 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.