Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2006, Blaðsíða 18
smáþóknun, það varð okkur víst að falli.
Þessi breyting var gerð með afar stuttum
fyrirvara, lítið kynnt og í raun með einu
pennastriki. Sjálf vissi ég ekki af þessu
fyrr en forstjóri heilsugæslunnar sagði
mér það tveim dögum áður en þetta
skall á. Margir hjúkrunarfræðingar sögðu
upp og hættu 1. janúar 1997 til að missa
ekki þessi 4,8%. Þeir hafa engan veginn
getað gert það með löglegum þriggja
mánaða fyrirvara en einhvern veginn var
það leyst. Ég gat ekki hætt, hafði aðeins
mínar tekjur auk þess sem mér fannst ég
of ung til að hætta og vildi fylgja málum
Heilsuverndarstöðvarinnar eftir því að
hún var í mikilli tilvistarkreppu. Ég tek
hins vegar fram, auðvitað átti að breyta
þessu þegar námið breyttist og nemar
hættu að vera vinnukraftur, þá var lag,
en við sem vorum vinnukraftur í náminu
áttum að halda þessu. Ég veit ekki af
hverju það var ekki leyst þannig.“
Þið hafið eðlilega ekki verið sáttar við
þetta?
„Nei, að taka þetta af okkur þessum
elstu sem höfðum unnið kauplaust öll
nemaárin fannst mér verið að ráðast á
garðinn þar sem hann er lægstur. Menn
hafa farið í verkföll og sett þjóðfélagið
á annan endann út af minnu. Ekki geta
eftirlaunaþegar farið í verkfall og ekki eru
þeir þrýstihópur. Þarna var okkur þeim
elstu fórnað fyrir þá yngri, sem guði sé
lof hafa fengið gífurlegar réttarbætur,
en það má ekki vera um of á kostnað
okkar eldri. Nú var ekki hægt að leita til
stéttarfélagsins, þá var aðeins ein leið fær,
réttarkerfið. Ég leitaði til umboðsmanns
Alþingis, sem þá var Gaukur Jörundsson,
bekkjarbróðir minn, í framhaldi af því
leitaði ég lögfræðings, Óskars Norðmann
sem var bjartsýnn á að málið ynnist. Það
er afar dýrt að fara í mál þannig að margir
hjúkrunarfræðingar stóðu við bakið á mér
en ég sótti um gjafsókn og fékk. Ég vann
málið í héraðsdómi, en illu heilli tapaði ég
því í Hæstarétti og er svo ósátt við það
að ég gat ekki litið Hæstarétt réttu auga.
Nú sit ég því uppi með 4,8% lægri laun
en ég hefði haft hefði ég verið aðeins
eldri og því getað hætt aðeins fyrr. Það
var þó mikil viðurkenning að vinna það í
héraðsdómi og margir lögfræðingar hafa
kynnt sér málíð og eru allir sammála um
að þetta hafi verið siðlaus ákvörðun og
mismuni auk þess þeim félögum FÍH sem
eru með sömu forsendur. Ekki þýðir að
deila við dómarann, málið var víst sent
til Strassborgar og er þar víst í skúffu og
verður þar líklega þangað til næst verður
gert hreint."
í dag segir hún að heilsuvernd njóti miklu
meiri skilnings en áður, nánast sé um
vakningu að ræða. „Heimahjúkrun naut
alltaf meiri skilnings en nú eru menn að
gera sér Ijóst mikilvægi þess að fá að
vera heima svo lengi sem kostur er og
verið er að gera stórátak í því efni. Það
virðist þó enn sem komið er miðast
fyrst og fremst við gamalt fólk, en við
verðum að muna að stór hluti þeirra
sem þjónustunnar njóta er ekki gamalt
fólk, það er stundum sett undir einn hatt
gamlir og heimahjúkrun. En hafa þarf
jafnframt í huga réttinn til að komast inn á
stofnun við hæfi þegar þörf krefur."
Hjúkrunarkvennatal
Bergljót segist alltaf hafa haft mikinn
áhuga á fólki, vilji vita deili á því og
fannst á sínum tíma vanta uppsláttarrit
um hjúkrunarfræðinga. Hún kom
þeirri hugmynd á framfæri að gefa
út hjúkrunarkvennatal. „Mér fannst
mikilvægt að gera það meðan enn
voru á lífi hjúkrunarkonur sem mundu
eftir brautryðjendunum," segir hún og í
desember 1964 var samþykkt á félags-
fundi FÍH að gefa út hjúkrunarkvennatal.
Sex manna nefnd var valin og auk
Bergljótar áttu sæti í henni Erna Aradóttir,
Guðrún Árnadóttir, Guðrún Guðnadóttir,
Ingileif Ólafsdóttirog Salome Þálmadóttir.
Hún segir þetta hafa verið gífurlega vinnu
sem öll var ólaunuð eins og tíðkaðist í
þá daga, allt vélritað á gamlar, þungar
ritvélar. „Við unnum þetta á kvöldin oft
til miðnættis en héldum fundi vikulega á
skrifstofu FÍH, lögðum sjálfar til kaffi og
meðlæti, og heimavinnan var endalaus.
Þetta var samvalinn hópur og tókst að
koma bókinni út í nóvember 1969. Við
fengum fimm bækur að gjöf þannig að
Hjúkrunarkvennatalið var jólagjöfin það
árið,“ segir hún og hlær.
Tíminn er floginn frá okkur og í lok samtals
segist Bergljót vera að reyna að skrifa
sögu Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.
Hún býr yfir gríðarlegum upplýsingum
sem sannarlega er verðugt að festa á
bók. „En hvað sem öðru líður þá eiga
hjúkrunarfræðingar að geta notið lífsins
til jafns við aðrar stéttir þrátt fyrir krefjandi
starf, ekki að fórna sér eins og stundum
var ætlast til hér á árum áður. Það er svo
margt gott og skemmtilegt sem lífið hefur
upp á að bjóða og sjálf hef ég nýtt mér
það til hins ýtrasta. Kannski hefði ég átt
að læra sagnfræði þegar allt kemur til alls
en þú spurðir mig ekki hvort ég mundi
læra hjúkrun ef ég stæði frammi fyrir því
að velja í dag.“
Hjúkrunarfræðingar athugið!
Til hjúkrunarfræðinga sem reka fyrirtæki eða tengjast fyrirtækjarekstri.
Hvers vegna ekki að auglýsa í Tímariti hjúkrunarfræðinga?
Veitum 20% afslátt til félagsmanna FÍH.
Hafið samband við Þórdísi Unu Gunnarsdóttur hjá Mark, markaðsmálum s. 866-3855 eða í netfangi: thordis.mark@itn.is
16
Tímarit hjúkrunarfræðinga - 4. tbl. 82. árg. 2006