Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2006, Blaðsíða 50
varðandi kynlíf og barneignir". í 2. gr. eru taldir upp nokkrir
fræðslu- og ráðgjafarþættir eins og kynlífsfræðsla og ráðgjöf,
fræðsla og ráðgjöf um notkun getnarvarna og fræðsla um
ábyrgð foreldrahlutverks. Þarna er komið skýrt inn á mikilvægi
þess að veita bæði fræðslu og ráðgjöf um kynlíf.
Á níunda áratugnum fer að bera á umfjöllun um frjósemisheilbrigði
sem varðaði rétt kvenna í sambandi við fjölskylduáætlun
(Dixon-Mueller, 1993). Grundvallarþættir frjósemisheilbrigðis
felast í því að sérhver kona eigi rétt á að stjórna frjósemi á
öruggan hátt, geta notið kynlífs og verið laus við sjúkdóma
eða lífshættu í tengslum við kynlíf eða barneignir. Jafnframt
er í hugtakinu fólginn réttur til að hafa tök á því að fæða og
ala upp heilbrigt barn (Dixon-Mueller, 1993). Á alþjóðlegu
þingi um mannfjölda og þróun, sem haldið var í Kairó árið
1994, var samþykkt skiigreining WHO um frjósemisheilbrigði.
í henni kemur fram að frjósemisheilbrigði er líkamleg, andleg
og félagsleg vellíðan í öllu er varðar frjósemina en ekki aðeins
það að vera án sjúkdóma eða heilsubrests. Skilgreiningin
tekur einnig til þess að fólk sé fært um að eiga ábyrgt, gott
og öruggt kynlíf, eigi möguleika á því að eignast barn og
frjálsræði til að ákveða hvort, hvenær og hversu oft það vilji
eignast börn. Innifalið í síðasta atriðinu er réttur karla og
kvenna til að fá upplýsingar og möguleiki til að geta nálgast
öruggar, áreiðanlegar, fjárhagslega viðráðanlegar og viðunandi
getnaðarvarnir að eigin vali til að stjórna frjóseminni (ICPD,
Programme of Action, grein 7.2, 1994; IPPF, 1995; WHO,
2001). Meginefni þessarar skilgreiningar, eins og skilgreiningar
um fjölskylduáætlun, er um frjósemi fólks, að fólk viðhaldi besta
heilbrigði hvað varðar frjósemi. Aðeins er minnst á að fólk
eigi ábyrgt, gott og öruggt kynlíf, en það er ekki meginatriði
skilgreiningarinnar.
Vægi kynlífs eykst
Upp úr 1990 fer að aukast umfjöllun á alþjóðlegum vettvangi
um kynlífs- og frjósemisheilbrigði (e. sexual and reproductive
health) eða kynheilbrigði. Með því er verið að leggja áherslu
á heilbrigt kynlíf (e. sexual health) annars vegar og heilbrigða
frjósemi (e. reproductive health) hins vegar. Slíkar áherslur koma
t.d. fram í starfsáætlun Alheimssamtaka um fjölskylduáætlun
(IPPF), sem sett var fram árið 1992 og náði tíl ársins 2000,
og í skýrslu WHO árið 2001 (IPPF, 1992; Evans og Huezo,
1997; WHO, 2001). Litið er á kynheilbrigði sem samspil
líkamlegra, andlegra, félagslegra og tilfinningalegra þátta
sem stuðla að vellíðan fólks bæði varðandi kynlff og frjósemi.
Frjósemisheilbrigði á við um alla þá þætti er varða frjósemi
einstaklingsins, verndun frjóseminnar.takmörkun barneigna
og barneignir. Kynlífsheilbrigði lýtur að heilbrigðu kynlífi fólks
og einkennandi þáttum þess. Það varðar tilfinningar, langanir
og þörf mannsins fyrir ástríki. Kynferðislegt samband, sem
einkennist af því að einstaklingar geti notið eigin verðleika sem
kynverur, er líklegt til að vera gefandi og stuðla að þroska
þeirra. Kynheilbrigði felur í sér að hlúa að heilbrigðu kynlífi
fólks en ekki er lögð megináhersla á barneignir. Það þótti
nauðsynlegt að gefa kynlífi fólks meiri gaum en áður, í stað
þess að fela það sem hluta af frjóseminni. Með umfjöllun um
kynheilbrigði verður ákveðin stefnubreyting og aukið jafnvægi
næst milli þessara tveggja þátta, þ.e. kynlífs og frjósemi.
Áherslur á þessa tvo þætti, þ.e. kynlífsheilbrigði annars
vegar og frjósemisheilbrigði hins vegar, eru og hafa verið
mjög mismunandi eftir löndum, vegna trúarlegra og pólitískra
ástæðna, menningarlegs breytileika og ólíkra þróunarstiga
(WHO, 1986). Víða er lögð megináhersla á frjósemisheilbrigði
en lítíl eða engin á kynlífsheilbrigði og ef fjallað er um kynlíf þá
er það helst í tengslum við vandamál á borð við óvelkomnar
þunganir og kynsjúkdóma (WHO, 1986). Jafnvel innan sama
lands geta verið í framkvæmd ólíkar stefnur. Ýmsar þjóðir, svo
sem Svíar og Hollendingar, hafa verið í forystu hvað áherslur á
kynlífsheilbrigði varðar (Ketting, 1993).
Aukin þekking
Meira fer að bera á umfjöllun um heilbrigt kynlíf á síðustu
áratugum. Á fundi WHO, sem haldinn var í Genf 1974, var sett
fram skilgreining á kynlífsheilbrigði sem lagði áherslu á samspil
líffræðilegra, tilfinningalegra, vitsmunalegra og félagslegra
þátta kynverunnar sem væru gefandi og styrkjandi fyrir
persónuleikann, samskipti og ást (WHO, 1975). Almennt var
þó talið að það væri erfitt að setja fram slíka skilgreiningu
sem næði til allra þátta kynlífsins þar sem margbreytileiki þess
væri mikill. Skilgreiningin skýrir samspil margra þátta, bæði
líffræðilegra og sálfélagslegra, sem styrkja einstaklinginn og
stuðla að vellíðan hans. Fram kemur í skýrslu WHO frá 1975 að
grundvallaratriði kynlífsheilbrigðis sé réttur til að fá upplýsingar
um kynlíf og til að njóta kynlífs. Jafnframt er í skýrslunni vitnað
til Mace, Bannerman og Burton (1974) sem greindu frá því að
hugtakið kynlífsheilbrigði fæli í sér þrjú grundvallaratriði (sjá í
WHO, 1975). Þau eru í fyrsta lagi að geta notið og stjórnað
kynlífi og frjósemi í samræmi við félagsleg og persóhuleg gildi.
í öðru lagi að vera ekki haldinn ótta, skömm, sektarkennd eða
ranghugmyndum sem geta haft áhrif á kynferðisleg sambönd
fólks. í þriðja lagi að vera ekki haldinn líkamlegum kvillum,
sjúkdómum eða hömlum sem geta haft áhrif á kynlíf eða
frjósemi. Kynlífsheilbrigði þýddi að Ifta á kynlíf á jákvæðan
hátt. Þannig viðhorf stuðluðu að uppbyggjandi kynferðislegu
sambandi milli fólks.
Árið 1983 hélt WHO samráðsfund til að skoða umfang kynfræða
(e. sexology) og framlag þeirra til áætlana stofnunarinnar um
kynlíf (e. sexuality) og fjölskylduáætlun og um heilbrigðisáætlun
til ársins 2000 (Langfeldt og Porter, 1986). Þar er lögð áhersla
á að kynlíf sé hluti af persónuleika hvers og eins. Það sé ein af
grunnþörfum mannsins og hluti af því að vera manneskja. Ekki
sé hægt að aðgreina það frá öðrum þáttum lífsins. Kynlff sé ekki
það sama og kynmök og snúist ekki einvörðungu um það hvort
maðurinn fái kynferðislega fullnægingu eða ekki. Kynmök og
fullnæging séu oftar en ekki hluti af kynlífi mannsins en kynlífið
sé miklu meira en það. Það nái til þess að vera skynugur og
næmur fyrir eigin tilfinningum og kynferðislegum tilfinningum
annarra. Það nái til kynhrifa og þess að hafa þörf fyrir hlýju,
nánd og ást. Kynlíf hafi áhrif á hugsanir, tilfinningar, gjörðir og
samskipti og þar með okkar andlegu og líkamlegu líðan.
48
Tímarit hjúkrunarfræðinga - 4. tbl. 82. árg. 2006