Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2006, Blaðsíða 34
Geðhjúkrun og geðorðin 10, framhald
Geðorð nr. 10
„Settu þér markmið og láttu
drauma þína rætast“
Þegar ég fór fyrir nokkrum dögum í
leikfimi rakst ég á konu sem ég þekki
frá fyrri vinnustað þar sem ég vann sem
forstöðumaðuroggeðhjúkrunarfræðingur.
Þegar ég spurði hana hvernig henni liði
leit hún á mig og sagði: „Ég er orðin
heilbrigð." Ég horfði betur á hana og sá
að hún leit mun betur út, það einhvern
veginn geislaði af henni heilbrigðið. Ég
spurði hana hvað hún hefði gert til að
sór liði betur og þá sagði hún mér að
einn góðan veðurdag hefði hún sett sér
markmið. Markmiðið hennar var að ná
heilsu á ný og því ákvað hún að hætta
að taka inn geðlyf. Hún var farin að taka
inn fulla lúku af lyfjum, þrisvar á dag, og
orðin sinnulaus og dofin. Það sem var
það versta sagði hún, „mér batnaði ekki
þrátt fyrir öll lyfin." Ég var ekki alveg viss
um hvað ég átti að segja en hugsaði til
baka þegar ég sá hana síðast og varð að
viðurkenna fyrir sjálfri mér að þá leit hún
ekki vel út. Reyndar hafði ég oft áhyggjur
af henni á þeim tíma þar sem hún var oft
föl og tekin og greinileg vanlíðan kom fram
í andliti og öllum hreyfingum. Þessi kona
hefur að mínu mati verið mjög dugleg
þrátt fyrir mikil veikindi og erfiðleika.
Alltaf fór hún út úr húsi til að hreyfa sig
og hitta annað fólk, sama hvað henni
leið illa. Hún var greind með geðklofa og
síðar með geðhvörf. Mér var oft hugsað
til þess hvernig hún gæti verið með
báða þessa sjúkdóma en samt svona
jákvæð. Hvernig gat hún fyrst fengið eina
greininguna og svo aðra til viðbótar?
Mér fannst einhvern veginn sem hún yrði
stjarfari og flatari sem persóna eftir því
sem sjúkdómsgreiningarnar bættust við.
Þegar ég spurði hana nánar út í markmiðin
hennar og hvað væri fram undan sagði
hún mér að hún hefði það markmið að
vera áfram heilbrigð. Til þess að vera
heilbrigð stundaði hún reglulega leikfimi
og væri einnig búin að opna vinnustofu
til að mála. Að loknu samtali okkar hljóp
hún út í bíl til að ná í mynd sem hún hafði
málað fyrir mig fyrir rúmu ári. Hún hafði
ætlað að gefa mér þessa mynd þegar ég
hætti á mínum fyrri vinnustað en aldrei
haft sig í það. Myndin átti að minna mig
á fjöllin á Vestfjörðum en þaðan erum við
báðar ættaðar. Það gladdi mig mikið að
fá þessa mynd. Þegar ég horfi á hana á
skrifborðinu mínu í vinnunni hugsa ég til
þessarar hugrökku konu og hvað það er
mikilvægt að hafa drauma sem manni
tekst sjálfum að láta rætast.
Tilgangur minn með því að segja ykkur
frá þessari konu er ekki sá að hvetja
sjúklingana ykkar til að hætta að taka inn
lyf heldur að minna hjúkrunarfræðinga
á hvað markmið og draumar eru mikil-
vægir. Markmiðin verða að koma frá
einstaklingunum sjálfum en ekki frá okkur
sem fagfólki. Okkar hlutverk er fyrst og
fremst að benda á leiðir og að hlusta á
sjúklingana okkar til að geta hjálpað þeim
við að setja sér markmið. Lærdómur
minn af þessari frásögn er einnig sá að
kannski þori ég ekki sem fagmanneskja
að hvetja sjúklingana mína til að setja
sér háleit markmið og nefna orðið að
verða heilbrigður vegna þess að fræðin
segja mér frekar að kenna sjúklingnum
að lifa með sjúkdómnum. Það er ekki
mitt að skilgreina hvað felst í heilbrigði og
hamingju heldur sjúklinganna sjálfra.
SigríðurHrönn Bjarnadóttir, geðhjúkrunar-
fræðingur og handleiðari, verkefnastjóri
geðteymis heimahjúkrunar.
FRÉTTAPUNKTAR
Nýr fjármálastjóri
Hjúkrunarnám í Færeyjum
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur nú gengið
frá ráðningu Sólveigar Stefánsdóttur í 50% starf
fjármálastjóra félagsins
og hefur hún þegar hafið
störf. Sólveig Stefánsdóttir
er viðskiptafræðingur, og
löggildur verðbréfamiðlari
að mennt. FÍH býður Sól-
veigu velkomna til starfa.
Veffang fjármálastjóra FÍH er
solveig@hjukrun.is.
f febrúar 2003 var hjúkrunarnámi
í Færeyjum breytt í fjögurra ára
BS-nám. Fyrstu nemarnir með
BS-gráðu útskrifast því í febrúar
2007. Hjá Félagi færeyskra
hjúkrunarfræðinga og á meðal
hjúkrunarnema er mikil ánægja
með nýja námið. Árið 2007 verður sett af stað viðbótarnám sem
hjúkrunarfræðingum með hjúkrunarmenntun samkvæmt eldra
kerfinu gefst kostur á að sækja og afla sér þannig BS-gráðu.
V.H.
32
Tímarit hjúkrunarfræðinga - 4. tbl. 82. árg. 2006