Læknablaðið - 01.02.2018, Blaðsíða 7
LÆKNAblaðið 2018/104 67
R I T S T J Ó R N A R G R E I N
#MeToo in medicine
Ólöf Sara Árnadóttir
Orthopaedic and Hand Surgeon
University Hospital of Iceland
doi.org/10.17992/lbl.2018.02.170
Ólöf Sara Árnadóttir
bæklunar- og handarskurðlæknir
Landspítala
olofsaraarnadottir@gmail.com
Þann 11. desember síðastliðinn sendu konur í læknastétt frá sér
yfirlýsingu vegna kynbundinnar mismununar, kynferðislegrar
áreitni og ofbeldis undir myllumerkinu #ekkiþagnarskylda. Undir
yfirlýsinguna rituðu 433 íslenskir kvenlæknar og læknanemar og
fylgdu henni 10 valdar frásagnir úr námi og starfi hérlendis og
erlendis. Yfirlýsingunni fylgdi einnig áskorun til allra samstarfs-
manna og stjórnenda heilbrigðisstofnana að taka höndum saman
til að uppræta þennan ósóma.
Læknafélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu 18. desember þar
sem fram kemur að: „…taka þarf á vandanum með öllum tiltækum
ráðum og uppræta hvers kyns kynferðislegt ofbeldi og mismunun
innan raða lækna og í samstarfi þeirra við aðrar heilbrigðisstétt-
ir. Stjórn LÍ mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að
konur í læknastétt standi í einu og öllu jafnfætis körlum hvað
fagleg samskipti, samvinnu og þróun í starfi varðar.“ Stofnað var
til vinnuhóps á vegum stjórnar LÍ og siðfræðiráðs sem vinnur að
tillögum um úrbætur. Efnt var til málþings á Læknadögum undir
yfirskriftinni #MeToo-átakið, frá umræðu til aðgerða. Var málþingið
vel sótt og fögnuðu fundargestir #MeToo-byltingunni og umræðu
um jafnrétti kynjanna.
Ábyrgð yfirmanna heilbrigðisstofnana er skýr eins og fram
kemur í 22. gr. jafnréttislaga um kynbundið ofbeldi, kynbundna
áreitni og kynferðislega áreitni. Þar segir: „Atvinnurekendur og
yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstaf-
anir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar
verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðis-
legri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.“1
Frásagnir í hópi kvenna í læknastétt eru nú vel yfir 100 og
bera þær vitni um kynbundna mismunun, kynferðislega áreitni,
kynferðisofbeldi, þöggun og jaðarsetningu, jafnvel þannig að
áhrif hafi haft á starfsferil viðkomandi konu. Gerendur eru oftast
karlkyns samstarfsmenn sem eru ofar í valdastiganum en einnig
eru dæmi um áreitni og mismunun frá yngri samstarfsmönnum,
öðrum starfsstéttum og frá skjólstæðingum. Svo virðist sem yngri
kvenlæknar og læknanemar verði mest fyrir barðinu á kynferðis-
legri áreitni og ofbeldi en áreitni og mismunun gagnvart sérfræði-
læknum birtist oftar í þöggun og jaðarsetningu.
Konur í heilbrigðisgeiranum sendu frá sér sameiginlega yfirlýs-
ingu þann 15. desember. Í þeim hópi kemur fram að allar starfs-
stéttir heilbrigðisgeirans glíma við vandann sem fyrirfinnst alls
staðar þar sem kemur fyrir hvers kyns valdaójafnvægi eða stig-
veldi. Læknar í nágrannalöndum okkar kljást við sama vanda og
hafa 10.400 læknar í Svíþjóð og 3600 læknar í Noregi sent frá sér
yfir lýsingu og áskorun til yfirvalda. Félag danskra kvenlækna
hefur ekki sent frá sér yfirlýsingu en ætlar að rannsaka umfang
vandans.
Hefur kynferðisleg áreitni og mismunun verið rannsökuð með-
al lækna? Athyglisverð rannsókn birtist í JAMA 2016 og var þar
skoðað umfang kynbundinnar mismununar, munur á starfsþróun
kynjanna og kynferðisleg áreitni á vinnustað meðal þeirra sem
þáðu rannsóknarstyrk NIH - National Institutes of Health á árun-
um 2006 til 2009.2 Svarhlutfall var um 62%, jafnt meðal kynjanna og
náði rannsóknin til 1066 einstaklinga. Niðurstöður sýndu að 30,4%
kvenna höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á móti 4,2% karla;
af þessum konum höfðu 40% orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri
áreitni á vinnustað og sagði meirihluti það hafa haft neikvæð áhrif
á faglegt sjálfstraust og áhrif á starfsþróun þeirra.
Í annarri rannsókn var einelti, mismunun, kynferðisleg áreitni
og önnur áreitni skoðuð og birtist hún í JNZ Journal of Surgery
2015.3 Sendur var út spurningalisti til meðlima Royal Australasian
College of Surgeons (RACS) og bárust svör frá 2478 körlum og 560
konum. Niðurstöður sýndu að algengast var að yngstu læknarnir
væru þolendur en eldri karlkyns sérfræðingar og yfirmenn væru
gerendur. Um 2% karla og 30% kvenna höfðu orðið fyrir kynferð-
islegri áreitni sem samrýmist ágætlega niðurstöðum úr rannsókn-
inni frá JAMA.
Þörf er á rannsóknum á umfangi kynferðislegrar áreitni og
kynbundins ofbeldis innan okkar stéttar, í samskiptum okkar
við aðrar stéttir og við skjólstæðinga. Einnig mætti skoða sér-
staklega kynbundna mismunun og mun á starfsþróun kynjanna
innan stéttarinnar. Aðgerðaráætlun #MeToo-vinnuhóps LÍ felur í
sér að vinna að fræðslu, rannsóknum og forvörnum. Nauðsynlegt
er að fræðsluefni um kynferðislega áreitni og ofbeldi sé aðgengi-
legt félagsmönnum, til dæmis á vefsíðu LÍ, og að þar komi fram
upplýsingar um viðbragðsáætlanir og stuðning sem sé að fá. Í því
samhengi mætti koma á fót trúnaðarráði og tryggja að úrræði, lög-
fræðileg og sálfræðileg, séu til staðar fyrir félagsmenn. Síðast en
ekki síst þurfum við að efla fræðslu og forvarnir á öllum vinnu-
stöðum lækna og læknanema. #MeToo-byltingin er upphafið að
útrýmingu þessa samfélagsmeins, en ljóst er að læknar verða að
standa saman til þess að árangur náist í þessu forvarnarverkefni
jafnt og öðrum.
Heimildir
1. Slóð á lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla: althingi.is/lagas/
nuna/2008010.html
2. Jagsi R, Griffith KA, Jones R, Perumalswami CR, Ubel P, Stewart A. Sexual Harassment and
Discrimination Experiences of Academic Medical Faculty. JAMA 2016; 315: 2120-1.
3. Crebbin W, Campbell G, Hillis DA, Watters DA. Prevalence of bullying, discrimination and
sexual harassment in surgery in Australasia. ANZ J Surg 2015; 85: 905-9.
#MeToo-bylting íslenskra lækna