Læknablaðið - 01.02.2018, Blaðsíða 37
LÆKNAblaðið 2018/104 97
sjúkdóma á ónæmissvör við inflúensu-
bólusetningu 1860 Íslendinga á aldrinum
18 til 105 ára. Við sýndum fram á að fyrri
kynni af inflúensuveirunni, sýking eða
bólusetning, hefur mest áhrif, og með
hækkandi aldri svarar fólk bólusetn-
ingunni verr. Kyn hefur ekki áhrif og
við gátum ekki sýnt að undirliggjandi
sjúkdómar hafi áhrif. Við höfum enn
ekki fundið erfðabreytileika sem tengjast
svörun við inflúensubólusetningum en
höldum enn í vonina um að finna þá.
Fyrir utan erfðafræði smitsjúkdóma hef
ég unnið að rannsóknum sem tengjast
ónæmiskerfinu, bólgusjúkdómum eins og
asthma og ofnæmissjúkdómum, sjálfsof-
næmissjúkdómum, lungnaþembu og
kæfisvefni. Hjá Íslenskri erfðagreiningu
vinnur öflugur hópur vísindamanna,
aðstaða og samstarf er frábært. Sú hug-
myndafræði sem Kári Stefánsson lagði
upp með hefur svo sannarlega skilað ár-
angri. Íslensk erfðagreining er öflugasta
rannsóknarstofnun í mannerfðafræði í
heiminum í dag, það eru sannkölluð for-
réttindi að vinna hér.“
Ekkert sem bendir til að
bólusetningar séu skaðlegar
„Mér finnst það nánast ófyrirgefanlegt
þegar foreldrar neita að láta bólusetja
börnin sín þar sem þau eru ekki einungis
að setja sín eigin börn í hættu heldur líka
önnur börn, einkum þau yngstu sem eru
ekki búin að mynda verndandi ónæmi.
Við vitum að um leið og bólusetninga-
tíðnin er komin niður fyrir 85-90% geta
sýklarnir farið að smitast milli manna.
Þá eru ungbörnin sem enn eru of ung
fyrir bólusetningu í mestri hættu. Við
höfum séð á síðustu árum að mislingar
brjótast út í löndum eins og Þýskalandi,
Bretlandi og Bandaríkjunum, af því að
fólk heldur að betra sé að láta náttúruna
hafa sinn gang og treysta á lukkuna í stað
þess að bólusetja börn til að vernda þau
gegn illvígum smitsjúkdómum, sem börn
dóu úr áður en bóluefni voru þróuð, og
deyja enn úr í fátækari löndum heims.
Við vitum að þeir sem ekki bólusetja
börnin sín trúa því að bólusetningar geti
verið barninu skaðlegar en það er ekkert
sem bendir til þess. Einstaka bóluefni
geta valdið aukaverkunum en slíkt er
afar sjaldgæft. Með bólusetningu er
hægt koma í veg fyrir 25 smitsjúkdóma
en bilið á milli fátækra landa og ríkra er
gríðarlegt hvað þetta varðar. Til dæmis
má nefna að árið 2010 voru 85% barna í
efnaðri löndum heimsins bólusett gegn
pneumókokkum en í fátæku löndum
heimsins voru 98% barna ekki bólusett.
Það er sorglegt að bóluefni sem eru til
og hafa útrýmt alvarlegum sýkingum og
dregið úr barnadauða í efnaðri löndum
heimsins eru ekki notuð sem skyldi í
þróunarlöndunum vegna fátæktar. Til
dæmis var notkun þrígilda bóluefnisins
gegn stífkrampa, kíghósta og barnaveiki
um 30% minni í fátækum en ríkum lönd-
um árið 2010 og þó er þetta bóluefni sem
hefur verið í notkun í áratugi. Hið sama
á við um mislingabóluefnið, notkun þess
í fátækari löndum heims er enn of lítil.
Síðan vantar sárlega betri bóluefni gegn
ýmsum smitsjúkdómum eins og berkl-
um og malaríu. Fyrst og fremst er það
efnahagsleg misskipting í heiminum sem
veldur því að þekkt og góð bóluefni eru
ekki notuð til að koma í veg fyrir barna-
dauða og alvarlegar afleiðingar sýkinga.“
Þörf fyrir efnahagslegt og pólítískt átak
„Árið 2012 var sett af stað verkefni sem
kallast Global Vaccination Action Plan og
fyrsta markmið þess er að öll lönd setji
sér það markmið að allir njóti bólusetn-
inga. Annað markmið er að stjórnvöld
allra ríkja krefjist þess að allir séu bólu-
settir, það sé réttur þegnanna og skylda
stjórnvalda. Síðan koma markmið sem
okkur þykja eflaust sjálfsögð en eru það
alls ekki í stórum hluta heimsins; að
öflugt bólusetningarprógram sé hluti
af heilbrigðisþjónustunni. Einnig að
rannsóknir séu auknar á nýjum bóluefn-
um og þróun á nýtingu og gjöf þeirra
bóluefna sem til eru. Þetta síðastnefnda
hefur verið eitt meginviðfangsefni Global
Vaccination and Immunization Research
Forum, þar sem ég hef verið í vísinda-
ráðgjafahópi í allmörg ár. Þar er verið að
kortleggja vandann og hvernig best sé að
standa að rannsóknum til að flýta þróun
og framleiðslu bóluefna, bæta nýtingu,
auka þol við geymslu og flutninga, auk
þróunar nýrra bóluefna. Að verkefninu
standa Alþjóðaheilbrigðisstofnunin,
Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna á
sviði smitsjúkdóma og Bill and Melinda
Gates Foundation. Sú stofnun hefur gert
gríðarlegt átak í að styrkja rannsóknir
á bóluefnum og uppbyggingu innviða
heilbrigðiskerfis í þróunarlöndum. Það
gleymist gjarnan að í þróunarlöndunum
er allt að 50% munur á tíðni bólusetninga
eftir því hvort um dreifbýli eða þéttbýli
er að ræða en skortur á innviðum er enn
meiri í dreifbýlinu. Mikið hefur áunnist á
undanförnum árum en það þarf að gera
stórátak alþjóðlega til að tryggja öllum
bólusetningar óháð búsetu og efnahag.
Það er margsannað að bólusetningar eru
besta forvörn gegn sjúkdómum sem til er
og þær eru líka efnahagslega hagkvæmar
því kostnaðurinn við að missa fólk úr
sjúkdómum sem hægt er að fyrirbyggja
er gríðarlegur. Þetta hafa hagfræðingar
sýnt fram á með óyggjandi hætti. Það eru
sannarlega sterk rök og kannski þau sem
stjórnmálamenn skilja best. Það þarf átak
á bæði pólitísku og efnahagslegu sviði
til að bóluefni komist til allra sem þurfa
á þeim að halda og þau nýtist sem best.
Það eru sjálfsögð mannréttindi allra, ekki
bara okkar sem búum í ríku samfélagi.“
U M F J Ö L L U N O G G R E I N A R
LÆKNASTOFUR
Hef lausar nokkrar stofur í nýinnréttaðri klíník að Grensásvegi 13, á mótum
Grensásvegar og Miklubrautar.
Húsnæðið hentar hóp, stökum læknum eða tannlæknum.
Við höfum ekki haft bílastæðavandamál.
Áhugasamir vinsamlegast hafið samband við undirritaðan á netfangið
bolli@utlitslaekning.is eða í síma 892 3755.
Bolli Bjarnason læknir