Læknablaðið - 01.02.2018, Blaðsíða 31
LÆKNAblaðið 2018/104 91
Má þar nefna í fyrsta lagi nauðsyn á samvinnu lækna til að
hrinda heilbrigðismálum þjóðarinnar áleiðis og auka þekkingu á
þeim, og í öðru lagi hagsmunamál læknastéttarinnar, bæði því að
læknar geti staðið sem best í stöðu sinni og að þeir fái sómasam-
leg laun fyrir starf sitt.
Læknar lifi víða við svo aumleg kjör að vart megi lífvænlegt
heita, svo aumleg að illmögulegt sé að fylgjast með í fræðigrein-
inni og óvíst sé að Alþingi fáist til að bæta kjörin að nokkru ráði.
Þetta myndi horfa öðru vísi við ef öll læknastéttin stæði sem einn
maður.
■ ■ ■
Í grein sem Guðmundur ritar 1916 segir hann:5
„Vér þurfum að „o r g a n i s e r a“ læknastéttina hér á landi og
síðan starfa samhentir bæði að ýmsum þjóðþrifum og hagsmuna-
málum stéttar vorrar.
Hvarvetna um heim eru læknar félagslyndir. Eg skil ekki að
vér stöndum öllum öðrum að baki.“
Undirbúningi að stofnun íslensks læknafélags miðaði áfram og
félagið var formlega stofnað á félagsfundi í Læknafélagi Reykja-
víkur 14. janúar 1918.
Á fyrsta aðalfundi Læknafélags Íslands 1919 lagði Guðmundur
Hannesson, fyrsti formaður þess, til að Ásgeir Blöndal yrði gerð-
ur að heiðursfélaga. Hann hefði fyrstur lagt til að læknar hér á
landi mynduðu félagsskap með sér.
Árið 1933, á 15 ára afmæli félagsins, var Guðmundur Hannes-
son kosinn annar heiðursfélagi Læknafélags Íslands. Hann hvarf
þá úr stjórn eftir samfellda 15 ára stjórnarsetu, þar af 10 ár sem
formaður.
■ ■ ■
Á eftir verða 15 núverandi félagsmenn heiðraðir fyrir störf sín.
■ ■ ■
Árangursríkt félagsstarf byggir á þátttöku og virkni félagsmanna
og líka á virðingu í samskiptum þeirra á milli. Það er mikilvægt
að temja sér hófsemi í orði og framkomu.
Að gleyma aldrei hver við erum og að til okkar er horft sem
einstaklinga og sem hluta af ævafornri samheldinni stétt sem
þekkt er fyrir að hafa frá örófi alda sett sér siðareglur og unnið
læknaeiðinn.
Góðir félagar. Siðareglur okkar, Codex ethicus, eru ekki úr lausu
lofti gripnar. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eigum við
öll við meðfædda bresti mannsins að glíma og togstreita milli
dyggða og lasta er eilíf barátta allt okkar líf.
Ég er viss um að öll getum við litið í eigin barm og fundið orð
sem betur hefðu verið ósögð, framkoma og atvik sem við iðrumst.
Þá er mikilvægt að sú reynsla og þau orð verði okkur lærdómsrík.
Okkar þroskaskref.
Styðjum þá sem eiga um sárt að binda, en einnig þá sem hafa
vikið af hinum beina vegi. Verum öðrum leiðarljós og sýnum hóf-
semi og miskunnsemi í dómum okkar.
■ ■ ■
Það er ekki alltaf auðvelt að vera læknir. Að fylgjast með í erfið-
um veikindum sjúklinga sinna, að styðja syrgjandi fjölskyldur,
að vera kletturinn sem rís upp úr ölduróti sorgar og gleði á ögur-
stundum í lífi samborgara okkar. Það reynir á lækna í samskipt-
um sín á milli og við aðra.
Þess sjást merki að það tekur sinn toll að vera læknir, bæði
af heilsufari og fjölskyldulífi lækna. Þessu þurfum við að mæta
sem einstaklingar og sem samheldin stétt. Það er okkar helsta
núvitundar verkefni. Gleðistundir eru mikilvægar, næsta vika –
Læknadagar, er okkar sólrisuhátíð.
■ ■ ■
Ég vil að lokum færa afmælisnefndum félagsins okkar, starfsfólki
og félögum mínum í stjórn LÍ þakkir og þeim fjölmörgu félögum
í okkar röðum og samstarfsaðilum sem lagt hafa hönd á plóginn
til að gera 100 ára afmæli Læknafélags Íslands að stund gleðinnar
og stund framtíðarinnar.
Það er með auðmýkt og þakklæti sem ég stend hér og minnist
þessara tímamóta. Megi gæfa og gleðiríkir dagar fylgja Læknafé-
lagi Íslands og félagsmönum þess. Megi starfsemi félagsins verða
landinu og læknum áfram til gagns og blessunar um ókomna tíð.
Til hamingjum með daginn íslenskir læknar.
Heimildir
1. Ísberg JÓ. Líf og lækningar, íslensk heilbrigðissaga. Reykjavík 2005: 47.
2. Hannesson G. Íslenskt læknfélag. Læknablaðið 1915; 1: 3.
3. Hanneson G. Íslensk læknafélög. Læknablaðið 1915; 1: 30.
4. Jónsson J. „Um læknafundi.“ Læknablaðið 1936; 22: 58.
5. Hannesson G. „Íslenskt læknafélag.“ Læknablaðið 1916; 2: 169-71.
Forsetinn, Guðni Th. Jóhannes-
son, mættur til leiks í Hörpu til
að ávarpa hið hundrað ára gamla
Læknafélag Íslands. Reynir Arn-
grímsson formaður og Sólveig
Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri
bjóða hann velkominn.