Jökull - 01.01.2016, Síða 101
Data report
Jöklabreytingar 1930–1970, 1970–1995,
1995–2014 og 2014–2015
Bergur Einarsson
Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 9, 108 Reykjavík; bergur@vedur.is
YFIRLIT — Upplýsingar bárust frá 36 sporðamælistöðum haustið 2015. Mæling náðist ekki á 9 stöðum. Á
óvenju mörgum stöðum, eða alls 8, huldi snjór jökulsporðinn þetta haustið, eftir snjóþungann vetur og kalt
sumar. Við vestanverðan Skeiðarárjökul var ekki hægt að komast að sporðinum vegna breytinga á farvegi Súlu,
sem nú hefur fært sig yfir í Gígjukvísl í stað þess að sameinast Núpsvötnum líkt og áður. Af þeim 27 stöðum
þar sem mæling náðist hopa 18 en 6 ganga fram. Svínafellsjökull stendur svo í stað á öðrum af tveimur mæli-
stöðum. Af nýlegum upplýsingum frá haustinu 2016 má ætla að mælingar haustið 2015 við Heinabergsjökul
séu ómarktækar vegna þess að ístunga er á floti í lóni framan við jökulinn og brotin frá skriðjöklinum sjálfum.
Mögulega hafa aðstæður við Heinabergsjökul verið þær sömu undanfarin ár og að þar með sé komin skýring á
miklum sveiflum í mældri stöðu sporðsins.
ATHUGASEMDIR OG VIÐAUKAR
Haustið 2016 var haldinn samráðs- og fræðslufundur
um sporðamælingar Jöklarannsóknafélagsins. Mæt-
ing á fundinum var framar björtustu vonum, með
þátttöku yfir 40 sporðamælingamanna og áhugafólks
um jöklabreytingar. Á fundinum voru kynntar nýj-
ustu rannsóknir á sögu Drangajökuls og breyting-
um á skriðjöklum við sunnanverðan Vatnajökul auk
þess sem fjallað var um nýhorfna jökla og hraðvax-
andi breytingar á Grænlandsjökli og Suðurskautsjökl-
inum. Einnig var sagt frá sporðamælingum félagsins
og hvernig þeim er miðlað en eitt af aðal umræðuefn-
um fundarins var framtíðarfyrirkomulag sporðamæl-
inganna. Nú eru ýmsir möguleikar á mælingum komn-
ir til sögunnar svo sem GPS-mælingar, sem ekki voru
til staðar þegar mælingarnar hófust fyrir hartnær öld.
Í framhaldi af fundinum stendur til að útbúa leiðbein-
ingar um notkun GPS-tækja til mælinga og skilgreina
miðlínu eða straumlínu fyrir hvern jökul sem henta
til þess að fylgjast með breytingum á stöðu sporðsins.
Gömlu mæliaðferðirnar með málbandi frá föstum við-
miðunarpunktum eru þó ennþá í fullu gildi og verður
öllum frjálst að halda sig við þær kjósi fólk svo.
Snæfellsjökull
Hyrningsjökull og Jökulháls – Samkvæmt skýrslum
Hallsteins Haraldssonar var mikill snjór við sporðana
og því ómögulegt að finna jökulröndina.
Drangajökull
Kaldalónsjökull – Nú hefur Viðar Már Matthíasson
tekið við mælingum á Kaldalónsjökli af Indriða Aðal-
steinssyni á Skjaldfönn. Jöklabreytingaskýrslunni í ár
fylgir því ekki áður árlegur pistill Indriða um tíðar-
og náttúrufar í Skjaldfannardal. Viljum við hér nýta
tækifærið til að þakka Indriða fyrir allar fróðlegu og
skemmtilegu samantektirnar. Ekki var hægt að mæla
stöðu jökulsins vegna snjóskafls við sporðinn.
Reykjarfjarðarjökull – Þröstur Jóhannesson fór til
mælinga á Reykjarfjarðarjökli þann 19. september.
Mikið virðist hafa gengið á í vatnafari í Reykjarfirði
en eins og Þröstur segir í bréfi með mælingunum:
„Það vakti athygli mína að stígvélafært var yfir
Þaralátursós sem að vísu rann í tveimur kvíslum. Víða
voru ummerki í landinu eftir mikið vatnsveður fyrir
nokkrum vikum á Ströndum. Allir lækir farið langt
yfir bakka og mikið úrrennsli úr göngugötum.“
JÖKULL No. 66, 2016 101